fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Trúfélög á Íslandi í sálarkapphlaupi fyrir desember

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 27. nóvember 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef þú vilt skipta um trúfélag þá þarf að gera það fyrir 1. desember næstkomandi, annars renna sóknargjöld til núverandi trúfélags allt næsta ár. Þjóðskrá heldur utan um trúfélagaskráningu allra Íslendinga, það gildir um alla, einstaklingur sem er ekki skráður í trúfélag er þá skráður utan trúfélaga og rennur sóknargjaldið þá beint í ríkissjóð. Fjöldi einstaklinga þann 1. desember á hverju ári er notaður til að reikna út framlög ríkisins, eða sóknargjöld, til félaganna. Hver einstaklingur getur  lögum samkvæmt einungis verið skráður í eitt skráð trú- eða lífsskoðunarfélag í Þjóðskrá á sama tíma.

Um er að ræða umtalsverða fjármuni, tæplega 12 þúsund krónur á hvern einstakling 16 ára og eldri. Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld fyrir einstaka trúfélög heldur er framlagið einfaldlega greitt úr ríkissjóði.

Upphæðirnar skipta trú- og lífsskoðunarfélög miklu máli og hafa mörg hver auglýst eftir trúfélagaskráningum á samfélagsmiðlum, eru dæmi þess að birtar séu leiðbeiningar um hvernig það sé hægt rafrænt. Miðað við athugasemdir á færslum félaga þá virðist það hafa borið einhvern árangur. Samkvæmt tölum Fjársýslu ríkisins voru 2,5 milljarðar króna í sóknargjaldapottinum fyrir árið 2017. Þjóðkirkjan fær langhæstu upphæðina sem stærsta trúfélagið, fengu söfnuðirnir rúma tvo milljarða. Aðrir söfnuðir fengu alls 435 milljónir. Þjóðkirkjan fær ofan á þessa tvo milljarða rúmar 400 milljónir úr jöfnunarsjóði sókna og tæplega 300 milljónir úr Kirkjumálasjóði. Þetta eru ekki einu tekjur Þjóðkirkjunnar sem greiddar eru úr ríkissjóði, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 er gert ráð 75,9 milljónum úr Kristnisjóði og 1,8 milljörðum til Biskupsstofu vegna kirkjujarðasamkomulagsins, einnig er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á tekjum úr Kirkjumálasjóði og Jöfnunarsjóði sókna.

Samkvæmt vef Þjóðskrár eru næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum sem búsettir eru hér á landi, eða 65,6 prósent, skráðir í Þjóðkirkjuna þann 1. október síðastliðinn eða rösklega 233 þúsund manns. Frá 1. desember 2017 hefur þeim fækkað um 2.029 manns eða 0,9%. Á sama tíma eru meira en 24 þúsund einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga og fjölgaði þeim um 1.959 frá 1. desember eða um um 8,7%.

 

Davíð Ólafsson
Bahá’íar eiga land við Esjurætur.

Hafa ekkert á móti jólunum

Hvað er Bahá’í?

„Bahá’í-trúin er upprunnin í Persíu hinni fornu árið 1844 þar sem nú er Íran í  dag. Bahá’í-trúin er heimstrúarbrögð en ekki söfnuður. Opinberandi trúarinnar heitir Bahá’u’lláh. Fjöldi bahá’ía í heiminum telur á milli 7 til 8 miljónir manna,“ segir Davíð Ólafsson, forsvarsmaður Bahá’ía-samfélagsins á Íslandi.

„Bahá’íar trúa því að öll trúarbrögð komi frá einum og sama Guði og hafi verið klæðskerasniðin að menningu, umhverfi, og aðstæðum hverju sinni. Segja má að bahá’í-trúin sé sniðin að veröld þar sem þjóðirnar eru nátengdar hver annarri.

Bahá’íar hafa 11 helgidaga og þar af eru 9 þar sem bahá’íar eru hvattir til að taka sér frí frá vinnu og koma saman. Að auki hittast bahá’íar oft þess á milli, meðal annars á svokölluðum 19 daga hátíðum, en það er samkoma þar sem bahá’íar koma saman á 19 daga fresti. Oftast er komið saman í bahá’í-miðstöðinni sem inniheldur einnig þjóðarskrifstofu okkar. Enn sem komið er ekkert guðshús til staðar en bahá’íar eiga musterisland á Kistufelli við Esjurætur sem er fyrirhugað undir framtíðarmusteri.“

Halda bahá’íar jólin?

