fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Rostungurinn Valli víðförli í klandri á Íslandi

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 30. nóvember 2018 22:00

Valli víðförli Bægslaðist langt upp á land í Bretlandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1981 komst rostungurinn Valli víðförli í heimsfréttirnar. Hann fannst við Bretlandsstrendur og átti að fara aftur heim til Grænlands. En þá blandaði forsætisráðherra Íslands sér í málið og fór svo að Valli endaði í kassa í flugskýli Bandaríkjahers. Að lokum var hann sendur aftur heim til Grænlands þrátt fyrir hótanir þarlendra um að veiða hann í hundafóður. Rúmu ári síðar kom rostungur sem var sláandi líkur Valla í heimsókn að Snæfellsnesi.

 

Gunnar sá sér leik á borði

Í septembermánuði árið 1981 fannst tveggja ára, eintenntur rostungsbrimill við Skegness á austurströnd Bretlands. Vakti þetta mikla athygli í fjölmiðlum ytra og fékk hann viðurnefnið Wally the Walrus. Í íslenskum blöðum, sérstaklega Morgunblaðinu sem fylgdist grannt með, var hann kallaður Valli víðförli.

Rostungar halda sig venjulega við rekís á grunnsævi með fram strandlengjum Norður-Íshafslanda. Einstaka sinnum koma þeir að Íslandi en sjaldgæfara er að þeir flækist sunnar á bóginn. Nokkrir hafa sést við strendur Bretlands og Írlands.

Á þessum árum var náttúruvernd mikið í deiglunni og tvö samtök í Bretlandi, World Wildlife Fund og RSPCA, tóku Valla undir sinn verndarvæng. Vildu þau koma honum aftur á sínar heimaslóðir við strendur Grænlands. Dagblaðið Daily Mail bauðst til að aðstoða og greiða 2.500 punda ferðakostnað gegn því að fá einkarétt á sögunni. En þá komu Íslendingar og stálu þrumunni.

 

Gunnar Thoroddsen
Bauð rostungnum frítt far til Íslands.

Strandaglópur í Keflavík

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra var í heimsókn í Lundúnum þegar mál Valla víðförla kom upp. Á þessum árum voru Íslendingar mjög lágt skrifaðir í náttúruvernd vegna hvalveiða og Gunnar sá sér leik á borði til að bæta orðsporið. Ræddi hann við forráðamenn Flugleiða sem einnig voru í Lundúnum og ákváðu þeir að bjóða Valla ókeypis flug til Íslands. Samtökin World Wildlife Fund myndu svo ferja hann með báti yfir til Grænlands.

Ferð Valla byrjaði með stoppi í Lundúnum. Þar var hann geymdur í stóru búri á flugvellinum á meðan hann beið eftir Flugleiðavélinni. Fjöldi blaðamanna og ljósmyndara fylgdist með honum en Valli virtist hvergi banginn. Aðeins lúinn reyndar eftir sjóferðina suður til Bretlands.

Svo kom vélin og Valli var settur um borð. Íslenski forsætisráðherrann og kona hans, Vala Thoroddsen, voru honum samferða sem og blaðamenn frá Daily Mail og Daily Express. Flugferðin gekk áfallalaust fyrir sig en þegar lent var á Keflavíkurflugvelli laugardaginn 26. september kom babb í bátinn.

Sendibíllinn sem átti að sækja Valla og fara með hann niður að höfn var allt of lítill. Ekkert sást heldur til bátsins sem átti að ferja Valla og fulltrúi World Wildlife Fund var hvergi sjáanlegur. Valli var strandaglópur á flugvellinum og starfsfólkið vissi ekkert hvað til bragðs ætti að taka.

Eins og oft þegar Íslendingar lentu í vandræðum var haft samband við varnarliðið á Keflavíkurstöðinni. Herforingjarnir tóku vel í það og áætluðu að ferja Valla með flugvél til Grænlands. Til að byrja með yrði hann hins vegar að bíða í einu flugskýli varnarliðsins. Þá kom hins vegar í ljós að engin flutningavél var laus og heldur ekki flugmaður til að sjá um verkið. Varð Valli því að bíða í flugskýlinu yfir nóttina.

