Ljósmyndasýningunni Fullvalda konur og karlar verður varpað á glugga Borgarbókasafnsins í Grófinni frá 1. til 16. desember. Sýningin er sem sagt aðgengileg gestum og gangandi eftir sólsetur og tekur sig afskaplega vel út í næturfrostinu.
Ljósmyndasýningin Fullvalda konur og karlar hampar þeim sem börðust fyrir fullveldi og stjórnmálaréttindum Íslendinga, konum og körlum. Á sýningunni er varpað ljósi á mikilvægan þátt kvenna í sjálfstæðisbaráttunni. Fullveldi og sjálfstæði Íslendinga væri óhugsandi án þeirrar miklu baráttu sem átti sér stað um aldamótin 1900 fyrir stjórnmálaréttindum og kosningarétti kvenna. Myndum er varpað á tjald í glugganum á Borgarbókasafninu í Kvosinni og er sýningin aðgengileg vegfarendum eftir sólsetur.
Sýningin er gerð af Þóreyju Mjallhvíti fyrir Kvenréttindafélag Íslands og styrkt af Fullveldissjóði.
Kvenréttindafélag Íslands eru ein elstu félagasamtök Íslands, stofnuð árið 1907 af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til að stuðla að framgangi kvenna í íslensku samfélagi. Kvenréttindafélagið fagnar því á þessu ári 111 ára afmæli sínu.