Sumar kökur eru bara betri, tilkomumeiri og dásamlegri en aðrar. Þetta er ein slík kaka.
Bingókúlusósa – Hráefni:
150 g Bingókúlur (1 poki)
1/2 bolli rjómi
Aðferð:
Setjið Bingókúlur og rjóma í pott og bræðið yfir vægum hita. Fylgist með blöndunni og hrærið reglulega í henni. Takið pottinn af hellunni þegar allt er bráðnað saman og leyfið sósunni að kólna alveg.
Kökubotnar – Hráefni:
2 bollar hveiti
1/2 bolli kakó
1/2 bolli lakkrísduft
1 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk. matarsódi
1 1/2 bolli sykur
1/2 bolli púðursykur
1 bolli grísk jógúrt
3/4 bolli olía
2 tsk. vanilludropar
3 egg
3/4-1 bolli sjóðandi heitt vatn
Aðferð:
Byrjið á því að setja vant í pott og ná upp suðu á meðan þið búið til deigið. Hitið ofninn í 180°C og takið til tvö, hringlaga 18 sentímetra form. Setjið smjörpappír í botninn og smyrjið hliðarnar með olíu eða smjöri. Blandið öllum þurrefnum vel saman. Bætið síðan jógúrt, olíu og vanilludropum saman við og því næst eggjunum, einu í einu. Hrærið vel. Blandið sjóðandi heitu vatninu varlega saman við og hrærið þar til allt er blandað saman. Deilið deiginu á milli kökuformanna og bakið í um það bil hálftíma. Leyfið kökunum að kólna aðeins í formunum áður en þið takið þær úr þeim. Leyfið botnunum síðan alveg að kólna áður en kremið er sett á.
Krem – Hráefni:
200 g mjúkt smjör
400 g flórsykur
100 g hvítt súkkulaði (brætt)
1 tsk. vanilludropar
Aðferð:
Þeytið smjörið í 3-5 mínútur og bætið síðan restinni af hráefnunum saman við og þeytið vel. Svona set ég kökuna saman: Smyrjið nokkrum matskeiðum af Bingókúlusósunni ofan á annan botninn. Setjið síðan krem á hann og hinn botninn ofan á. Hyljið kökuna með hvíta kreminu. Setjið síðan bingókúlusósuna í sprautu með mjóum stút og byrjið á því að sprauta sósunni á kantana og leyfa henni að leka niður hér og þar. Síðan hyljið þið toppinn á kökunni með sósunni. Og skreytið að vild!