fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Íslendingar á YouTube sem þú vissir kannski ekki af

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 9. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á YouTube er að finna allt á milli himins og jarðar. Sláir þú inn efnilegt stikkorð í leitarvélina er nokkuð öruggt að þú finnir eitthvað sem er við þitt hæfi. Þessi umfangsmikli vefur getur reynst mörgum hvort tveggja hin mesta gersemi og hinn mesti tímaþjófur. Því má spyrja hvaða efni sé að finna á vefnum sem stýrt sé af Íslendingum, bæði þá sem spreyta sig fyrir erlendan aðdáendahóp og innlendan.

Til að svara þeirri spurningu hefur hér verið tekinn saman listi yfir íslenska „Jútúbara“ sem þú vissir ekki um. Nú er að sjá hvað er við þitt hæfi og hvort þú hlaðir í einn áskriftarhnapp eða tvo að upptalningu lokinni.

 

Hvíslar til unaðar

Ingibjörg kann að kitla áhorfendur sína, samkvæmt ummælum.

Fyrirbærið ASMR er eflaust mörgum kunnugt, en fyrir nýgræðinga má lýsa því sem lík­am­legri til­finn­ingu sem líkist fiðringi eða „kitli.“ Sú tilfinning byrj­ar í höfðinu eða hár­sverðinum og get­ur ferðast niður mæn­una. Á YouTube er til ógrynni af rásum sem sérhæfa sig í þessu og þar á meðal má nefna aðganginn Nordic Whisper. Rásin er í umsjón Ingibjargar Aldísar Hilmisdóttur og hátt í 30 þúsund áhorfendur sækja í róandi rödd hennar. Ingibjörg hefur tekjur af þessari slökunarþjónustu og hefur rásin farið ört vaxandi frá stofnun hennar árið 2016.

 

Einn sá allra stærsti

Birgir Páll er sannkallaður atvinnumaður í tölvuleikjum.

Birgir Páll Bjarnason er einn stærsti Íslendingurinn á YouTube fyrr og síðar. Í október árið 2011 ákvað hann að gera myndband úr tölvuleiknum Battlefield og skömmu síðar hafði Birgir Páll atvinnu af því að útbúa myndbönd úr tölvuleikjum víða. Heildartala áhorfs á öllum myndböndum Birgis nær tæpum 93 milljónum og er áskrifendafjöldinn í kringum 500 þúsund.

 

Á flugi í nærmynd

Áhugasamir um flugmódelsmíði finna ýmislegt við sitt hæfi.

Flugmódelsmíðar eru í nærmynd á rás Guðjóns Ólfssonar. Hann hefur verið duglegur að dæla inn á samnefnda rás sína síðustu árin með áherslu á eigið áhugamál, þar sem áhorfendur skyggnast inn í ferlið og ekki síður þolinmæðina sem fylgir smíðum á fallegum flugmódelum. Mörg þeirra eru byggð frá grunni og leiðir Guðjón áhorfendur í gegnum smíðina af mikilli innsýn og þekkingu.

 

Sló í gegn með grenjandi stórstjörnu

Matthew heldur ekki vatni yfir Stjörnustríði.

Óskar Arnarsson, stofnandi auglýsingastofunnar 99, setti netheima á hliðina tímabundið með geysimiklum smelli árið 2015. Umræddur „hittari“ samanstóð af myndefni af stórleikaranum Matthew McConaughey í grátkasti í kvikmyndinni Interstellar, en myndbandið var þannig klippt að viðbrögðin voru sýnd yfir stiklu fyrir Stjörnustríðsmyndina The Force Awakens. Myndbandið endurspeglaði tilfinningar margra aðdáenda á þeim tíma, sem margir hverjir grétu af gleði yfir nýrri kvikmynd úr þessum mikla myndabálki. Erlendir fjölmiðlar kepptust við að deila myndbandinu og var rásin hans Óskars á augabragði komin með þrjú þúsund áskrifendur. Kappinn hefur ekki verið duglegur að halda rásinni virkri þótt margt kostulegt hafi skotið upp kollinum síðan, en velgengni fyrsta myndbandsins réttlætir sess sinn í þessari upptalningu.

 

Logandi bíóáhugi

Bjarni veitir engan afslátt.

