Eins og DV skýrði frá í gær notaði Ivanka sinn eigin netþjón og eigið netfang til að senda tölvupósta tengda starfi sínu sem ráðgjafi í Hvíta húsinu. Þetta er óheimilt því starfsfólk Hvíta hússins á að nota opinbera netþjóna og netföng. Það var einmitt svipað mál sem varð til þess að alríkislögreglan FBI rannsakaði tölvupóstanotkun Hillary Clinton þegar hún barðist við Trump um forsetaembættið. Þá og raunar síðar hefur Trump margítrekað að hann telji að sækja eigi Hillary til saka fyrir þetta og dæma hana í fangelsi. Ekkert hefur þó enn heyrst í honum varðandi tölvupóstanotkun Ivanka.
Sky segir að í yfirlýsingu frá Elijah Cummings, sem er demókrati í eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar, komi fram að nefndin muni rannsaka samskiptamál Hvíta hússins þegar nýr meirihluti tekur við völdum í fulltrúadeildinni í janúar. Rannsóknin mun beinast að tölvupóstsendingum Ivanka og hvort hún hafi farið eftir lögum við þær.