fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Guðrún skrifar um heim vændis: Slæm reynsla af lögleiðingu – 20 giftir karlmenn níðast saman á einni konu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 24. nóvember 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vændi hefur verið lögleitt í nokkrum Evrópulöndum, til dæmis Þýskalandi og Hollandi, en síðarnefnda landið er vettvangur í bókinni. Það kemur til dæmis fram í skýrslu frá Evrópuþinginu og fleiri gögnum að reynslan af lögleiðingunni er ekki góð,“ segir Guðrún Sigríður Sæmundsen sem hefur nýlega sent frá sér bókina Andstæður. Um er að ræða spennandi skáldsögu en hluti af efninu er engu að síður byggður á staðreyndum og fróðleik. Er þar veitt innsýn í skuggalegan heim vændis í landi þar sem það hefur verið lögleitt, Hollandi.

„Yfirvöld telja sig vera að missa tökin á utanumhaldinu. Hollenska lögreglan segir meðal annars að hún nái ekki tökum á þeirri ólöglegu starfsemi sem grasserar í þessari núna löglegu grein, vændinu; til dæmis ofbeldi, misnotkun og mansal. Í Hollandi hafa vændiskaupendur verið hvattir til að tilkynna til lögreglu ef þá grunar að þær vændiskonur sem þeir eiga samskipti við séu þolendur mansals. Ég spyr mig: Eru vændiskaupendur mikið að velta slíku fyrir sér? Vændiskonur líta á sig sem leikkonur öðrum þræði, sem gera sér upp hrifningu á viðskiptavininum og ánægju af samneytinu við þá. Sá leikaraskapur er ekkert síður hjá þolendum mansals en öðrum vændiskonum. Og viðskiptavinurinn er búinn að gangast þeirri blekkingu á hönd að hann sé að sænga með konu sem kunni vel við það sem fram fer,“ segir Guðrún.

Í þessum hluta bókarinnar styðst Guðrún bæði við lestur gagna og vitnisburði fyrrverandi vændiskvenna. Meðal gagna eru skýrsla frá Evrópuþinginu um reynslu af lögleiðingu vændis, gögn sem Stígamót hafa safnað og vitnisburður hinnar hollensku Mirjam van Twuijver sem hefur mikla innsýn í undirheimana.

Í bókinni eru birtar skelfilegar lýsingar á hlutskipti vændiskvenna og því ofbeldi sem þær eru beittar. Ýmsar tegundir vændis eru skoðaðar sem og bakgrunnur vændiskvenna. Meðal skelfilegra lýsinga í bókinni er sena úr svokölluðu nauðgunarpartý. Þar safnast saman 20 karlmenn, flestir giftir, og hafa mök við eina vændiskonu ásamt því að niðurlægja hana með ýmsum hætti. Stór hluti mannanna virðist staddur í aðstæðum sem þeir höfðu ekki séð fyrir en sumir þeirra blekkja sig með þeirri hugsun að konan vilji þetta. Aðrir virðast ekki ráða við þá fýsn eftir valdi yfir annarri manneskju sem blossar upp í þeim við þessar aðstæður.

Skáldskapur eða blaðamennska

En það eru ekki bara nöturlegar lýsingar á vændi og staðreyndir um veruleika þess í Andstæðum. Bókin er líka spennandi saga um ástir og svik, með góðri persónusköpun. Hjónin Rebekka og Gunnar búa í Brussel þar sem hann er í góðri stöðu hjá EFTA en hún er heimavinnandi rithöfundur. Uppkomin dóttir þeirra býr á Íslandi. Rebekka og Gunnar virðast lifa fullkomnu lífi en framhjáhald Gunnars setur strik í reikninginn. Rebekka er að skrifa bók um vændi og kynnist á þeirri vegferð hinni dularfullu Jasmin sem veitir henni innsýn í þennan skuggalega heim. Þetta efni bókarinnar vekur þá spurningu hvers vegna Guðrún hafi ekki frekar skrifað bók almenns efnis um viðfangsefnið fremur en skáldsögu:

