Í gær fjölluðum við um sögu Þristsins. Að því tilefni ákváðum við að deila einni uppskrift þar sem Þristur er í aðalhlutverki. Þetta Þristagott kemur úr smiðju Maríu Gomez á paz.is og ætti að renna ljúflega niður.
Botn – Hráefni:
300 g Þristar (einn poki + einn stór þristur)
1 poki Apollo lakkrískurl svart (ekki fyllt eða með súkkulaðihúð, bara „plain“ svart)
120 g smjör eða Ljóma
100 g Rice Krispies
Krem ofan á – Hráefni:
30 g smjör eða Ljóma
200 g hreint Milka-súkkulaði
Aðferð:
Bræðið saman Þrista og smjör í potti við vægan til meðalhita og hrærið í á meðan. Þegar þetta er alveg orðið bráðnað slökkvið þá undir pottinum. Bætið svo strax við Rice Krispies og lakkrís og hrærið vel saman. Setjið svo í eldfast mót með smjörpappa undir og setjið í frysti á meðan kremið er gert. Bræðið nú saman yfir vatnsbaði Milka-súkkulaði og 30 g smjöri. Takið þristagottið úr frystinum og hellið súkkulaðikreminu yfir allt, jafnt. Stingið aftur í frysti og leyfið því að vera þar í eina klukkustund áður en það er borðað (að minnsta kosti, en má vera mikið lengur). Takið út um 15 mínútum áður en þess er neytt og leyfið að standa á borði. Skerið í litla bita eftir þessar 15 mínútur og geymið svo ávallt í frysti ef eitthvað verður eftir.