Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegið 23,5 milljónir frá Alþingi í endurgreiddan aksturskostnað síðan 2013, er hann settist fyrst á þing. Upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur Alþingismanna frá árinu 2007 voru birtar í gær á vef Alþingis og þar má sjá að Ásmundur keyrði fyrir tæpar 3,2 milljónir árið 2013, en mest keyrði hann árið 2014 og fékk þá um 5,4 milljónir frá Alþingi vegna nota á eigin bifreið.
Árið 2015 fékk hann um fimm milljónir, og tæpar 4,9 milljónir árið 2016. Árið 2017 hlaut hann 4,2 milljónir fyrir aksturinn, líkt og greint var frá í upphafi árs, og alls 4,6 milljónir vegna ferðalaga innanlands.
Það sem af er árinu 2018 hefur Ásmundur aðeins þegið 684 þúsund krónur fyrir afnot af eigin bifreið, en 824 þúsund krónur fyrir afnot af bílaleigubíl. Alls hefur Ásmundur greitt 484 þúsund krónur í eldsneyti vegna ferða sinna, sem hann fær endurgreitt einnig. Gisti- og fæðukostnaður er 122 þúsund krónur og flugferðir innanlands eru 79 þúsund krónur.
Alls er kostnaður við ferðalög Ásmundar innanlands því um 2,2 milljónir króna fyrir árið 2018.
Samkvæmt starfsreglum Alþingis skulu þingmenn sem aka meira en 15 þúsund kílómetra á ári, fá afnot af bílaleigubíl sem Alþingi leggur til. Ásmundur ók 47 þúsund kílómetra árið 2017, en hann lagði einkabílnum í febrúar á þessu ári eftir að akstursmálið komst í hámæli og fékk afnot af bílaleigubíl.
Sjá einnig: Steingrímur J. Sigfússon er greiðslukóngur ársins – Sjáðu launahæstu þingmennina frá 2007 – 2018
Ásmundur endurgreiddi Alþingi 178 þúsund krónur vegna aksturs síns frá árinu 2017 með tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þótti honum það orka tvímælis að blanda saman ferðum sínum um kjördæmið með tökufólkinu, en í lok Kastljósþáttar í byrjun árs heyrðist Ásmundur viðurkenna að hann hefði rukkað Alþingi fyrir þann akstur, þó svo ljóst væri að sú ferð væri ekki hluti af starfi hans sem þingmaður.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að um fjársvik væri að ræða hjá Ásmundi og óskaði eftir að Forsætisnefnd rannsakaði allan aksturskostnað þingmanna og Ásmundar Friðrikssonar sérstaklega.
Nefndin komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilegt tilefni til slíkrar rannsóknar.
Sjá nánar: Alþingi segir ekkert tilefni til að rannsaka Ásmund Friðriksson og akstursgreiðslur til þingmanna