fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Uppljóstrarinn á Klaustrinu opnar sig: „Þá fékk ég æluna upp í háls“ – Töldu hann vera erlendan ferðamann

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 30. nóvember 2018 08:30

The six MP's. From left, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ólafur Ísleifsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason and Bergþór Ólason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um fátt hefur verið meira rætt í þjóðfélaginu undanfarinn sólarhring en upptökur af fundi sex þingmanna á barnum Klaustrinu við Kirkjutorg. Upptökurnar eru sögulegar að mörgu leyti því aldrei fyrr hafa Íslendingar fengið að líta inn í reykfyllt bakherbergi stjórnmálanna með öðrum eins hætti.

Á mánudagskvöldi sátu þingmennirnir að sumbli og létu frá sér ummæli sem eru kjörnum fulltrúum ekki sæmandi. Nokkrum dögum síðar barst póstur á ritstjórnir þriggja fjölmiðla; DV, Stundarinnar og Kvennablaðsins. Í póstinum var hlekkur á vefsíðu þar sem hægt var að nálgast sjö upptökur af samræðum þingmannanna, mynd af þeim á vettvangi sem og myndband af þeim að yfirgefa barinn. Sendandinn kallaði sig Marvin auk þess sem númerið 42 kom fyrir í tölvupóstfanginu, hvort tveggja tilvísun í skáldsöguna Hitchhiker’s Guide to the Galaxy.

Staddur á barnum fyrir tilviljun

Fyrstu fréttir af málinu vöktu gríðarleg viðbrögð og það gerðu viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, einnig.  Sigmundur sagði að málið væri afar alvarlegt því ekki kæmi annað til greina en „að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.“

Það er fjarri lagi. DV óskaði eftir viðtali í gegnum tölvupóstfangið við Marvin. Nokkrum klukkustundum síðar barst jákvætt svar og símanúmer.

Í ljós kom að atburðarásin var á þá leið að í sama herbergi og þingmennirnir voru sat einstaklingur, íslenskur kjósandi, við borð og var að fara í gegnum persónuleg skjöl. Viðkomandi blöskraði svo orðfæri þingmannanna að hann teygði sig í síma sinn og hóf upptöku.

„Það litla sem ég heyrði fannst mér vera ógeðslegt og mér fannst það eiga erindi við almenning með einhverjum hætti. Ég fylgist ekki mikið með pólitík eða þjóðmálum almennt og því var Sigmundur Davíð sá eini sem ég þekki af hópnum en mig grunaði að þetta væru einhverjir þingmenn eða aðstoðarmenn. Það var erfitt að greina allt sem þau sögðu en eins og ég segi, mér blöskraði það sem ég heyrði og þess vegna byrjaði ég að taka samtal þeirra upp án þess að vita nokkuð hvað ég ætlaði að gera við það,“ segir Marvin í samtali við blaðamann.

Héldu að uppljóstrarinn væri erlendur ferðamaður

Marvin ætlaði ekki að sitja lengi við barinn en eftir um 20 mínútur þegar þingmennirnir byrjuðu að hæðast að Freyju Haraldsdóttur og þingkonu Samfylkingarinnar, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, var honum nóg boðið. „Þá fékk ég æluna upp í háls og ákvað að hér myndi ég sitja þangað til að samtali þeirra væri lokið. Þetta væri ekki í boði í siðuðu samfélagi,“ segir Marvin.

Verkefnið reyndi talsvert á þolinmæði Marvins því þingmennirnir sátu að sumbli langt fram á kvöld. Upptökurnar eru rúmlega þrjár klukkustundir að lengd og eru, eins og áður sagði, í sjö hlutum og gæðin misjöfn. „Þau veittu mér aldrei sérstaka athygli. Umræðurnar voru svo rosalegar að þau litu mjög sjaldan til mín. Þá töluðu þau svo hátt að ég hugsa að starfsfólkið á barnum, sem er í öðru rými, hefði getað náð góðum upptökum af samtali þeirra,“ segir Marvin. Hann hafi þó reglulega þurft að færa símann til, setja yfir hann skjöl auk þess sem upptökugæðin minnkuðu mikið þegar Marvin þurfti að hlaða símann sinn og færa hann fjær þingmönnunum.

„Það var ekki fyrr en þau stóðu upp og bjuggu sig undir að fara sem þau veittu mér einhverja athygli. Þegar þau voru komin fram þá minntist einhver þeirra á hvort að þessi manneskja hafi verið þarna allan tímann, en þá sagði annar að ég væri erlendur ferðamaður og það þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af mér,“ segir Marvin.

Þegar heim var komið vissi Marvin ekki alveg hvað hann ætti að gera við upptökurnar. „Ég heyrði viðbjóðinn betur á upptökunni en þegar ég var á staðnum. Ég reyndi að fletta upp hverjir þetta voru sem voru með Sigmundi Davíð þarna en gat ómögulega verið viss. Þess vegna ákvað ég að senda efnið á fjölmiðla sem að gætu unnið fréttir upp úr því mikilvægasta,“ segir Marvin. Hann segist ekki vera mikið tæknitröll, eigi þriggja ára síma og það hafi tekið talsverðan tíma að koma efninu yfir á netið og senda það til fjölmiðla þannig að erfitt væri að rekja efnið til hans.

„Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst og hvernig þið fjölmiðlar unnuð úr efninu. Það hvarflaði aldrei að mér að ég væri að gera eitthvað ósiðlegt. Stjórnmálamenn eru í valdamiklum stöðum og hafa skyldum að gegna gagnvart okkur. Þau setja upp sparibrosið fyrir kosningar en þarna held ég að þeirra rétta eðli hafi sýnt sig. Það á erindi við almenning,“ segir Marvin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Í gær

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“