„Bahá’íar halda ekki upp á jólin því við höfum okkar eigin helgidaga. Að því sögðu hafa bahá’íar ekkert á móti jólunum sem slíkum og vandasamt er að finna ekki þá eftirvæntingu og anda sem fylgir þeim tíma. Að öðru leyti er það ákaflega mikilvægt í lífi bahá’ía að viðhalda einingu og þá ekki síður einingu fjölskyldna, og segjum til dæmis að einhver einstaklingur sem gerst hafi bahá’íi og hafi tilheyrt fjölskyldu sem alltaf hafi haldið jólin hátíðleg. Ef hann er sá eini í fjölskyldunni sem er bahá’í-trúar, þá leitast hann við að rjúfa ekki einingu fjölskyldu sinnar og sýnir viðleitni að halda gleðileg jól með henni.“

 

Dan Sommer
Myndi aldrei reyna að breyta löggjöf um fóstureyðingar.

Lítil kirkja en svipuð öðrum

Dan Sommer er safnaðarprestur hjá Postulakirkjunni en hún telur einungis um 25 manns hér á landi. Hann segir:

„Postulakirkjan er opið kristið trúfélag sem byggir á orði Jesú og trú frumkirkjunnar. Við leyfum ekki „guðfræði“ að koma upp á milli okkar. Ef einhver ágreiningur er þá er það orð Jesú sem við fylgjum.“

Að öðru leyti er Postulakirkjan hefðbundin kristin kirkja með svipaðar athafnir og aðrar.

„Við hlutumst ekki til um pólitík eða lífsskoðanir félaga. Við stundum ekki trúboð óboðin og höfum enga löngun til að segja öðrum fyrir verkum. Við teljum að ríki og kirkja eiga að vera aðskilin. Sem forstöðumaður trúfélags mæli ég ekki með fóstureyðingu og er persónulega andvígur þeim nema í mjög sérstökum tilfellum, en ég mundi aldrei reyna að hafa áhrif á lagasetningu. Ég hef enga trúarlega skoðun á samkynhneigð, enda vék Jesú ekki að því eina orði, né heldur postularnir 12. Við myndum sjálfsagt framkvæma hjónavígslu fyrir samkynhneigt par ef þess yrði óskað.“

Dan segir jólin hjá Postulakirkjunni svipuð og hjá Íslendingum almennt.

„Jólin sem við þekkjum frá íslenskum siðum er blanda af „Yule“-hátíð ljóssins og guðspjallasögur um fæðingu Jesú.“

 

Vésteinn Valgarðsson
Jólasveinarnir góð leið til að kenna börnum að sjá í gegnum ævintýri.

Fundir og umræður um þjóðfélagsmál

Vésteinn Valgarðsson er forsvarsmaður trúfélagsins Díamat sem telur á bilinu 70 til 80 félaga. Hann segir þetta ekki vera trúarbrögð sem slík heldur trúlausa lífsskoðun sem nefnist díalektísk efnishyggja.

„Þetta er samstæð hugmynd um eðli efnisheimsins og samfélagsins, sérstaklega um eðli þróunar og breytinga. Þetta eru ekki framandi hugmyndir. Við trúum ekki á yfirnáttúru. Heilastarfsemi og félagsleg tengsl eru forsenda hugmynda, vilja, siðferðis og alls sem er kallað sálarlíf. Vísindaleg aðferð er haldbesta leið okkar til að öðlast vitneskju. Mönnunum vegnar best þegar þeir hjálpast að við sameiginleg viðfangsefni, frekar en að keppa hver við annan eða nota hver annan.“

Vésteinn og félagar halda mánaðarlega fundi með framsögu og umræðum. Þar eru lítil formlegheit og ýmis þjóðfélagsmál rædd svo sem réttlætismál, geðheilsa, uppeldi og fleira. Jólahald er ekki mjög frumlegt að mati Vésteins.

„Á mínu heimili reynum við að leggja sem mest upp úr því að hafa það notalegt saman. Og gera hreint fyrst. Fyrir utan að ég er í Díamat er konan mín í Ásatrúarfélaginu, þannig að það er engin eftirspurn eftir jesúbörnum heima hjá mér. Hins vegar eru jólasveinarnir vinsælir. Þeir eru ekki bara skemmtilegir, heldur líka gagnleg kennsla fyrir börn í því að sjá í gegnum ævintýri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“