fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024

„Pabbi öskraði þegar hann heyrði að ég gæti sungið“

17 ára og gefur út sína aðra plötu með frumsömdu lagi Ruthar Reginalds

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. febrúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Fanney Tómasdóttir er 17 ára gömul, alin upp á miklu tónlistarheimili og hefur alltaf langað að vera söngkona. Hún er hinsvegar einstaklega feimin og hóf ekki að syngja opinberlega fyrr en í fermingunni sinni. Síðan þá hefur hún verið óstöðvandi, en ávallt með feimnina í farteskinu, gefið út tvo geisladiska, sungið í brúðkaupum, tónleikum og án undirbúnings við jarðarför besta vinar föður síns.

„Ég var líklega sex ára þegar ég söng fyrst, þá var ég á námskeiði og Birgitta Haukdal var að kenna,“ segir Helga Fanney. „Ég steig inn í stúdíó og söng Maístjörnuna og ég hef eiginlega sungið síðan.“

Þetta námskeið er eina kennslan sem Helga Fanney hefur sótt í tónlist og þrátt fyrir að hafa byrjað að syngja þá, vissu fáir af því að Helga Fanney héldi lagi og einn af þeim var faðir hennar, Tómas Ó.Malmberg, sem hefur unnið við tónlist í yfir 30 ár og er vel þekktur trúbador.

„Já alveg lengi,“ segir hún með krafti, aðspurð hvort og hvers vegna hún hafi falið sönginn fyrir pabba sínum, „ég var bara mjög feimin sem barn og er það ennþá, ég þori ekki einu sinni að hringja í Dominos og panta mér pizzu, ég nota bara appið, ég hef alltaf verið ótrúlega feimin,“ segir þessi ungi söngfugl og virkar ekkert feimin. Aldrei var sungið í fjölskylduboðum eða slíku, að hennar sögn og því tókst henni að fela hæfileika sína eins lengi og raun ber vitni.
Eftir grunnskóla vildi hún læra eitthvað skapandi og valdi leiklistarbraut í Borgarholtsskóla, auk þess að vera á fullu að syngja. „Ég valdi leiklist af því að mig langaði að fara í skapandi nám, að læra að teikna og þessi braut hentaði mér best.“

Pabbi öskraði og pantaði strax tíma í hljóðveri

Faðir Helgu Fanneyjar heyrði hana fyrst syngja þegar hún var 13 ára. „Ég póstaði myndbandi þar sem ég var að syngja á Facebook árið 2010 eða 2011. Pabbi sá það töluvert seinna, árið 2013 eða eitthvað og hann trúði ekki að þetta væri ég. Svo þegar ég fór í háu nóturnar var hann alveg, „Jú þetta er dóttir mín.“

„Ég var inn í herbergi hjá mér og hann öskraði alveg á mig að koma fram. Ég hugsaði bara hvað væri að gerast, þá vildi hann að ég syngi fyrir hann, svo rauk hann í símann og var búinn að bóka tíma í stúdíó nokkrum mínútum seinna.“

Fyrsta platan kom síðan út þegar Helga Fanney var 13 ára. Á henni eru fjögur lög sem hún valdi sjálf: When I Think of Angels, In the Arms of the Angels, Hallelujah og Make You Feel My Love og spilar faðir hennar undir á plötunni.

„Þetta er mjög skrýtið ég labbaði bara inn í stúdíóið og leið eins og ég ætti heima þar,“ segir Helga Fanney. „Ég set á mig heyrnartólin og bara syng. Ég held að flestir sem eru frægir séu eitthvað feimnir, ég er samt ekki með sviðsskrekk, ég er smá stressuð áður en ég syng, en ekki á meðan. En eftir á þá verð ég ógeðslega stressuð, held að það sé vegna þess að ég hrædd við hvað fólk segir.“

Syngur lag við texta Rutar Reginalds

Nýlega kom svo út annar diskur þar sem Helga Fanney syngur tíu lög, sem öll eru tekin upp í einni töku: lögin fjögur sem voru á fyrri disknum, fimm önnur tökulög og síðan eitt frumsamið lag, lagið Þú lífs míns ljós. Textinn er eftir Rut Reginalds og lagið eftir föður Helgu Fanneyjar, sem spilar einnig undir á plötunni. Diskumslagið er síðan plakat og skrifar vinur Tómasar, Ingvar Valgeirsson tónlistarmaður, umsögn um Helgu Fanney. „Rut samdi textann fyrir dætur sínar og hún vildi að pabbi myndi semja lagið, þau eru mjög góðir vinir,“ segir Helga Fanney. „Rut ætlaði fyrst að syngja það sjálf, en pabbi stakk svo upp á að ég myndi syngja það.“

Diskurinn inniheldur 10 lög, sem öll eru tekin upp í einni töku: níu tökulög og eitt frumsamið, með texta Rutar Reginalds og lagi Tómasar, föður Helgu Fanneyjar.
Songbird Diskurinn inniheldur 10 lög, sem öll eru tekin upp í einni töku: níu tökulög og eitt frumsamið, með texta Rutar Reginalds og lagi Tómasar, föður Helgu Fanneyjar.

