fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Allir voru stjörnur í Hollywood

Vinsælasti skemmtistaður Íslands á áttunda og níunda áratugnum – Troðfullt á hverju kvöldi og diskóið dunaði – Einstakar ljósmyndir sýna stemninguna sem ríkti í „Hollý“

Auður Ösp
Sunnudaginn 18. febrúar 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem voru upp á sitt besta á áttunda og níunda áratugnum muna eflaust eftir því að hafa skemmt sér í Hollywood eða „Hollý“ eins og staðurinn var gjarnan kallaður. Þar voru allir stjörnur, fullt var út úr dyrum á hverju kvöldi og diskótónlistin réð ríkjum. Álitlegar stúlkur áttu möguleika á að vera kosnar Ungfrú Hollywood og þeir sem voru heppnir fengu mynd af sér upp á vegg.

Hollywood var opnaður 2. mars 1978 og var fullt út úr dyrum frá fyrsta degi. Á þessum árum voru utanlandsferðir fátíðar, aðeins var boðið upp á eina sjónvarpsrás og myndbandstækin voru ekki enn komin inn á heimilin. Bjórinn var ekki leyfður og lítið framboð var af skemmtistöðum. Unga fólkið vantaði afþreyingu. Ólafur Laufdal rak staðinn ásamt Kristínu Ketilsdóttur, eiginkonu sinni, og samtali við blaðamann DV rifjar hann upp þennan eftirminnilega tíma.

„Þetta var á þeim tíma þegar diskóið var að byrja, bíómyndin Saturday Night Fever var nýkomin út, klúbburinn Stúdíó 54 var úti í New York og alls staðar í heiminum var verið að opna diskóklúbba. Ég ferðaðist mikið erlendis á alls konar sýningar til að kynna mér það nýjasta í ljósi og hljóði. Hollywood var fyrsti staðurinn til að vera með ljósadansgólf og myndbandstæki og svo vorum við með nokkur sjónvörp á staðnum sem sýndu tónlistarmyndbönd. Þetta var algjörlega nýtt, fólk hafði aldrei séð þetta áður. Liðið stóð bara og gapti á þetta.“

Troðfullt um hverja helgi

Staðurinn var opnaður klukkan átta á kvöldin og að sögn Ólafs var húsið yfirleitt orðið troðfullt um tíu leytið. Langar raðir myndust fyrir utan og lét unga fólkið sig hafa það að bíða tímunum saman í vetrarfrostinu. „Í miðri viku voru lágmark sex hundruð manns og um helgar, þegar böllin voru, vorum við að selja upp í fimmtán hundruð miða. Við vorum með dagskrá á hverju kvöldi, keppnin um stelpu kvöldsins, spurningakeppni og svo var vinsældalisti Hollywood birtur vikulega.“

Plötusnúðar á borð við Leópold Sveinsson, Ásgeir Tómasson og Gísla Svein Loftsson þeyttu skífum í diskóbúrinu og vinsælt var að fá þá til að senda ástar- og afmæliskveðjur yfir dansgólfið. Hægt var að kaupa sælgæti, sokkabuxur og snyrtidót í lítilli verslun á staðnum auk þess sem gestum bauðst að kaupa þar ísmola til að taka með í eftirpartíin en staðnum var lokað á slaginu þrjú.

„Fer í Hollywood um helgar með mynd af bílnum í vasanum“

Fram kemur á Wikipedia: Skemmtistaðurinn Hollywood kemur fyrir í nokkrum íslenskum dægurlagatextum. Má þar nefna lagið Fegurðardrottning með Ragnhildi Gísladóttur. Þar segir:

„Og svo frétti ég af keppninni í Hollywood / Þar sem bíll af Datsun-gerð í veði var / Svo ég skellti mér í chiffonkjól, batt hár í hnút / og viti menn ég sigur úr býtum bar.“

Í lagi Bítlavinafélagsins, Þrisvar í viku, segir frá tvítuga töffaranum Auðbirni sem „… fer í ljós þrisvar í viku og mætir reglulega í líkamsrækt. Hann fer í Hollywood um helgar með mynd af bílnum í vasanum.“

Á plötunni Ísland syngur Spilverk þjóðanna um hippann sem „forðum í Tjarnarbúð fríkaði út“ en „er nú fastagestur í Hollywood, mænir á meyjar og vídeó og dreymir um Alfa Rómeó“.

Bubbi Morthens samdi svo og söng lagið Hollywood, hárbeitta ádeilu um firringu diskómenningarinnar, sem kom út á hljómplötunni Ísbjarnarblús (1980).

„Svo tróðu þarna upp skemmtikraftar eins og Baldur Brjánsson og Laddi. Samtökin Módel ’79 voru þarna líka, alveg gríðarlega vinsæl, og stóðu fyrir tískusýningum á fimmtudögum og sunnudögum. Svo var Ungfrú Hollywood valin og stelpurnar fengu bíl í verðlaun eða ferð til Hollywood í Ameríku.“

Þegar líða tók á níunda áratuginn breyttist skemmtistaðamenningin í Reykjavík, gestum fjölgaði á vínveitingahúsum og krám en fækkaði á stórum skemmtistöðum. Ólafur seldi reksturinn árið 1987 og var staðnum þá breytt í veitingahúsið Broadway. Hann minnist þó tímans í Hollywood með mikilli hlýju.

„Ég minnist þess varla að hafa séð vín á nokkrum manni, hvað þá slagsmál eða ólæti, það var ekki þannig lýður sem kom á staðinn. Þarna kom ungt og fallegt og lífsglatt fólk sem vildi skemmta sér og sýna sig og sjá aðra. Það myndaðist þarna afskaplega góð stemming.“

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar af Birni G. Sigurðssyni sem stundaði staðinn á sínum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna