Leikkonan og uppistandarinn Þuríður Elín, eða Ebba Sig eins og hún er oftast kölluð, er mjög vanaföst þegar kemur að jólum og hlakkar ávallt til jólamatar móður sinnar yfir hátíðarnar.
„Jólin eru yfirleitt þannig að ég, mamma, systir mín og frænka mín erum heima hjá mömmu. Við borðum alltaf klukkan sex og erum alltaf með kalkún. Við höfum ætlað að færa okkur yfir til systur minnar þar sem hún er með meira pláss, en þar sem hvorki ég né systir mín þorir að taka við eldamennskunni erum við heima hjá múttu því hún treystir ekki öðrum ofnum,“ segir Ebba og brosir við tilhugsunina um kalkúninn á aðfangadag.
„Kalkúnninn er svo sannarlega ómissandi. Við erum svo með þetta klassíska jólameðlæti sem mér finnst reyndar allt vont. Ég er ein af fáum manneskjum sem ég þekki sem finnst brúnaðar kartöflur vondar, þess vegna gerir mamma alltaf svona „crispy“, saltaðar og smjörsteiktar kartöflur handa mér. Svo er fyllingin sem hún gerir alveg sjálf algjör snilld. Ég var einu sinni á þakkargjörðarhátíðinni í Bandaríkjunum og var boðið í þrjár veislur en engin kalkúnafylling jafnaðist á við mömmu. En aðalmálið á aðfangadag er sósan hennar mömmu. Ég get drukkið hana og stend oft yfir pottinum og dýfi kartöflunum sem mamma séreldar fyrir mig ofan í. Get verið þar endalaust. Enda gerir hún soldið mikið af sósu þrátt fyrir að við séum bara fjórar í mat. Helmingurinn af sósunni er handa mér.“
Ein jólin vildi mamman breyta til og það rann alls ekki ljúflega ofan í Ebbu og systur hennar.
„Mömmu langaði til þess að prufa að hafa hamborgarhrygg. Systur minni leist alls ekki á þetta og mótmælti harðlega. Ég var svo sem alveg til í það, þar sem ég er sjúk í allt saltað. En jólin voru alls ekki eins. Það vantaði eitthvað svakalega,“ segir Ebba alvarleg og heldur áfram. „Það var allt sama meðlætið, nema fyllingin og sósan var engan veginn eins. Ég og systir mín horfum til baka á þessi jól með fyrirlitningu. Við höfum heitið því að það verði aldrei aftur prufað eitthvað nýtt á aðfangadag. Ég vaknaði líka með svo bólgin augu daginn eftir að ég þurfti að setja skeiðar í ísskápinn til að láta bólguna af saltinu hjaðna.“
Ebba lærði ekki af reynslunni og nokkrum árum síðar gerðist hún grænmetisæta og var því landslagið talsvert annað á jólum.
„Ég á það til að prufa ýmislegt í mataræði, ekki sem megrunarúrræði heldur frekar bara til að ögra mér. Ég var búin að vera grænmetisæta í nokkurn tíma en þegar jólin voru að nálgast spurði mamma hvað mig langaði í og ég sagðist bara borða meðlæti eða eitthvað. Síðan endaði hún á að kaupa hnetusteik fyrir mig sem er eitt af því versta sem ég hef smakkað. Það eru reyndar orðin soldið mörg ár síðan og hefur matargerð fyrir grænmetisætur orðið töluvert betri,“ segir Ebba, sem útilokar þó ekki að prófa grænmetisfæðið aftur.
„Ég gæti vel hugsað mér að vera grænmetisæta aftur með öllu því nýja sem er í boði. Ætla meira að segja að taka þátt í Veganúar eftir áramót.“
Það er nóg að gera hjá Ebbu í aðdraganda jóla. Ekki bara þetta týpíska jólastress því hún heldur uppistand á Hard Rock Café föstudaginn 15. desember klukkan 21. Ebba hefur vakið talsverða athygli síðustu misseri fyrir uppistöndin sín og má segja að jólauppistandið sé brot af því besta.
„Seinni helmingurinn er alveg splunkunýtt efni, þannig að þau sem hafa séð efnið mitt áður munu líka sjá alveg glænýtt efni sem ég er mjög spennt að sýna. Þetta uppistand er mjög mikið byggt á mínum veruleika. Hvort sem það er að vera einhleyp á Íslandi eða kvíðann minn, en einnig ætla ég að ræða um ýmislegt sem er í gangi í samfélaginu. Svo fæ ég hina frábæru Kimi Tayler, sem er bresk stelpa sem ég kynntist á Kaffi Laugalæk, til að hita upp,“ segir Ebba. Í framhaldinu hlakkar hún til að njóta þess sem jólin þýða fyrir hana.
„Fyrir mér þýða jólin að eyða tíma með famelíunni og vinum. Mér finnst dásamlegt að vakna eftir hádegi, eyða deginum á náttfötunum og „tjilla“ allan daginn. En svo er líka alltaf gaman að fara og hitta fólk, spila og hafa gaman.“