„Ég hef verið spurð að því hvort ég yrði ekki bara góður blaðamaður af því ég er svo mikið í rannsóknarvinnu. En málið er, að ég hef áhuga á skáldskap. Það heillar mig að geta notað ímyndunaraflið og skapað hliðarheim handan við raunveruleikann. Sjálf hef ég lesið skáldsögur þar sem fróðleiksmolar og raunverulegar staðreyndir koma fram og mér hefur fundist það mjög áhugavert. Skáldsaga er afþreying sem á að hreyfa við lesandanum, en ég vil einnig halda til haga fróðleik og staðreyndum. Til þess að skrifa eins og ég geri í bókinni Andstæður þarf að skoða mikið af heimildum og tala við aðila. Þannig fæ ég mikilvægar upplýsingar og hugmyndir. Svo leyfi ég ímyndunaraflinu að taka völdin og skapa þennan hliðarheim þar sem upplýsingarnar eru nýttar.“

Það vekur jafnframt athygli mína hvað Guðrúnu lætur vel að skrifa skáldsögu og ég spyr hana hvort hún hafi lært ritlist. Hún kveður svo ekki vera.

„Ég hef alltaf verið að skrifa. Sem barn setti ég saman stuttar sögur og hafði mikið ímyndunarafl. Ég samdi ljóð bæði fyrir sjálfa mig og aðra. Ég gaf til dæmis afa mínum og frænku ljóð í afmælisgjöf þegar ég var á áttunda árinu. Á unglingsárunum hélt ég áfram að yrkja ljóð, þau voru gjarnan mjög tilfinningaþrungin, enda viðkvæmur tími og margt í gangi. Mér fannst svo gott að fá útrás fyrir erfiðar tilfinningar í gegnum ljóðin og heillandi að geta sagt mikið í stuttu máli. Ég gaf út fyrstu skáldsöguna mína árið 2015, þá 33 ára. Hana skrifaði ég út frá textum sem ég hafði samið árið 2011.“

„Ég hef ákaflega gaman af því að fylgjast með fólki, hlusta á það tala, fylgjast með látbragði þess og hreyfingum. Þetta hefur skilað sér í skáldskapinn. Mér hefur verið hrósað fyrir persónusköpun í bókunum mínum og fyrir að skrifa eðlileg samtöl. Til að mynda hafði ráðgjafi á Stígamótum á orði að rödd vændiskonunnar væri sérstaklega vel útfærð í bókinni Andstæður.“

Þess má geta að þegar í upphafi samtals okkar sýndi Guðrún blaðamanni áhuga og forvitnaðist um hagi hans og viðhorf. Ljóst er að henni er í blóð borinn áhugi á öðru fólki.

Guðrún er 36 ára gömul. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HR árið 2006. Ári síðar lauk hún mastersnámi í alþjóðaviðskiptum í Grenoble Graduations School og Business í Frakklandi. Guðrún hefur búið töluvert í Frakklandi og talar frönsku. Hún hefur einnig starfað hjá EFTA í Brussel. Guðrún býr núna í Hafnarfirði. Hún á 16 mánaða gamla dóttur með sambýlismanni sínum og annað barn er á leiðinni.

