Söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson er einn ástsælasti og afkastamesti söngvari þjóðarinnar. Hann leikur og syngur í Rocky Horror í Borgarleikhúsinu og er að undirbúa jólatörnina, bæði eigin tónleika og síðan er hann gestasöngvari á fleiri.
Páll Óskar er áttundi gestur Einkalífsins á Vísi, en í þáttunum er rætt við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði.
„Ég hef orðið yfir mig ástfanginn fjórum sinnum í lífinu og það gekk aldrei upp,“ segir Páll Óskar í þættinum og segist síðast hafa verið skotinn fyrir tíu árum síðan og það hafi verið fyrsta heilbrigða sambandið.
„Málið er að ég get ekki boðið sjálfum mér upp á það að vera skotinn í einhverjum sem er annaðhvort líkamlega eða andlega óaðgengilegur. Ég get ekki og nenni ekki að reyna byrja í einhverju sambandi við einhvern sem býr í Kaliforníu. Hann er ekki líkamlega aðgengilegur. Þá víkur sögunni hingað heim á frón. Hommalíf hér á Íslandi er eins og blanda af fiskabúri og skókassa. Yndislegir strákar en við erum alveg svakalega fáir,“ segir Páll sem nefndir til sögunnar Facebook-hópinn Hommaspjallið en þar eru aðeins samkynhneigðir íslenskir karlmenn sem eru komnir út úr skápnum.
Í þættinum ræðir Palli einnig um söngleikinn Rocky Horror, um það hvernig venjulegur dagur er í hans lífi, um einstakt samstarf hans og Moniku, um Eurovision og margt fleira.