Málshöfðun vegna Borgunarmálsins enn í vinnslu – Ríkisendurskoðun skilar í nóvember
Stjórnendur Landsbankans hafa ekki enn höfðað mál fyrir dómstólum vegna sölu bankans á eignarhlut hans í Borgun hf. Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, vill ekki svara því hvort búið sé að ákveða hverjum verði stefnt eða hvenær niðurstaða muni liggja fyrir. Ákvörðun um málshöfðunina var tekin á fundi ráðsins fimmtudaginn 11. ágúst og segir Helga að málið sé enn í vinnslu og að engar frekari upplýsingar verði veittar að sinni.
Landsbankinn sendi frá sér fréttatilkynningu daginn eftir að bankaráðið tók ákvörðun um málshöfðunina en þá var ekki búið að taka ákvörðun um hverjum yrði stefnt. Í henni kom fram að fyrirtækið ætli sér að höfða mál vegna sölu á 31,2 prósenta hlut bankans í greiðslukortafyrirtækinu á 2,2 milljarða króna. Landsbankinn seldi hlutinn í lokuðu söluferli til tveggja fjárfestahópa í nóvember 2014. Eigendur Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. keyptu þá 24,96 prósenta hlut og félag á vegum stjórnenda Borgunar, BPS ehf., keypti 6,24 prósent. Samkvæmt upplýsingum DV hafa forsvarsmenn félaganna ekkert heyrt af fyrirhugaðri málshöfðun fyrir utan það sem kom fram í tilkynningu bankans.
Helga Björk segir í skriflegu svari við fyrirspurn DV að málið sé enn í vinnslu og að hún geti ekkert tjáð sig um það að svo stöddu. Í samtali við DV í ágúst síðastliðnum sagði hún að lögfræðingar bankans væru að undirbúa málshöfðunina og að það gætu liðið nokkrar vikur, eða meira, þangað til niðurstaða um hverjum verði stefnt lægi fyrir. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sem fer með 98,2 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum, hafði þá engar frekari upplýsingar um málið en þær sem komu fram í stuttri tilkynningu bankans. Vísaði hann þá í tilkynningu Landsbankans frá 16. mars síðastliðnum um að bankinn hefði falið lögmönnum sínum að undirbúa málsókn vegna Borgunarsölunnar.
Bankaráðið telur Landsbankann hafa farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem honum hafi ekki verið veittar nauðsynlegar upplýsingar. Eins og frægt er orðið samdi bankinn ekki um viðbótargreiðslu vegna milljarðagreiðslunnar sem Borgun hefur innheimt vegna yfirtöku Visa Inc. í Bandaríkjunum á Visa Europe. Stjórnendur hans gerðu aftur á móti fyrirvara um hlutdeild í greiðslum sem Valitor fékk vegna samrunans en bankinn seldi Arion banka 38,62% hlut sinn í greiðslukortafyrirtækinu í desember 2014 eða mánuði eftir að viðskiptin með bréfin í Borgun kláruðust.
Ríkisendurskoðun vinnur að úttekt á allri eignasölu Landsbankans á árunum 2010 til 2016. Ákveðið var að ráðast í hana vegna beiðna frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum og Bankasýslu ríkisins um að hún tæki eignasöluna til skoðunar í kjölfar Borgunarmálsins. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun er enn stefnt að því að niðurstöður hennar verði birtar í skýrslu til Alþingis í næsta mánuði.