Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, Explaining Extreme, sem var birt í vikunni í Bulletin of the American Meteorological Society.
Í myndbandinu hér fyrir neðan er búið að safna saman myndbrotum af fimm verstu náttúruhamförum síðasta árs en þessar hamfarir koma einmitt við sögu í fyrrgreindri skýrslu.
Í fréttatilkynningu frá Bulletin of the American Meteorological Society segir Jeff Rodenfeld, ritstjóri, að rannsóknin sýni að hnattræn hlýnun haldi áfram að auka öfgar í veðurfari. Skýrslur hafa verið birtar undir heitinu ´Explaining Extremes´ á hverju ári síðan 2011 en í þeim reyna vísindamenn að varpa ljósi á hvaða náttúruhamfarir urðu af völdum hnattrænnar hlýnunnar. Í nýju skýrslunni er fjallað um náttúruhamfarir sem hefðu ekki orðið nema vegna áhrifa okkar mannanna á loftslagið en þetta er í annað sinn sem vísindamenn segja að slíkar hamfarir hafi orðið. Þar er um að ræða mikinn sjávarhita við strendur Austur-Afríku sem orsökuðu þurrka með tilheyrandi matarskorti fyrir sex milljónir manna í Sómalíu.
Vísindamennirnir rannsökuðu 16 náttúruhamfarir á síðasta ári en 120 vísindamenn komu að rannsókninni. Þessar hamfarir áttu sér stað í sex heimsálfum og tveimur höfum. Söguleg gögn voru borin saman við gögn síðasta árs og reiknilíkön notuð til að sjá hversu mikil áhrif loftslagsbreytingarnar hafa haft á umfang þessara hamfara.
Meðal niðurstaðna rannsóknarinnar er að nú séu þrisvar sinnum meiri líkur á miklum hitabylgjum í Suður-Evrópu en var 1950. Einnig eru tvöfalt meiri líkur á flóðum í Bangladesh en 1950. Það er hlýnun heimshafanna sem hefur einna mest áhrif á náttúruhamfarirnar en hún gæti ekki hafa orðið nema vegna áhrifa okkar manna á umhverfið að sögn vísindamannanna.