Lögreglan staðfesti klukkan 18 í gær að maðurinn hefði látist af völdum áverka sinna. Aftonbladet segir að einn hinna grunuðu hafi verið handtekinn í gær en hann blandaði sér í hóp forvitinna áhorfenda og tók sér stöðu utan við morðvettvanginn. Lögreglumenn báru kennsl á hann og handtóku.
Við handtökuna kom til óláta og átaka á vettvangi þegar um 10 karlmenn brugðust illa við handtökunni. Lögreglan var fjölmenn á vettvangi, þar á meðal sérsveitarmenn, og var mönnunum raðað upp við húsvegg og látnir standa þar í langa stund á meðan lögreglan leitaði á þeim og sinnti öðru sem þurfti að sinna.
Fórnarlambið var þekktur í undirheimunum en hann hlaut dóm í sumar fyrir ofbeldisverk. Hann hafði einnig setið í fangelsi fyrir gróf afbrot að sögn Expressen. Hann er einnig talinn tengjast tveimur morðum í Hallonbergen í Stokkhólmi í nóvember en þá voru tveir menn á þrítugsaldri skotnir til bana.