Jonathan skrifaði þennan texta 2016 og birti hann á Facebook og sænskir fjölmiðlar fjölluðu í kjölfarið um hann, þar á meðal Expressen. Færslan vakti mikla athygli og tugir þúsunda manna deildu henni á Facebook. Nýlega voru þessi áhrifamiklu skrif Jonathan rifjuð upp enda ekki vanþörf á að upplýsa fólk um þær hryllilegu aðstæður sem mörg börn búa við.
Það var 2016 sem Jonathan heimsótti stórt vændishúsahverfi á Indlandi ásamt nokkrum félögum sínum úr samtökunum LoveNepal. Á þessu svæði er mörg þúsund stúlkum á aldrinum 9 til 12 ára haldið og þeim nauðgað af fullorðnum körlum margoft á hverjum degi. Jonathan segir að það sé lífshættulegt að vera á þessu svæði sem sé „stórar fangabúðir fyrir kaldrifjaða morðingja“. Hann og félagar hans ákváðu samt sem áður að laumast inn á eitt vændishúsið til að öðlast innsýn í líf stúlknanna.
Áður en Jonathan og félagar hans komu að vændishúsunum blasti hræðileg sjón við þeim.
„Maður getur séð allt niður í 10 ára andlit standa bak við járnrimla. Ég sé nokkur andlit en í öðrum gluggum sé ég bara litlar hendur teygja sig út. Djarflega klæddar eru þær neyddar til að laða mörg hundruð karla inn af götunni.“
Þegar Jonathan og félagar komu inn í vændishúsið voru þeir fljótlega umkringdir af 20-30 litlum stúlkum. Tvær þeirra komu strax að honum og byrjuðu að snerta hann.
„Hvað á ég að gera? Ég bendi á stúlku. Hún tekur í hönd mína og við förum inn í lítinn klefa. Hún læsir dyrunum og ég segi henni strax að ég sé ekki hér af sömu ástæðu og allir hinir heldur af því að mér þyki vænt um hana.“
Hann talaði við hana og segir að á þeim tæpum 20 mínútum sem hún var í félagsskap með venjulegri manneskju hafi hún „breyst í engil“ og hafi verið niðurbrotin þegar hann þurfti að fara.
„Augu hennar fylltust af tárum og áður en ég fór bað hún mig um að koma aftur. Ég berst við að halda aftur af tárunum þegar ég skrifa þetta. Við náðum ekki að frelsa hana.“
Expressen hefur eftir Jonathan að hann hugsi sífellt um litlu stúlkuna og örlög hennar.
„Þessi litla stúlka sem ég skrifaði um. Þessi stúlka er manneskja sem stendur hjarta mínu nærri. Ég hugsa sífellt um hana. Hvað er hún að gera núna? Hvernig hefur hún það? Við náðum svo góðum tengslum á skömmum tíma. Það er mjög tilfinningaríkt að vinna í tengslum við mansal.“
Jonathan segir að það geti verið lífshættulegt fyrir stúlkurnar að reyna að flýja vændið. Önnur stúlka, sem var bjargað úr sama vændishúsi, missti næstum lífið þegar hún reyndi að flýja.
„Lögreglan lofaði að hún myndi fá frelsi en það endaði með að þeir nauðguðu henni. Að lokum gat hún ekki meira. Þeir pyntuðu hana í síðasta sinn, helltu chilidufti í sár hennar og gáfu henni raflost. Síðan var henni hent út á götu til að deyja.“
Þrjár vinkonur litlu stúlkunnar voru myrtar fyrir framan hana af eiganda vændishússins.
Það tókst að lokum að frelsa litlu stúlkuna sem býr nú á einu af barnaheimilum LoveNepal en samtökin vinna að því að hjálpa börnum að losna úr ánauð vændis.