fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Hrólfur vildi láta Heklu fá lóð án útboðs – Síðan keypti Hekla miða á tónleika Hrólfs að verðmæti 1,6 milljón króna – „Þér kemur þetta ekkert við“

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Fimmtudaginn 22. nóvember 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, hélt tónleika í Eldborgarsal Hörpu þann 12. október síðastliðinn. Bílaumboðið Hekla hf keypti 200 miða á tónleika Hrólfs. Samkvæmt miðasölu Hörpu kostaði miðinn 8.000 krónur. Það samsvarar því að Hekla hafi keypt miða fyrir 1,6 milljónir króna. Áður en Hrólfur lét af störfum fyrir borgina stýrði hann samningaviðræðum við Heklu fyrir hönd Reykjavíkurborgar vegna lóðaúthlutunar til fyrirtækisins, án útboðs. Lóðaúthlutunin hefur ekki farið fram og hafa samningar siglt í strand. Um afar dýrmæta lóð er að ræða.

Hrólfur hefur verið nokkuð áberandi í tengslum við fréttaflutning af braggamálinu svokallaða. Í samtali við RÚV sagði hann það vera á sína ábyrgð að hafa ekki stigið inn þegar hluta af framúr­keyrslu, 120 millj­ón­um króna, var eytt í fram­kvæmd­ir við bragg­ann í Naut­hóls­vík án þess að heim­ild væri fyr­ir því. Þá var Hrólfur boðaður í viðtal hjá innri endurskoðun vegna málsins.

Risa tónleikar í dýrasta húsi landsins

Yfirskrift tónleika Hrólfs var Reykjavíkurspil. Hrólfur fékk að auglýsa tónleikana í öllum helstu fjölmiðlum hér á landi. Í Morgunblaðinu fyrr á árinu var greint frá því að Hrólfur hefði látið af störfum eftir 35 ár hjá borginni og ætlaði að snúa sér að tónlist og ráðgjöf. Hann stofnaði fyrirtækið 13 tungl og þá fékk hljómsveit hans sama nafn. Á tónleikunum voru flutt fimmtán frumsamin lög eftir Hrólf. Þá stigu KK og Jakob Frímann Magnússon, fyrrum miðborgarstjóri, á svið.

Harpa er dýrasta tónleikahús landsins og fékk Hrólfur aðstoð frá Heklu hf sem keypti eins og áður segir 200 miða. Miðinn kostaði 8.000 krónur og samsvarar það 1,6 milljónum króna. Hjördís María Ólafsdóttir, markaðsstjóri Heklu staðfesti þetta í samtali við DV. Sagði Hjördís að hún hafi ekki sjálf tekið ákvörðun um að kaupa miðana fyrir hönd Heklu og kvaðst ekki hafa upplýsingar um hver hefði tekið þá ákvörðun að styðja við bakið á Hrólfi. Þá vildi Hjördís ekki greina frá hvað Hrólfur hefði fengið í sinn vasa vegna miðakaupanna. Hrólfur hafði áður samið fyrir hönd Reykjavíkurborgar við úthlutun á dýrmætri lóð og fékk fyrirtækið lóðina án útboðs.

Í viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og Heklu um lóðaúthlutunina kemur fram að Reykjavíkurborg geti úthlutað lóð án útboðs til Heklu. Hrólfur Jónsson er skrifaður fyrir viljayfirlýsinguna sem er á vef Reykjavíkurbogar.

Þá liggur fyrir að Reykjavíkurborg getur ráðstafað lóð í Suður-Mjódd án útboðs, þar sem um er að ræða mikilvæga þróun í takt við aðalskipulag, enda verði tryggt að lóðin verði seld á markaðsverði og að þróun við Laugaveg nái samhliða fram að ganga.

Hrólfur ósáttur

DV hafði samband við Hrólf Jónsson vegna málsins. DV fékk fyrst ábendingu um að Hekla hefði keypt 400 miða á tónleikanna. Aðspurður hvort það væri rétt sagðist Hrólfur ekki geta staðfest það. Var hann afar ósáttur við að DV væri að grennslast fyrir um tónleikanna og aðkomu Heklu að þeim. Blaðamaður bar eftirfarandi spurningu upp:

Þannig að Hekla keypti enga miða á tónleikanna?

„Ég sko, Bjartmar, ég nenni bara ekki að tala við þig. Þér kemur þetta bara ekkert við.“

Nú sást þú um samningaviðræður við Heklu um úthlutun lóða án útboðs.

„Heyrðu, vertu blessaður,“ sagði Hrólfur og lagði á blaðamann.

Ekki náðist í Friðbert Friðbertsson, forstjóra Heklu við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Hér að neðan má hlusta á hljóðupptöku af samtali blaðamanns við Hrólf Jónsson.

Uppfært 11:20:

Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar var sagt að Hekla hafi fengið úthlutað lóð í Suður-Mjódd. Það er ekki rétt, hún hefur ekki verið formlega afhend en samkvæmt heimildum DV eru samningaviðræður á lokastigi. Hið rétta er að fyrir liggur viljayfirlýsing um uppbyggingu 320-350 íbúða á Heklureit við Laugaveg og úthlutun lóðar til Heklu í Suður-Mjódd til að stuðla að þeirri uppbyggingu. Er hönnunarsamkeppni lokið. Viljayfirlýsingin var undirrituð  þann 3. maí árið 2017. Viljayfirlýsingin er grunnur að lokaviðræðum sem tengjast framvindu deiliskipulags á báðum svæðum þ.e. við Laugaveg og í Suður Mjódd. Lóðinni hefur hins vegar ekki verið úthlutað og deiliskipulag á Heklureit hefur ekki verið auglýst vegna þess að samningar hafa ekki náðst á grundvelli áðurnefndrar viljayfirlýsingar og er samningagerðin í hnút. Reykjavíkurborg vill ekki greina frá stöðu viðræðnanna, segir borgin að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“