Ríkisstjórnin hyggst nú keyra samgönguáætlun í gegn í skjóli þess að stjórnarandstaðan er í henglum vegna hneykslismála. Það sem hæst ber á góma í áætluninni eru vegtollar sem munu væntanlega verða settir upp á helstu umferðaræðum út og inn á höfuðborgarsvæðið.
Sigurður Ingi samgönguráðherra gefur fögur heit um að tollurinn renni í „stórt stökk“ í vegaframkvæmdum á suðvesturhorninu, sem ekki er vanþörf á. Í ljósi fyrri reynslu er hins vegar líklegt að tollarnir verði fremur varanlegur tekjupóstur fyrir ríkið. Í raun aukaskattur á þá sem nota vegina. Sérstaklega þá fjölmörgu sem búa í nágrannasveitarfélögunum en starfa í borginni.
Til samanburðar má nefna útvarpsgjaldið. Ekki nema brot af því rennur í raun og veru til Ríkisútvarpsins. Restin fer í almennan rekstur ríkisins þrátt fyrir að vera kallað útvarpsgjald.