Á fundi Lífeyrissjóðsins Gildis í gærkvöldi var lögð fram tillaga frá Einari Hannesi Harðarsyni, formanni sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, um að sjóðurinn seldi allt sitt hlutafé í HB Granda. Frá þessu er greint á Kvótanum.
Einar sagði við Eyjuna að sjóðurinn ætti 8,6 prósent í HB Granda, sem jafngilti um 7-8 milljörðum.
Einar segir að Guðmundur Kristjánsson, stærsti hluthafi HB Granda, hafi selt frá sér nokkur skip og talað í „heilan hring“ á einum mánuði. Fyrst hafi hann sagt upp öllum sjómönnum á Helgu Maríu AK, þar sem það sé svo mikill karfakvóti á skipinu að ekki teljist lengur hagkvæmt að stunda karfaveiðar á ísfisktogara, betur færi á að stunda slíkar veiðar á frystitogara. Samt hafi Guðmundur selt alla sína frystitogara og sagt upp 158 sjómönnum.
„Lífeyrissjóðurinn Gildi er hinn gamli lífeyrissjóður sjómanna og manni finnst í raun lífeyrissjóðurinn með sinn stóra hlut í HB Granda vera að taka þátt í því að leggja sjómannsstarfið niður, smátt og smátt,“
segir Einar Hannes við Kvótann.
Tillögu Einars var vísað til stjórnar sjóðsins, en hana má lesa hér að neðan:
„Undirritaður f. h. Sjómannafélags Grindavíkur (SVG) gerir þá tillögu að lífeyrissjóðurinn Gildi selji alla hlutabréfaeign sína í HB Granda hf. Grundvallast sú tillaga á mati meirihluta stjórnar SVG á því að Guðmundur Kristjánsson eigandi að stærsta hluthafa HB Granda hefur með ákvörðunum sínum síðastliðin misseri leynt og ljóst grafið undan stöðu sjómanna í landinu og unnið gegn hagsmunum þeirra.“