The Guardian segir að tveir vogunarsjóðir, í eigu helstu fjárhagslegu stuðningsmanna Brexit baráttunnar, hafi tekið skortstöðu í breskum hlutabréfum fyrir milljónir punda. Þar á meðal í smávöruverslun, bönkum og bílaiðnaðinum. Skortstaða þýðir að veðjað er á að hlutabréfin lækki í verði.
Odey Asset Management og Marshall Wace vogunarsjóðirnir hafa tekið skortstöðu hlutabréfum breskra fyrirtækja upp á 436 milljónir punda annars vegar og 1,4 milljarða punda hins vegar.
Odey Asset Management hefur meðal annars tekið skortstöðu í hlutabréfum Debenhams og Intu auk hlutabréfa í bílaiðnaðinum. Marshall Wace, sem er stærsti vogunarsjóður Bretlands, hefur tekið flestar skortstöður og lagt mesta peninga í slíkar stöður. Meðal annars hefur sjóðurinn veðjað á verðhrun hlutabréfa í Mars and Spencer verslunarkeðjunni sem og í Debenhams og Intu.