Örlög silkiorma voru umfjöllunarefni á skjánum
Ég horfði á fallegan þátt á RÚV, Martin Clunes – Menn og dýr, þar sem þessi góði leikari ferðaðist milli landa til að kynna sér aðstæður ólíkra dýra og talaði um leið máli dýraverndar á innblásinn hátt. Hann sagði okkur frá hundinum Hachiko sem mætti á hverjum degi á lestarstöð í Tókýó til að taka á móti eiganda sínum. Einn daginn kom eigandinn ekki með lestinni, hann hafði fengið hjartaslag og dáið. Næstu níu ár mætti Hachiko á hverjum degi á lestarstöðina og beið árangurslaust eftir hinum ástkæra eiganda. Clunes sagði okkur líka frá öðrum merkum hundi sem gætti grafar eiganda síns í fjórtán ár.
Í þættinum sáum við alls kyns dýr, vorum til dæmis leidd inn á hundakaffihús í Tókýó þar sem hundar voru klæddir í föt og sátu í barnakerrum. Ekki virtist Clunes hrifinn af því og ekki skal honum álasað fyrir það. Við sáum flækingshunda sem voru orðnir að fimum sirkushundum og hesta sem einhverf börn náðu sérstöku sambandi við. Svo sáum við silkiorma en þeirra beið sá dauðdagi að vera soðnir lifandi. Hjartagæska Clunes er slík að hann komst við þegar hann sagði okkur frá örlögum ormanna. Ég varð að viðurkenna að ég komst ekki í tilfinningalegt uppnám vegna þessa. Ég hef einfaldlega aldrei gert mér ekki háar hugmyndir um tilfinningalíf silkiorma. Clunes er mun næmari. Hann finnur til með öllum. Góður maður!