Breska leikkonan Glenda Jackson fer með hlutverk Lés konungs í samnefndu leikriti Shakespeares. Leikritið er sýnt í Old Vic í London og gagnrýnendur hafa borið mikið lof á frammistöðu leikkonunnar. Tuttugu og fimm ár eru síðan Jackson steig síðast á svið. Áhugi er á því að leikkonan fari með hlutverk Lés á Broadway en ekkert hefur þó verið fullákveðið í þeim efnum. Jackson segir að leikrit Shakespeares sé ekki sérlega pólitískt, áhugaverðasta umfjöllunarefni þess sé aldurinn. „Það hafa orðið ótrúlegar framfarir í læknavísindum og á sálfræðisviðum. Við lifum lengur. En erum við að lifa lengur eða erum við bara til lengur?“ spyr leikkonan.
Jackson hefur hlotið tvenn Óskarsverðlaun á ferlinum, fyrir Women in Love og A Touch of Class, og Emmy-verðlaun fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Elizabeth R þar sem hún lék Elísabetu I Englandsdrottningu. Jackson sagði skilið við leikferil sinn til að gerast stjórnmálamaður og sat á þingi fyrir Verkamannaflokkinn frá 1992–2015.