Listamaðurinn, framhaldsskólakennarinn og markþjálfinn Valgeir Skagfjörð verður ljóðrænn og hugsi þegar hann er spurður út í eftirminnilega jólaminningu tengda mat.
„Gráfiðraður fuglinn hékk á snúrustaurnum í garðinum heima. Hann var bundinn upp á fótunum og langur hálsinn lafði einhvern veginn niður þannig að hausinn slóst utan í snúrustaurinn þegar nóvembervindurinn blés. Ég vorkenndi veslings fuglinum að hanga svona alla daga. Minnti mig á svaninn sem dó í sögunni um Dimmalimm. Ég var ekki viss um af hverju hann hékk þarna, svona steindauður,“ segir Valgeir, en það ætti fljótlega eftir að koma í ljós.
Sjá einnig: Fékk jólasætmeti hjá suðurríkja-séntilmanni: „Ég bölvaði í hljóði“.
„Svo einn daginn í desember var hann horfinn af staurnum. Daginn fyrir Þorláksmessu var sérkennileg lykt í loftinu sem barst frá bílskúrnum þar sem aldrei var geymdur bíll. Það var eitthvað verið að sýsla með logsuðutæki.“
Þegar kom svo að jólamatnum á aðfangadagskvöld brá Valgeiri heldur betur í brún.
„Á aðfangadagskvöld var jólamaturinn borinn fram. Þegar ég sá kjötið á fatinu spurði ég: „Er þetta fuglinn sem var á staurnum?“ Þegar ég fékk staðfestingu á því sat ég hnípinn í sætinu mínu það sem eftir lifði kvölds. Ég borðaði bara desertinn. Kokkteilávexti úr dós með rjóma út á. Sannkallað lostæti.“