Þegar litið er aftur í tímann má nefna hryðjuverk hægrimanna á sjöunda áratugnum en þeim var ætlað að koma í veg fyrir að Frakkar létu Alsír af hendi sem nýlendu. Meðal annars sprengdu hægrimenn sprengju í lest í norðurhluta Frakklands 1961 og varð hún 28 að bana.
Á áttunda og níunda áratugnum voru margar hryðjuverkaárásir gerðar í Frakklandi og komu hryðjuverkasamtökin Svartur september þar stundum við sögu sem og „Sjakalinn Carlos“. Á tíunda áratugnum voru það síðan hópar frá Alsír sem stóðu á bak við margar árásir.
Margir mismunandir hópar, sem hafa ýmis baráttumál í hávegum, hafa staðið að baki þessum árásum en oft eiga baráttumálin það sameiginlegt að tengjast alþjóðlegum deilum. Af þessum sökum hafa Frakkar rekið harða stefnu hvað varðar eftirlit og refsingar í hryðjuverkamálum en hafa lagt minni áherslu á forvarnarstarf.
Þessi aðferðafræði gaf góða raun þar til 2012 þegar ný bylgja hryðjuverka skall á landinu en hún hófst með þremur árásum Mohammed Merah á tæpum tveimur vikum í suðurhluta landsins. Síðan þá hafa rúmlega 20 hryðjuverkaárásir verið gerðar í landinu.
Eflaust liggja margvíslegar ástæður að baki því hversu oft Frakkland er skotspónn hryðjuverkamanna og hafa sérfræðingar meðal annars nefnt til sögunnar hversu virka utanríkisstefnu Frakkar reka. Þeir hafa tekið þátt í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum á borð við Íslamska ríkið í Sýrlandi og Írak. Einnig hafa samfélagsleg vandamál innanlands verið nefnd til sögunnar en margir, oft á tíðum innflytjendur eða afkomendur þeirra, telja sig standa utan samfélagsins því þeir eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu, fá vinnu og lifa eðlilegu lífi. Þetta getur ýtt þeim, oft eru þetta ungir karlar úr úthverfum stórborganna, út í afbrot og síðan áfram í hendur hryðjuverkasamtaka sem vilja gjarnan nýta sér krafta þeirra.