 

Hápólitískt mál

Á sunnudeginum hófst alþjóðleg rekistefna um hvernig leysa ætti hnútinn. Um miðjan sunnudaginn höfðu hundruð símtala milli Íslands, Bandaríkjanna, Bretlands og Danmerkur átt sér stað. Gunnar Thoroddsen og Ólafur Jóhannesson utanríkisráðherra voru í storminum miðjum til þess að leysa málið farsællega. Gunnar hafði boðið Valla hingað en hnúturinn var orðinn vandræðalegur fyrir Íslendinga þar sem augu heimsins fylgdust með.

Um tíma kom það til tals að Valli yrði áfram á Íslandi og yrði færður Sædýrasafninu í Hafnarfirði að gjöf. Meðlimir Dýraverndunarfélags Íslands börðust hins vegar hart gegn því og var hugmyndin slegin út af borðinu.

Að lokum leystu íslensk stjórnvöld málið sjálf og var Landhelgisgæslunni falið að sigla með Valla vestur í varðskipinu Tý.

 

Sleðahundafóður

Margir höfðu áhyggjur af heilsu Valla þó að fljótt á litið virtist hún ágæt. Við skoðun dýralækna kom í ljós að hann hefði ekki étið neitt vikum saman. Höfðu Bretarnir sérstakar áhyggjur af þessu. Einnig varð þeim bylt við þegar hringt var til Grænlands og beðið um aðstoð við að taka vel á móti Valla þegar hann kæmist loks á leiðarenda. Á hinum enda línunnar var hlegið og sagt að flestir rostungar sem sæjust við strendur Grænlands á þessum árstíma væru veiddir og kjötið nýtt í fóður fyrir sleðahunda. Liði væntanlega ekki á löngu þar til það yrðu örlög Valla.

Á mánudeginum lagði Týr af stað. Valli var enn í búrinu sínu og heilsaðist ágætlega á leiðinni. Þriðjudaginn 29. september kom Týr að Aquiteq á vesturströnd Grænlands og var Valla sleppt þar á borgarísjaka. Teygði hann úr sér þegar hann bægslaðist úr kassanum og dýfði sér síðan ofan í sjóinn.

Tvífari Valla við Rifshöfn
DV 13. janúar 1983.

Valli snýr aftur

Eftir að Valla var sleppt fréttist ekkert meira af honum í meira en ár. Hefði hann þess vegna getað endað í maga sleðahunds. Þann 11. janúar árið 1983 var Íslendingum brugðið þegar vitavörður sá rostungsbrimil við Rifshöfn á Snæfellsnesi. Lét hann vita af þessu og töldu margir að Valli væri snúinn aftur.

Fjöldi blaðamanna, ljósmyndara og kvikmyndatökumanna var sendur í flýti vestur á Rif til að mynda „Valla.“ Fjölmargir heimamenn og aðkomumenn komu einnig til að líta rostunginn augum.

Þessi rostungur var um þriggja til fjögurra ára og eintenntur. Hann var um tvö til þrjú hundruð kílóum þyngri en Valli var haustið 1981 en það væri eðlileg þyngdaraukning. Þar að auki var hann óhræddur við mannfólk sem gaf til kynna að hann hefði áður verið innan um það.

Aldrei fékkst staðfesting á að rostungurinn við Rifshöfn hefði verið Valli sjálfur en mikið var fjallað um hann í fjölmiðlum. Jafnvel meira en árið 1981. Tengdu sumir endurkomu hans við hvalveiðibannið og að Valli væri að sýna frændum sínum stuðning. Aðrir sögðu að Valli væri kominn til að heimsækja vin sinn Gunnar Thoroddsen. Þriðja og líklegasta skýringin er sú að Valli hafi verið að gera aðra tilraun til að komast til sólarlanda, eftir að hann var truflaður í fyrra skiptið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda