Leikarinn Jackie Chan er án efa ein stærsta stjarnan í Kína en bardagalistamaðurinn veitir engan afslátt í ævisögu sinni, Never Give Up. Í bókinni, sem upphaflega kom út fyrir nokkrum árum en hefur nýlega verið þýdd á ensku, kafar Chan ítarlega ofan í ýmis vandamál sem hafa komið mörgum aðdáendum hans í opna skjöldu.
Árið 2016 var Chan heiðraður á Óskarsverðlaununum fyrir ævistarf í bransanum og hefur hann leikið í fleiri en 100 kvikmyndum. Í áraraðir hefur hann þó glímt við djöfla í tengslum við drykkju, fjárhættuspil og kaup á vændiskonum samkvæmt frásögn hans. Jafnframt segir hann frá örðugleikum í hjónabandi sínu og viðurkennir að hann hafi verið slæmur faðir.
„Ég hegðaði mér hræðilega vegna gríðarlegs óöryggis,“ segir Chan í ævisögunni. „Ég var afar andstyggilegur drullusokkur. Ég keyrði fullur nánast daglega og mætti til vinnu með sólgleraugu til að reyna að fela það, en var í algeru tjóni.“
Chan segir það hafa oft komið fyrir að hann ók undir áhrifum áfengis og segist jafnvel hafa klesst tvær lúxusbifreiðar á sama deginum. Þegar ljósmyndarar nálguðust hann eftir seinna slysið hótaði Chan að kýla þá og gefa þeim eitt högg fyrir hverja ljósmynd sem þeir tóku. Á þeim tíma var hann farinn að sækjast grimmt í áfengið. „Reglan mín var alltaf einn drykkur fyrir hádegi og einn eftir hádegi“.
Áður en Chan skaust upp á stjörnuhimininn var hann bláfátækur bardagakappi og segir í bókinni að hann hafi sýnt kæruleysi með fjármál sín þegar frægðarsólin var farin að rísa. „Ég eyddi megninu af peningnum mínum í drykkju, fjárhættuspil og stúlkur,“ segir hann.
Þá kemur einnig fram að hann sér mikið eftir því að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni, sem varð til þess að hann eignaðist dóttur með fegurðardrottningunni Elaine Ng Yi-Lei utan hjónabands.
Jafnframt segir hann frá erfiðleikunum sem hafa fylgt foreldrahlutverkinu. Hann ræðir mikið um son sinn, Jaycee, og viðurkennir að það hafi sært hann hversu lítinn áhuga sonurinn sýndi starfi föður síns. Þá rifjar hann upp tímabilin þegar hann beitti soninn andlegu og líkamlegu ofbeldi og gekk svo langt að kasta honum með hörku á einum tímapunkti.
„Við eiginkonan vorum að rífast þann dag. Hún var í sófanum á spjalli við vinkonu sína. Þær voru báðar hlæjandi og það gerði mig reiðan. Þegar ég ætlaði að segja eitthvað við konuna steig Jaycee inn og byrjaði að lítilsvirða mig,“ segir Chan.
„Hann tók lyklana úr höndum mínum og henti þeim á gólfið. Þegar ég beygði mig eftir þeim ákvað hann að sparka í mig. Þetta gerði mig bálreiðan, þannig að ég lyfti honum upp og henti honum þvert yfir stofuna og hann lenti í sófanum.“