Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, ætlar að gefa kost á sér til áframhaldandi starfa í embættinu á landsfundi flokksins sem haldinn verður síðar í vikunni.
Heiða hefur verið varaformaður flokksins í liðlega eitt ár. Í tilkynningu segir hún að gengið hafi á ýmsu, bæði í íslenskum stjórnmálum og hjá Samfylkingunni.
„Þetta hefur verið krefjandi tími, en afar gefandi, enda sjaldan skemmtilegra í stjórnmálum, en þegar samstaða og eindrægni rikir, árangur starfsins verður sýnilegur og hreyfingin eflist,“ segir hún.
Þá segir Heiða að framundan séu spennandi tímar, uppbygging Samfylkingarinnar og mikilvægar sveitastjórnarkosningar í vor.
„Ég er full bjartsýni á framhaldið og ég veit að hreyfing jafnaðarfólks á mikil sóknarfæri. Ég vill leggja mitt af mörkum til að við nýtum þau færi og óska því eftir áframhaldandi umboði sem varaformaður Samfylkingarinnar á komandi landsfundi.“