fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Fallöxin sótt yfir hafið: Dæmdur til dauða

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 23. nóvember 2018 20:00

Emir Kusturica Lék Joseph Neel í kvikmynd byggða á atburðunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fallöxin var hið alræmda aftökutæki frönsku byltingarinnar og var notuð í 200 ár í Frakklandi. Aðeins einu sinni var hún notuð í Norður-Ameríku, árið 1889 á lítilli eyju sem tilheyrir Frakklandi enn í dag. Engin fallöxi var til á eynni og refsing yfir dauðadæmdum mönnum því yfirleitt milduð. Tilfelli Josephs Neel þótti hins vegar svo óhugnanlegt að fallöxi var send milli heimsálfa til að aflífa hann.

Hryllileg sjón

Á gamlársdag árið 1888 vöknuðu íbúar eyjunnar Saint Pierre við vondan draum. Sextugur sjómaður að nafni Francois Coupard fannst myrtur í kofa sínum og lík hans illa útleikið. Hafði það verið kramið í eins konar pakka og falið í kofanum. Fjölmörg stungusár, á hálsi, í hjartastað, kvið og útlimum voru á líkinu. Íbúar eyjarinnar, sem er nálægt Nýfundnalandi, voru ekki vanir slíkum hryllingi.

Coupard var oft með ungum sjómanni, Olivier að nafni, og höfðu þeir verið á miklu fylleríi kvöldið áður. Svo hávaðasömu að lögreglan var kölluð á staðinn en þá voru þeir farnir úr kofanum. Grunur féll á Oliver sem fannst ásamt öðrum manni, Joseph Neel, sem var á þrítugsaldri eins og Olivier, eftir illan leik á sjó. Höfðu þeir reynt að sigla til Nýfundnalands, sem var þá bresk nýlenda.

Farið var með þá báða að kofanum og þeir yfirheyrðir þar. Játuðu þeir samstundis verknaðinn en báru við ölæði. Hafði Neel stungið Coupard fyrst en Olivier á eftir. Voru þeir báðir ákærðir fyrir morðið og réttarhöldin hófust 6. febrúar árið 1889.

Dæmdur til dauða

Þegar réttarhöldin hófust breyttu þeir framburði sínum og sögðust hafa ætlað að snæða með Coupard þetta kvöld. Þeir sögðust hafa þurft að brjóta upp hurðina og þá mætt Coupard sem var ölvaður og með hníf. Hafi þá brotist út slagsmál milli þeirra sem lauk með dauða Coupard. Sögðust þeir hafa misþyrmt líkinu með það fyrir augum að búta það niður til að sökkva því í sjó. Í óðagoti hafi þeir svo ákveðið að pakka því saman og fela það inni í kofanum, taka allt verðmætt sem þeir gátu og reyna að flýja til Nýfundnalands.

Reyndi Olivier að halda því fram að hann hafi einungis verið að fylgja Neel og saksóknari gekk ekki hart að honum. Féllst hann á að Neel hafi haft hann undir nokkurs konar dáleiðslu. Þar að auki hefði Olivier stungið Coupard eftir að Neel hafði drepið hann. Væri hans sök því ekki morð heldur slæm meðferð á líki.

Eftir tveggja daga réttarhöld var kveðinn upp dómur í málinu. Olivier fékk tíu ára dóm í þrælkunarvinnu en Neel skyldi tekinn af lífi.

Þá kom upp vandamál. Samkvæmt frönskum lögum mátti aðeins taka dæmda menn af lífi með einni aðferð, fallöxinni. Engin slík var hins vegar til á eyjunni og þess vegna hafði tveimur dauðadómum verið breytt í lífstíðarfangelsi fyrr á öldinni. Þegar Neel sótti um mildun daginn eftir uppkvaðninguna átti hann því sannarlega von á því að fá hana. En glæpurinn þótti svo skelfilegur að beiðninni var hafnað þann 12. apríl. Neel skyldi afhausaður.

Fallöxi
Afkvæmi frönsku byltingarinnar.

Erfitt að finna böðul

Yfirvöld á Saint Pierre sendu beiðni um að fá Louis Deibler, böðul Frakklands, til eyjarinnar og efni í fallöxi. Því var hins vegar hafnað því það lengsta sem siglt var, var til Korsíku. Um sumarið fékkst það svar að fallöxi yrði send frá karabísku nýlendunni Martinique en böðulinn þyrftu þeir að finna sjálfir.

Fallöxin kom til Saint Pierre 22. ágúst, tveimur dögum fyrir settan aftökudag. Hún var mjög gömul, sennilega hundrað ára og hafði verið notuð í frönsku byltingunni.

Verra var hins vegar að finna böðul. Í gegnum aldirnar hefur það þótt skammarlegt hlutverk að aflífa fólk og flestir veigrað sér við því. Yfirvöld á Saint Pierre buðu sakamönnum náðun gegn því að taka aftöku Neel að sér en þeir höfnuðu því. Rétt fyrir settan dag náði saksóknarinn að sannfæra sjómann að nafni Jean-Marie Legent til að framkvæma aftökuna. Hann hafði nýlega hlotið þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað en var lofað bæði náðun og 500 frönkum fyrir viðvikið.

Höfuðið hékk á flipa

Legent fékk bróður sinn til að aðstoða sig við aftökuna og deginum áður prófuðu þeir fallöxina á kálfi. Sú prufa gekk hins vegar illa og höfuð kálfsins féll ekki af heldur danglaði á húðflipa. Það var reyndar algengur vankantur við þessa aftökuaðferð.

Loks kom að aftökudeginum. Um morguninn gekk saksóknari inn til Neel og tilkynnti honum að stundin væri upp runninn. Svaraði Neel þá hátt: „Ég hræðist ekki dauðann!“ og gekk út með vörðunum. Því næst fékk hann vín og te til að drekka og prest til að játa fyrir.

Því næst tók við tuttugu mínútna gangur að fallöxinni og flest allir eyjaskeggjar voru mættir á torgið til að fylgjast með. Neel barðist aldrei um eða reyndi að sleppa heldur tók örlögum sínum með ró. Hann var lagður á fallöxina og kallaði þá til Legent: „Ekki klúðra þessu!“ Eftir nokkrar mínútur lét Legent öxina falla og rétt eins og í tilfelli kálfsins náðist höfuðið ekki af í einni svipan. Þurfti því að skera á flipa danglandi höfuðsins svo það félli í fötuna.

Aftakan á Joseph Neel var sú eina sem framkvæmd hefur verið í Norður-Ameríku með fallöxi. Fallöxin var hins vegar notuð í Frakklandi allt til ársins 1977. Árið 1981 var dauðarefsing aflögð í Frakklandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“