Bjarni Haraldur Sigfússon var einn aðstandenda sjónvarpsþáttarins Með okkar augum og heldur gríðarlegri virkni á rásinni sinni undir nafninu Blaze the Movie fan. Þar fer hann bæði yfir það nýjasta í kvikmyndahúsum og veitir einnig innsýn í áhuga sinn á fyrirbærinu Pokémon. Bjarni Haraldur talar beint í vélina og segir sínar skoðanir með engum afslætti og fyrir enskumælandi markhóp. Hann er með yfir þrjú þúsund áskrifendur og gefur út á bilinu fjögur til átta myndbönd á viku, að meðaltali.

 

Lesið fyrir börnin

Úr bókinni Sara og lítill bróðir.

Á rásinni Barnaefni á íslensku eru lesnar upphátt ýmiss konar barnabækur með skemmtilegum og faglegum hætti. Þess ber að geta að rásin hefur legið í dvala undanfarið ár, en þarna má engu að síður finna fínt safn af fjölbreyttum sögum handa yngri hópum. Yfir 900 manns eru skráðir sem áskrifendur þessarar rásar sem á erindi til margra.

 

Hversdagslífið í hvísli

Hvíslið róar marga.

Ekki skal vanmeta heim hvíslaranna. Á YouTube er fleiri en einn íslenskan hvíslara að finna og má nefna Elisabeth ASMR, sem hóf göngu sína fyrir fjórum árum og hefur slegið í gegn með róandi rödd sinni og nærveru. Í myndböndum hennar talar hún á ensku um hversdagslífið og tilveruna og hefur fengið góð viðbrögð við íslenska hreimnum sem einkennir afslappaðan talanda hennar. Elisabeth ASMR er með yfir 20 þúsund áskrifendur og tæpar þrjár milljónir í samanlögðum áhorfstölum þegar þetta er ritað.

 

Konni í filing

Konni í allri sinni dýrð.

Stundum er gott að vera bara maður sjálfur, ekki síst ef til stendur að deila sjálfum sér með almenningi. Útvarpsmaðurinn Konni Gotta hjá Áttunni gleymir ekki góða skapinu á YouTube-rás sinni, en þar hefur hann verið að trekkja að með persónuleika sínum. Á aðganginum eru hin ýmsu vídeóblogg og annað sprell sem fylgjendur hans sækja í.

 

Fjör og fótbolti

Margir víða fylgjast með innslögum Guðjóns.

Eins og segir í lýsingu rásar Guðjóns Daníels er hann bara ósköp venjulegur drengur frá Íslandi sem býr í snjóhúsi. Ef litið er framhjá því að seinni hluti setningarinnar er augljóslega tóm tjara, þá lýsir þetta húmor og persónuleika Guðjóns mætavel. Að rás hans eru í kringum 350 þúsund áskrifendur, sem flykkjast að til þess að skoða hvað sé að frétta af FIFA- og almennum fótboltaáhuga Guðjóns og fá sögur úr daglega lífinu. Þess má geta að Guðjón er þekktur fyrir að vera vinur bresku alnetsstjörnunnar JJ Olatunji, betur þekktri sem KSI.

 

Hvítaskáld í nærmynd

Ásgeir fer yfir sín hjartans mál.

Á YouTube-rás Ásgeirs Hvítaskálds er ýmislegt að finna sem veitir góða mynd af áhugasviði mannsins, sem samanstendur af sviðslistum og kvikmyndagerð. Fyrir alla sem ekki vita var Ásgeir á bak við „költ-myndina“ Glæpur og samviska. Ásgeir lærði kvikmyndagerð í Danmörku og hefur gert fleiri en 10 heimilda- og stuttmyndir sem hlotið hafa viðurkenningu víða. Stikluna og ýmiss konar gotterí má finna á rásinni en henni veitir ekki af fleiri áskrifendum.

 

Svellkaldir og vinsælir

Rásin Ice Cold státar sig af rúmlega átta þúsund áskrifendum og hafa umsjónarmenn rásarinnar, þeir Ingi Bauer og Stefán Atli Rúnarsson, gefið út haug af „vloggum“ um allt á milli himins og jarðar. Einnig fóru þeir nýlega af stað með hlaðvarpsþátt þar sem þeir ræða við skemmtilegt fólk um skemmtilega hluti. Þeir Ingi og Stefán hafa mikla reynslu af því að framleiða myndbönd, bæði fyrir netmiðla og sjónvarp og má fullyrða að þeir gera ekkert af hálfum hug.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“