Þuríður Blær Jóhannsdóttir verður Salka Valka – Farin í frí frá Reykjavíkurdætrum
„Fjölskylduaðstæður mínar voru kannski ekki alltaf hefðbundnar og það hafði örugglega mikil áhrif á mig. Kannski var það veganesti inn í leiklistina því stundum fann maður sér annan heim og ímyndunaraflið fékk lausan tauminn.“
Milli jóla og nýárs mun Borgarleikhúsið frumsýna Sölku Völku í nýrri leikgerð hinnar litháísku Yönu Ross. Þar mun leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir leika burðarhlutverkið, sem er hennar stærsta til þessa. Blær, eins og hún er alltaf kölluð, settist niður með blaðamanni DV og sagði frá leiklistarbakteríunni sem byrjaði í leikskóla, upplifuninni af leikhúsinu, þátttökunni í Reykjavíkurdætrum og síðast en ekki síst hvernig Nóbelsskáldið ber ábyrgð á nafni hennar.
Við mælum okkur mót á Kringlukránni, sem hentar vel enda eru bæði Borgarleikhúsið og DV staðsett í verslunarmiðstöðinni sem veitingastaðurinn dregur nafn sitt af. Blaðamaður hafði fram til þessa ávarpað leikkonuna sem Þuríði en var snarlega bent á að hún kysi að vera kölluð Blær. „Mér þykir vænt um Þuríðar nafnið en ég hef alltaf verið kölluð Blær. Þegar mamma gekk með mig þá las hún Brekkukotsannál og fékk hugljómun þegar hún sá nafnið Blær. Hún ákvað þá að hún myndi láta skíra mig þessu nafni og því má segja að Halldór Laxness beri ábyrgð á nafninu mínu. Akkúrat um sama leyti þá var sett bann við nafninu á stúlkur og því mátti ég ekki heita þessu nafni. Amma mín, Þuríður, féll síðan frá þegar ég var nýfædd og þá varð úr að ég var skírð í höfuðið á henni. Í Þjóðskrá hét ég því Þuríður Jóhannsdóttir en var alltaf kölluð Blær,“ segir hún og brosir. Það var ekki fyrr en í lok janúar 2013, að loknu dómsmáli sem nafna hennar Blær Bjarkadóttir háði og vann, sem mannanafnanefnd úrskurðaði að stúlkur mættu heita Blær. Þá bætti Þuríður Jóhannsdóttir því snarlega við nafnið sitt í Þjóðskrá.
Að svo stöddu getur Blær lítið sagt um áherslur verksins en hún er greinilega spennt. Talið berst að dularfullum álögum sem virðast loða við hlutverk helstu kvenpersóna verksins. „Það virðast fylgja þau álög á uppsetningu Sölku Völku að leikkonurnar í helstu hlutverkum verða yfirleitt óléttar. Þannig varð Guðrún Gísladóttir, sem lék Sölku Völku í uppsetningu verksins á níunda áratugnum, ólétt um það leyti sem sýningar stóðu yfir. Ilmur Kristjánsdóttir lék síðan Sölku Völku fyrir rúmum áratug og varð ólétt sem og Halldóra Geirharðsdóttir, sem lék Sigurlínu, móður Sölku í verkinu. Álögin hafa þegar látið á sér kræla á fyrirhugaðri sýningu verksins því Unnur Ösp Stefánsdóttir átti að fara með hlutverk Sigurlínu en nýlega var greint frá því að hún og eiginmaður hennar, Björn Thors, eigi von á litlum erfingja. „Ég túlka það sem svo að Unnur Ösp hafi tekið af mér ómakið og séð um þetta fyrir mig,“ segir Blær kímin.
Svo skemmtilega vill til að Halldóra Geirharðsdóttir mun taka að sér hlutverk Sigurlínu og þá mun dóttir hennar, sú sem kom undir þegar Salka Valka var síðast sett á svið, leika lítið hlutverk aðalsöguhetjunnar á barnsaldri.