Sjá ekki ofbeldið sem þær eru beittar fyrr en eftir á

„Ég hef oft hugsað um vændi sem starfsgrein. Af hverju velja konur sér þetta? Hvaða konur eru það sem stunda vændi? Hvernig líður þeim í vændinu? Mér finnst sá vinkill mjög áhugaverður. Meirihluti vændiskvenna hafa orðið fyrir einhverskonar áfalli snemma á lífsleiðinni, á barnsaldri eða unglingsárum, til dæmis kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi. Slík lífsreynsla getur haft þau áhrif á sjálfsmynd þessara kvenna að þeim finnist þær ekki meira virði en það, að feta þessa slóð. Með tíð og tíma er kroppað meira og meira í sjálfsmynd vændiskvennanna, ég tala nú ekki um ef þær verða fyrir ofbeldi í starfi. Það sorglega er að þær sjá það oft ekki sjálfar, sérstaklega ekki ef þær eru enn í þessum aðstæðum. Vændiskonur sem spurðar eru hvort þær hafi orðið fyrir ofbeldi í starfinu svara oft neitandi. En þegar þær eru svo spurðar hvort þær hafi verið slegnar, talað til þeirra með niðurlægjandi hætti eða þær beittar hörku, þá svara þær játandi. Konur sem enn eru í vændi geta haft allt aðra sýn á hlutskipti sitt heldur en fyrrverandi vændiskonur sem hafa náð tökum á lífi sínu og horfa á vændið úr hæfilegri fjarlægð.“

Mansal hefur aukist við lögleiðingu

„Þar sem vændi er löglegt, þar er einnig glæpastarfsemi. Mansal hefur aukist undanfarin ár og mansalsumferð til Hollands hefur aldrei verið eins mikil og núna. Það segir manni að umfang glæpastarfseminnar hefur aukist. En þessar upplýsingar er að finna í þeim heimildum sem ég hef viðað að mér. Svo er talað um að vændi sé löglegt, starfsemi vændishúsa og gluggavændis í lagi og svo framvegis en að starfsemi melludólga sé ólögleg. Og þó að vændishúsin séu orðin lögleg, ef vændiskonan þarf að greiða hlut af innkomu sinni til eiganda vændishússins, hvað er hann annað en melludólgur jafnvel þó að starfsemin sé lögleg?“

„Það er mikill misbrestur á því að þolendur mansals stígi fram, meðal annars af ótta við ofbeldismennina. Þær geta einnig óttast að vera sendar úr landi eða að ekki verði tekið mark á þeim. Vegna þess að þrátt fyrir að starfsemin sé lögleg í Hollandi, þá fylgir henni ákveðin skömm. Viðhorf almennings til vændis eru eflaust ekki frábrugðin viðhorfum Íslendinga. Lögleiðing breytir engu um það.“

Græðgin og illskan

„Í bókinni Andstæður segir frá manni sem hefur allt til alls, nóga peninga, fallegt heimili, frábæra eiginkonu. En eðli manneskjunnar er þannig að hún vill alltaf meira. Þarna kemur græðgin við sögu. Í bókinni eru ljóðrænar hugleiðingar um bresti manneskjunnar þar sem segir meðal annars að þegar við missum stjórn á græðginni kemur illskan til sögunnar og þjónar henni. Þessir brestir verða til þess að sögupersónan Gunnar heldur framhjá eiginkonu sinni og tekur þátt í misnotkun á vændiskonu. Mér fannst áhugavert að sýna fram á þennan vinkil þar sem fyrrum vændiskonur tala um að yfirgnæfandi meirihluti vændiskaupenda séu giftir karlmenn og oft mjög vel stæðir. Eftir hvers konar kynlífi eru þeir að sækjast hjá vændiskonum? Er það fallegt og virðingarfullt kynlíf eins og með eiginkonunni? Eða eru þeir að sækjast eftir því að öðlast vald yfir annarri manneskju?“

„Gunnar á sér enga fyrirmynd og hefði alveg eins getað verið bankastarfsmaður, læknir, lögfræðingur eða hvað annað, rétt eins og starfsmaður hjá EFTA í Brussel. En vændiskaupendur eru úr öllum stéttum og ekki síst úr efri lögum samfélagins. Þetta gæti verið hver sem er og hvar sem er. Þar sem ég þekki vel til EFTA eftir að hafa verið í starfsnámi hjá stofnuninni þá hentaði það umhverfi vel inn í hliðarheiminn sem ég bý til í skáldsögunni. En ég tek fram að fólkið sem ég starfaði með hjá EFTA var frábært og reyndist mér mjög vel á meðan ég var þar.“

Mannréttindi hverra er verið að vernda með afglæpavæðingu?

