Fjölbreytni einkenndi niðurstöðu Bóksalaverðlaunanna þetta árið, en starfsfólk bókaverslana valdi þrjú bestu skáldverk ársins. Í fyrsta sæti er Auður Ava Ólafsdóttir með Ungfrú Ísland. Í öðru sæti er nýliðinn Fríða Ísberg með hið áhugaverða smásagnasafn, Kláði. Spennusagnahöfundurinn vinsæli, Ragnar Jónasson, er síðan í þriðja sæti með hina kynngimögnuðu bók, Þorpið.
Úrslitin voru kunngjörð í bókmennaþættinum Kiljunni á RÚV.
Erlendar smásögur á flugi
Meira um bóksalaverðlaunin. Smásögur heimsins er merkilegur bókaflokkur frá Bjarti undir ritstjórn Rúnars Helga Vignissonar. Áður hafa komið út smásögur frá Norður-Ameríku og Suður-Ameríku í bókaflokknum. Núna er komið að Asíu og Eyjahafi. Bókin hlaut önnur verðlaun í flokki þýddra skáldverka í vali starfsfólks bókabúðanna. Þess má geta að þýðendur margra sagnanna eru nemendur í ritlistardeild HÍ.