Heimsótti heimili hælisleitenda á Skeggjagötu í gær
„Í stuttu máli sagt hef ég aldrei séð eða upplifað aðrar eins aðstæður á nokkru „heimili“ hér á landi. Sorg, skömm og reiði helltist yfir mig og ég þurfti að halda aftur af tárunum.“
Þetta segir Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, á Facebook-síðu sinni en Sema fór ásamt vinkonu sinni, Margréti M. Norðdahl, og skoðaði aðstæður hælisleitenda á Skeggjagötu í gær. Tilefnið var umfjöllun sem Stundin birti á mánudag þar sem meðal annars kom fram að hælisleitendur þyrftu að borða matinn sinn á gólfinu eða í rúminu. Þeir hefðu hvorki borð né stóla og aðstæður almennt væru ekki upp á marga fiska.
Sema Erla brást við með því að senda neyðarkall á Facebook þar sem hún óskaði eftir hlutum sem vantaði á heimilið til að gera búsetu hælisleitenda bærilegri og mannúðlegri.
„Ég vil einfaldlega að við gerum betur sem samfélag en að taka frá einstaklingum mannlega reisn þeirra og virðingu, sérstaklega þegar um ræðir einstaklinga sem hafa tapað flest öllu öðru í lífinu,“ segir hún og bætir við að hana hafi grunað að aðstæður væru verri en lýst var í umfjöllun Stundarinnar. Þess vegna fór hún og skoðaði aðstæðurnar sem að hennar mati voru skelfilegar.
„Það mun taka tíma að jafna sig á þessu en ég get þó huggað mér við þá staðreynd að þessir einstaklingar munu ekki þurfa að borða aftur á gólfinu, þeir geta nú hengt upp fötin sín, lesið bækur, kveikt á lampa og hellt sér upp á kaffi í fyrramálið,“ segir hún og kemur á framfæri þökkum þeirra sem lögðu hönd plóg. Hún bætir þó við að enn vanti ýmislegt upp á, til dæmis kommóður, hirslur, bækur á ensku, mottur, dýnur, rúmföt, hreingerningarverur og ljósaperur.
„Í sameiningu getum við séð til þess að allir búi við mannlega reisn og virðingu, óháð stöðu þeirra í samfélaginu,“ segir Sema Erla og bætir við að baráttunni ljúki ekki þarna.
„Ljóst er að ef aðstæðurnar eru svona á Skeggjagötunni eru þær örugglega svona á öðrum heimilum hælisleitenda. Það er óásættanlegt. Það er ómannúðlegt. Hafi yfirvöld skömm fyrir að bjóða fólki upp á slíkar aðstæður! Þessu þarf að breyta, og það þarf að gerast strax. Til þess að það gerist þurfum við að þrýsta á breytingar, annars gerist ekkert. Kerfið virkar augljóslega ekki eins og það á að gera og því þurfum við, almenningur, að stíga inn í. Þegar Skeggjagatan verður komin í lag þurfum við ákveða næstu skref í baráttunni fyrir réttlæti, virðingu og mannúð fyrir alla. Ég vona að þið verðið sem flest samferða okkur á þeirri vegferð,“ segir Sema Erla.