Kaffihúsið C is for Cookie, Týsgötu 8
Það er góð tilfinning þegar maður sest inn á kaffihús í miðborgum að losna úr mestu mannmergðinni, vera dálítið afsíðis en vera samt miðsvæðis. C is for Cookie er þannig kaffihús. Staðsett að Týsgötu 8, rólegri götu sem gengur út úr Skólavörðustíg, sem er ein helsta túristagata borgarinnar; líflegt kaffihús þar sem er heilmikið að gera en samt aldrei troðið, persónuleg og heimilisleg stemning, góður staður til að slaka á í erli dagsins. Að þessu leyti minnir C is for Cookie á mörg kaffihús í hliðargötum á Strikinu í Kaupmannahöfn, bendir eigandinn Daníel Tryggvi Daníelsson á.
C is for Cookie var stofnað árið 2010 en Daníel tók við rekstrinum árið 2013. Erlendir ferðamenn sækja staðinn stíft en hann er líka vinsæll meðal Íslendinga og hlutfall þeirra fer stækkandi þegar líður á veturinn og ferðamönnum fækkar. C is for Cookie hefur mjög persónulegt og heimilislegt yfirbragð sem kemur bæði fram í húsgögnum og veitingum. Á staðnum eru hægindastólar og sófar sem gott er að sitja í og kíkja í blöðin eða jafnvel hanga í nokkra klukkutíma og eiga í líflegum samræðum við vini og kunningja. Heimagert er lykilorð í veitingunum en einnig hentar staðurinn þeim sem aðhyllast vegan-mataræði, segir Daníel:
„Þetta er einfaldur kaffihúsamatur, samlokur, ristað brauð og spælegg, súpur og þess háttar. Við reynum að hafa sem mest heimagert: Allar kökur, kartöflusalat, hummus og fleira er gert á staðnum. Síðan erum við með töluvert af vegan-vörum, vegan-eplakökur og -smákökur, bjóðum upp á vegan-ost í samlokur, og súpurnar sem við bjóðum upp á alla daga eru vegan. Við gefum okkur ekki út fyrir að vera vegan-kaffihús en veitingarnar henta bæði vegan-fólki og öðrum.“
Kaffið á staðnum er hið rómaða ítalska gæðakaffi Illy, en það hefur verið í boði á staðnum frá því hann var opnaður. Segir Daníel að kaffið njóti mikilla vinsælda hjá gestum kaffihússins enda er það framúrskarandi. C is for Cookie er með vínveitingaleyfi og núna er jólabjórinn kominn á staðinn sem mörgum gestum finnst gott að gæða sér á.
Á C is for Cookie er þráðlaust, opið internet og rafmagnsinnstungur eru við hvert borð sem hentar vel þeim mörgu er vilja vinna við fartölvur á kaffihúsum eða hlaða snjallsíma sína.
Daníel segir að C is for Cookie hafi nokkra sérstöðu með afgreiðslutíma: „Allt sumarið opnum við klukkan hálf átta á morgnana virka daga. Sá tími er enn í gildi núna því það er ekkert lát á aðsókninni snemma á morgnana. Ég veit ekki hvort og hvenær hann breytist í vetur en það er a.m.k. ljóst að við munum aldrei opna seinna en níu á morgnana í vetur og líklega ekki svo seint. Það eru mjög fáir staðir í miðbænum sem eru opnaðir fyrir níu og margir ekki fyrr en klukkan tíu. Oft eru túristar ráfandi um miðbæinn á morgnana í leit að einhverju ætilegu því svo margir þeirra eru í Airbnb-gistingu og hafa því engan aðgang að morgunverði líkt og á hótelum.“
Staðurinn er opinn eins og áður segir frá kl. 7.30 á morgnana til kl. 18 á daginn. Á laugardögum er opið frá 10 til 17 og á sunnudögum frá 11 til 17.