Hasarmyndahetjan Jackie Chan fékk Óskarsverðlaun afhent við hátíðlega athöfn í Los Angeles í gærkvöldi. Chan, sem er fæddur í Hong Kong, er 62 ára og spannar blómlegur ferill hans 50 ár og rúmlega 200 kvikmyndir.
Verðlaunin sem um ræðir eru einskonar heiðursverðlaun sem bandaríska kvikmyndaakademían veitir á ári hverju. Tilkynnt var um það í september síðastliðnum að Chan fengi verðlaunin að þessu sinni sem veitt eru á hinni svokölluðu Governors Awards-hátíð. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa skarað fram úr á sínu sviði en aldrei hlotið náð fyrir augum akademíunnar á stóru hátíðinni, sjálfri Óskarsverðlaunahátíðinni.
Jackie Chan er goðsögn í lifanda lífi meðal aðdáenda slagsmálamynda, en þær hafa jafnan ekki beint átt upp á pallborðið hjá akademíunni. Chan er einna þekktastur á Vesturlöndum fyrir myndir á borð við Rush Hour og Shanghai Noon, slagsmálamyndir með gamansömu ívafi. Á síðustu árum hefur hann einkum leikið í myndum í sínu heimalandi.