Norræni danstvíæringurinn Ísheit Reykjavík stendur nú yfir í Reykjavík, en um er að ræða stærsta samstarfsverkefni Norðurlanda í dansi. Ísheit stendur yfir frá 12. – 16. desember.
Þessi stóri viðburður hefur verið haldinn í öllum hinum höfuðborgum Norðurlanda, fyrst í Stokkhólmi 2010, þá í Helsinki 2012, Osló 2014 og nú síðast í Kaupmannahöfn 2016 og nú er komið að Reykjavík. Verkefnið er hluti af 10 ára áætlun sem leiðandi stofnanir í dansi á Norðurlöndum gerðu árið 2009. Helsta markmið þeirrar áætlunar er einfalt: að auka alþjóðleg atvinnutækifæri norræns danslistafólks.
Ísheit Reykjavík er allt í senn
* Hátíð þar sem skráðir þátttakendur og gestir geta séð það besta í norrænum dansi
* Showcase eða kaupstefna með um 350 alþjóðlegum stjórnendum danshátíða, listahátíða og leikhúsa
* Vettvangur fyrir tengslamyndun milli alþjóðlegra gesta og norræna danslistamanna og framleiðenda
* Staður þar sem íslenskt sviðslistafólk getur hitt kollega, myndað tengsl, fengið nýjar hugmyndir, eignast samstarfsfélaga, nýtt sem stökkpall og þróað list sína
* Þekkt gæðavörumerki fyrir norrænan dans
* Leikur með ímynd Norðurlanda í gegnum litríkar myndir þar sem við gerum grín að sjálfum okkur
* Stærsta danshátíð sem haldin hefur verið á Íslandi
39 dansverk verða sýnd eða kynnt í Reykjavík á fjórum dögum. Þau voru valin af dómnefnd og bárust 355 umsóknir frá öllum Norðurlöndum. Aldrei hafa fleiri umsóknir borist í ICE HOT.
Listamenn hátíðarinnar eiga það sammerkt að tala skýrri listrænni röddu. Dagskráin býður upp á firnasterk verk sem fanga líkamann, hugann og hjartað. Þau eru fjölbreytt, unnin af listfengi og eldmóði af höfundum sem standa með báða fætur á jörðinni og rýna í þann heim sem við þeim blasir. Listamennirnir ávarpa daginn í dag og sýna kraft, áræðni og þor. Þau skoða stöðu sína í samtímanum og varpa fram hugmyndum um feminisma, sjálfið, kyn, ástina, lífið, dauðann og hlutverk listarinnar. Alla dagskránna má finna hér.
Öll borgin verður vettvangur Ísheitrar Reykjavíkur. 20 verk verða sýnd á flestum leiksviðum borgarinnar, Borgarleikhúsinu, Kassanum í Þjóðleikhúsinu, Tjarnarbíó, Iðnó, Dansgarðinum og í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Sýningar verða einnig í Listasafni Reykjavíkur og utandyra við strandlengju borgarinnar. 19 verk verða kynnt í sérstakri dagskrá í Bíó Paradís sem ber yfirskriftina Meira Meira Meira. Auk sýninga verða 17 fjölbreyttar málstofur og vinnustofur í boði í Bíó Paradís, í Norræna húsinu og í nýja Dansverkstæðinu við Hjarðarhaga. Erlendum gestum var boðið upp á upplifunarferð 11. – 12. desember og er það leikhúsið Frystiklefinn á Rifi á Snæfellsnesi sem stóð fyrir ferðinni.
Alls taka 110 listamenn þátt í Ísheitri Reykjavík. Auk þess að sýna og kynna verk á hátíðinni er listamönnum boðið upp á yfirgripsmikið undirbúningsnámskeið þar sem þjálfari vinnur markvisst með hverjum og einum hóp svo hann geti nýtt viðskiptatækifærið sem Ísheit Reykjavík býður upp á sem best. Listamenn eiga einnig samtöl við umboðsmenn, stjórnendur og framleiðendur. Í þessu samhengi er handbókin It Starts With a Conversation notuð en samstarfaðilar gáfu hana út árið 2017 og er ætluð fyrir listamenn og framleiðendur sem vilja vinna alþjóðlega. Bókina má nálgast á vefslóðinni www.itstartswithaconversation.org.
Formlegur samtarfsaðili Íslands í ICE HOT samstarfinu er Sviðslistasamband Íslands. Norrænir samstarfsaðilar eru danshúsin í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Osló og Finnska danskynningarskrifstofan. Samstarfsaðilar á Íslandi eru fjölmargir, auk Sviðlistasambandsins, Sjálfstæðu leikhúsin, Dansverkstæðid, Félags íslenska listdansara og Félag íslenskra danshöfunda, Íslenski dansflokkurinn, Gaflaraleikhúsið, Bíó Paradís, Borgarleikhúsið, Mengi, Tjarnarbíó, Dansgarðurinn, Dansverkstæðið, Þjóðleikhúsið og fleiri.
Verkefnið nýtur stuðnings Norrænu ráðherrannefndarinnar, Norræna menningarsjóðsins og Norrænu menningargáttarinnar, Mennta og menningarmálaráðuneytisins á Íslandi, Reykjavíkurborgar, Fullveldissjóðs, Íslandstofu, Sænska listráðsins, Danska listráðsins og Danska menningarmálaráðuneytsins.