Rapparinn Emmsjé Gauti sýnir nú á sér nýja hlið, en í samstarfi við Helga skóhönnuð hefur hann hannað sína fyrstu strigaskó. 20 pör eru í boði og er hægt að skrá sig í happdrætti á vefsíðu verslunarinnar Húrra Reykjavík til að eiga kost á að eignast kauprétt að pari.
Í viðtali við Vísi segist Emmsjé Gauti lengi hafa haft mikinn áhuga á strigaskóm. „Í raun og veru hófst þetta fyrir alveg einu og hálfu ári. Þá datt mér í hug að gera skó – upprunalega ætlaði ég að athuga hvort ég gæti fengið eitt par sem ég gæti „moddað“ og búið til Vagg og veltu skóna.“
Skórnir eru Air Jordan I mid og eru hannaðir í þema nýjustu plötu Emmsjé Gauta, Fimm. Vildi hann gera meira en að tússa bara á þá og gekk á milli saumastofa, áður en honum var bent á Helga Líndal. Einnig komu Björn Geir vinur Emmsjé Gauta, sem vinnur í skóbúð í San Francisco og Bobby Breiðholt, hönnuður plötunnar Fimm að hönnun skónna, sem eru málaðir með sérstakri skómálningu, reimarnar eru breyttar og koma þeir í sérsaumuðum taupoka í kassa sem er sérgerður hér á landi. Vínylplata af Fimm fylgir síðan með.
Happdrætti um kaupréttinn verður á Húrra og tekið verður við skráningum á vefsíðu þeirra fram að miðnætti á föstudag, dregið verður á laugardagog þeir heppnu geta sótt skóna á sunnudag.
„Ég skil að ungir menn geti hangið í röð með sperrtan líkama sem þolir enn kulda. En við erum auðvitað að sigla inn í harðan vetur – það var lokað í Laugardalslauginni um daginn vegna þess að það voru eldingar í henni. Ég er bara hræddur um fólk. Ég vil ekki myrða neinn.“