„Þegar mannréttindasamtökin Amnesty International komu fram með tillögu árið 2015 um að afglæpavæða vændi, þá voru meðal röksemda að virða beri þau mannréttindi einstaklingsins að eiga í kynferðislegu samneyti án afskipta löggjafans. En maður spyr sig: Mannréttindi hverra er verið að tryggja? Er hér í alvörunni verið að tryggja mannréttindi vændiskvenna? Réttindi til að selja líkama sinn einhverjum sem kaupir afnot af honum og gerir það sem honum sýnist? Eru það mannréttindi?“

Guðrún fær ekki séð hvernig vændi og lífshamingja geta nokkurn tíma átt samleið:

„Ég fæ ekki séð hvernig kynlíf sem stundað er á þeim forsendum að greitt er fyrir það geti leitt til annars en óhamingju. Viljum við stunda kynlíf af því okkur langar til þess eða af því við fáum greitt fyrir það? Hver vill það í raun og veru? Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr vændiskonum eða dæma þær. Ég ber þessar spurningar og fleiri fram í bókinni og leitast jafnframt eftir að svara þeim. Ég hef einnig áhuga á að draga fram í dagsljósið hver vændiskonan raunverulega er. Ímyndaðu þér að vændiskonan sem þú horfir á hálfnakta í glugganum í rauða hverfinu í Amsterdam átti sér drauma. Þegar hún var lítil þá var hún mikil pabbastelpa. Hún elskaði að leika með dúkkurnar sínar og fara út að hjóla. Hún teiknaði fallegar myndir og hana dreymdi um að verða listakona, læknir eða jafnvel flugmaður. Svo gerðist eitthvað á lífsleiðinni og hún fetaði þessa braut í lífinu. Hún leiddist út í vændi. Heldurðu að nokkur heilvita maður vildi horfa á eftir dóttur sinni fara þessa leið í lífinu? En væri þá í lagi að sami maður keypti dóttur annars manns til að svala fýsnum sínum? Þetta er algjör niðurlæging, ekki einungis fyrir vændiskonuna heldur einnig vændiskaupandann. Hann gengur inn í þá sjálfsblekkingu að vændiskonan sé hrifin af honum, þegar veruleikinn er kannski sá að henni býður við honum. Hann telur sér trú um að henni þyki hann aðlaðandi.“

Mirjam heldur reisn sinni í mótbyrnum

Einn helsti heimildarmaður Guðrúnar um vændisheiminn og undirheima í Hollandi og víðar er hin hollenska Mirjam van Twuijver. Mirjam afplánar núna 8 ára dóm í fangelsinu á Hólmsheiði fyrir fíkniefnainnflutning en hún hafði verið notuð sem burðardýr. Við undirbúning að ritun bókarinnar komst Guðrún í kynni við Mirjam og hefur farið afar vel á með þeim:

„Mirjam er ótrúlega heillandi og heldur reisn sinni við þessar erfiðu aðstæður og mótlæti. Við náðum strax saman og það myndaðist mikið traust á milli okkar. Hún veitti mér upplýsingar um vændisheiminn til viðbótar við það sem ég aflaði mér úr ýmsum gögnum. Hún veitti mér líka áhugaverðar upplýsingar um eigið líf sem ég nýti mér ásamt mörgu öðru efni til að búa til þá persónu í bókinni sem heitir Jasmijn. En Jasmijn er ekki Mirjam. Ég er ekki að skrifa hennar sögu. Mirjam hefur sjálf tamið sér að skrifa sig frá erfiðum tilfinningum og sagði að ef hún ætli einhvern tíma að birta sína sögu þá muni hún skrifa hana sjálf.“

Andstæður kom út fyrir um viku síðan og hefur þegar fengið góðar viðtökur. Er hún komin í þriðja sæti sölulistans yfir kiljur. Bókin er ódýr í verði vegna kiljuformsins. Sagan er í senn læsileg, forvitnileg og spennandi, að mati greinarhöfundar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja