Róbert Wessmann, Árni Harðarsson og Magnús Jaroslaw Magnússon þurfa samkvæmt dómi Hæstaréttar að greiða Matthíasi Johannessen 640 milljónir í bætur vegna viðskipta í lyfjafyrirtækinu Alvogen. Þegar vextir og dráttarvextir bætast við upphæðina þá gerir það 1,2 milljarð í bætur.
Þeir Róbert, Árni, Magnús og Matthías voru viðskiptafélagar og keyptu hlut í Alvogen í gengum dótturfélag þar sem Róbert myndi eiga 94% en hinir þrír 2% hvor. Árni eignaðist hlut Róberts en Matthías taldi að hann hefði forkaupsrétt á þriðjungi hlutabréfa Róberts. Taldi Matthías að hinir þrír hefðu með saknæmum hætti selt hlut Róberts á undirverði til Árna.
Það staðfesti Hæstiréttur og dæmdi hann þremenningana til að greiða Matthíasi 640 milljónir í bætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum og 7 milljónir í málskostnað. Gerir það rúmlega 1,2 milljarð króna sem eru með hæstu bótum sem einstaklingar hafa verið dæmdir til að greiða.