Cassie ætlar að verða fljótust til að heimsækja öll 196 lönd heims – Búin að heimsækja Ísland
Cassie De Pecol, 27 ára kona frá Connecticut í Bandaríkjunum, ætlar að verða sú kona sem á skemmstum tíma heimsækir öll 196 lönd jarðar. Cassie er þegar búin að heimsækja flest löndin, þar á meðal Ísland, og hefur hún nokkrar vikur til stefnu áður en heimsmetið rennur henni úr greipum.
Það var í júlí 2015 sem Cassie lagði af stað í þetta mikla ævintýri. Markmið hennar var að heimsækja allar fullvalda þjóðir heims, sem eru 193 talsins, en auk þess ætlaði hún að fara til Taívans, Kósóvó og Palestínu. Nú, þegar 16 mánuðir eru liðnir síðan ferðalagið hófst, er Cassie búin að heimsækja 180 ríki og fara í 254 flugferðir. Nú síðast var Cassie stödd í New York eftir að hafa heimsótt Kúbu.
Þegar Cassie varð 25 ára ákvað hún að setja sér ný og háleit markmið en hana hafði, allt frá því að hún var lítið barn, dreymt um að heimsækja öll lönd heimsins.
„Ég hef alltaf verið forvitin um ólíka menningarheima, ólík heimkynni fólks og ólík trúarbrögð,“ hafði vefútgáfa breska blaðsins Daily Mail, Mail Online, eftir henni í vikunni. „Í Bandaríkjunum erum við heppin að því leyti að hér höfum við fólk frá öllum heimshornum, af ólíkum uppruna, sem gerir Bandaríkin að því ríki sem það er í dag. Ég vildi komast að því hvaðan þetta fólk kemur og ekki síst hvaðan ég kom,“ segir hún en Cassie á ættir að rekja til Evrópu.
Eins og flestir vita eru ferðalög ekki beint ódýr og þó að Cassie hafi reynt að fara sparlega með fjármuni sína er talið að ferðalagið hafi þegar kostað hana tæpa 200 þúsund Bandaríkjadali, rúmar 20 milljónir króna. Hún fékk fjölmarga styrktaraðila til að létta undir með sér og þá hafa fjárfestar keypt réttinn að heimildamynd um ferðalagið, en Cassie tók með sér upptökuvél til að festa eftirminnilegustu augnablikin á mynd.
Á ferðalaginu hefur Cassie einnig gegnt hlutverki eins konar friðarerindreka fyrir stofnunina Peace Through Tourism and Skal International. Hefur hún hitt fjölmörg ungmenni á ferðalagi sínu og haldið erindi um ábyrga ferðamennsku svo dæmi séu tekin. Þá safnar hún sýnum úr höfunum – þar sem því er komið við – til að kanna umfang plastmengunar. „Ég reyni að eyða mestum tíma í þeim ríkjum þar sem ég get komið jákvæðum boðskap á framfæri,“ segir hún og bætir við að hún sé að jafnaði 2–5 daga í hverju landi. Cassie dvaldi á Íslandi í desember í fyrra og lét vel af dvölinni ef marka má færslu á Facebook-síðu ferðalagsins. Hún birti mynd af sér í Bláa lóninu. „Ég var hér fyrir 5 árum og naut þess í botn. Þetta er fullkominn staður til að vera á meðan þú bíður eftir flugi frá Íslandi. Sólin kom upp klukkan 11.30 og settist klukkan 15.30,“ sagði hún.
Cassie hefur um 40 daga til að ljúka ferðalagi sínu til að fá heimsmetið staðfest af heimsmetabók Guinness. Hún segir að það sé aðeins ákveðinn bónus að ná heimsmetinu, markmið hennar sé þó annað og göfugra. „Ég vona að ég geti verið öðrum ungum konum (og körlum) hvatning um að láta drauma sína rætast.“