Það var Ágúst Kárason, sjómaður frá Neskaupstað, sem flutti skepnuna inn til landsins. Hann keypti hana í ónefndu Evrópulandi um áramótin 1989 til 1990. Þá var hann aðeins um 30 til 40 sentimetra langur. Í kjölfarið smyglaði hann krókódílnum til landsins inni í pakka utan af kornflexi.
Ágúst nefndi hann Króka og geymdi hann í búri. Í samtali við DV sumarið 1990 sagði hann Króka vera rólegheitaskepnu sem engum gerði mein. Aldrei biti hann neinn en einstaka sinnum lemdi hann halanum í fólk. Þá aðeins ef fólk væri að hamast í honum. Í raun væri jafn eðlilegt að halda krókódíl eins og hund.
„Króki var duglegur að éta og át helst kjöt og fisk. Ég hafði nokkrum sinnum farið með hann út til að viðra hann og það hafði gengið vel. Honum þótti gott að komast út, hann var mjög sprækur og fljótur að hlaupa.“
Sumarið 1990 var Króki orðinn hálfur metri að lengd, feitur og pattaralegur. Krókódílar af hans tegund geta orðið allt að þrír metrar.
Laugardaginn 16. júní fór Ágúst með hann inn í Fannadal til að leyfa honum að svamla í pollum og skríða í grasi. Var Króki látinn í volgan poll, um 40 metrum frá Norðfjarðará. Ágúst leit aðeins af skepnunni í um fimm mínútur og það var nóg til að hann týndi henni.
Eftir þetta fór Ágúst rakleitt til manns að nafni Guðbjartur Hjálmarsson í Neskaupstað sem hann vissi að ætti þjálfaðan labrador leitarhund. Guðbjartur kom með hundinn sem þefaði af búri Króka og rakti síðan slóðina. Hundurinn hætti hins vegar að rekja þegar hann kom að bakka Norðfjarðarár.
„Við létum hann leita aftur og hann endaði aftur við ána, svo við teljum líklegt að Króki hafi farið í ána,“ sagði Guðbjartur við DV eftir þetta.
Þeir félagar töldu ólíklegt að Króki myndi lifa það af að enda í ánni. Einnig ólíklegt að hann gæti lifað af íslenska sumarnæturkuldann. Jafnvel þó að þeir teldu það ólíklegt að hann væri á lífi og væru ekki vongóðir um að finna hann yfirhöfuð, þá héldu þeir leitinni áfram daginn eftir.
Ekki var öllum skemmt yfir þessu. Til dæmis Brynjólfi Sandholt yfirdýralækni. Hann tók þessu mjög alvarlega og sendi lögreglunni í Neskaupstað bréf og krafðist þess að málið yrði rannsakað; hvernig krókódíllinn komst hingað til lands.
„Það er lögreglunnar að sjá um rannsókn þessa máls og það er saksóknara að skera úr um hvort eigandi krókódílsins verður kærður eða ekki,“ sagði Brynjólfur við DV 19. júní.
Þann sama dag bárust fregnir af því að óhugsandi væri fyrir Króka að lifa af kuldann í Norðfjarðará. Kjörhiti hans var í kringum 30 gráður en hitinn í vatninu á Norðfjarðará nær tveimur gráðum. Straumþungi væri þar einnig mjög mikill. Ekki var loku skotið fyrir að Króki hefði komist úr ánni þegar hann fann hversu köld hún var. Eftir nokkra daga gáfu heimamenn fyrir austan upp alla von á að finna hann á lífi.
Lögregla yfirheyrði Ágúst vegna málsins og játaði hann að hafa flutt Króka inn til landsins, sem er ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum. Eftir rannsóknina var málið sent til ríkissaksóknara.
Það sem flækti málið í hugum fólks var sú saga sem hann sagði Tímanum. Hún var algjörlega á skjön við það sem aðrir fengu að heyra. Við blaðamenn Tímans sagði Ágúst að þetta hefði allt saman verið eitt stórt gabb. Að aldrei hefði verið til neinn lifandi krókódíll á staðnum heldur aðeins þurrkaður og uppstoppaður.
„Þetta er allt þáttur í stóru gabbi, og þetta er komið allt of langt,“ sagði Ágúst við Tímamenn. „Fjölmiðlarnir mega velta sér upp úr þessu eins og þeir vilja. Ég myndi segja að þetta væri að draga þá á asnaeyrunum. Ég segi þér þetta núna. Þið verðið sem sagt fyrstir með fréttirnar.“
Sagði hann að fjórir félagar hefðu tekið saman ráð um grínið en hann gat þó ekki bent á þá. Jafnframt hafði Tíminn haft samband við nágranna Ágústs sem staðfesti að krókódíllinn hefði sést í bænum. Flækti þetta nú málið nokkuð í augum almennings og voru ekki allir vissir um að Króki hefði nokkurn tímann verið til. Að minnsta kosti fannst ekkert hræ og fréttist ekkert meira af málinu.