Helga Fanney spilar á hljóðfæri líka, ukuleke og píanó og er að kenna sjálfri sér á gítar. „Ég er samt með svo litla putta að ukuleleið er fínt bara og létt að spila á það,“ segir hún og hlær. „Ég er líka svo lítil, bara 154 sm.“

„Við pabbi erum mest bókuð í brúðkaup og jarðarfarir, ég söng í sex brúðkaupum síðasta sumar. Ég er farin að halda að hann treysti mér ekki til að vera ein. Það er seinni tíma vandamál, segir hún og hlær, aðspurð hvort að pabbi spili alltaf undir hjá henni.

Söng í jarðarför Gulla Falk án undirbúnings

Helga Fanney söng á Falkfest, styrktartónleikum fyrir gítarleikarann og tónlistarmanninn Guðlaug Falk, sem haldnir voru á Spot 6. maí 2016. Þar komu fram margar af helstu rokksveitum landsins, eins og Dimma, Sólstafir og Skálmöld, svo aðeins nokkrar séu nefndar. Eftir harða baráttu við krabbamein lést Gulli og fór jarðarför hans fram í Háteigskirkju 26. júlí 2017.

„Stebbi Jak söngvari Dimmu kemur þar til mín og spyr hvort ég sé stressuð og ég skildi nú ekki af hverju hann var að spyrja að því. Síðan kemur Ingvar til okkar pabba og spyr: „Hvaða lag ætlið þið að taka?, hálftíma áður en athöfnin átti að byrja,“ segir Helga Fanney. Kom þá í ljós að láðst hafi að bæta Tómasi í Facebookhópspjall þar sem menn tóku sig saman um hverjir ættu að spila, hvaða lag og svo framvegis í athöfninni. Feðginin brunuðu því heim, sóttu gítarinn og ákváðu á leiðinni að Helga Fanney myndi syngja Make You Feel My love.

Helga Fanney og Gulli Falk á góðri stund árið 2015. Gulli og Tómas, faðir Helgu Fanneyjar voru mjög góðir vinir.
Á góðri stundu Helga Fanney og Gulli Falk á góðri stund árið 2015. Gulli og Tómas, faðir Helgu Fanneyjar voru mjög góðir vinir.

Háteigskirkja var full af fólki að fylgja Gulla síðustu skrefin, yfir 100 mótórhjól fyrir utan, enginn prestur var við athöfnina og athöfnin var rokktónleikar.

„Þetta er skemmtilegasta jarðarför sem ég hef farið í og fyrsta þar sem var klappað. Ég vildi að allar jarðarfarir væru svona,“ segir Helga Fanney. „Þetta á að vera góð kveðjustund, rifja upp góðar minningar og hlæja, af hverju áttu að gráta, heldur þú að sá látni myndi vilja það?“

Næst á dagskrá í söngnum er að fylgja plötunni eftir og eru útgáfutónleikar fyrirhugaðir á árinu.

„Draumurinn er og hefur alltaf verið að vera söngkona, en ef það gengur ekki eftir þá langar mig í lögguna, ég elska löggurannsóknarþætti og er búið að langa að vera lögga síðan ég var níu ára,“ segir Helga Fanney, sem þarf þó líklega ekki að treysta á plan B, því ljóst er þegar hlýtt er á plötuna að hún á framann vísan í söngnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Guardiola ræðir umtalaða ákvörðun um helgina en gefur lítið upp

Guardiola ræðir umtalaða ákvörðun um helgina en gefur lítið upp
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Þorsteinn var næstum búinn að hlaupa á sig en hlustaði á innsæið

Þorsteinn var næstum búinn að hlaupa á sig en hlustaði á innsæið
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Listamenn sárir yfir „óþarflega móðgandi“ synjunarbréfum- „Þetta þarfnast skýringa og afsökunarbeiðni til listamanna, sem er réttilega misboðið“

Listamenn sárir yfir „óþarflega móðgandi“ synjunarbréfum- „Þetta þarfnast skýringa og afsökunarbeiðni til listamanna, sem er réttilega misboðið“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Svíi í raðir Eyjamanna

Svíi í raðir Eyjamanna
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu viðbrögð stjörnunnar við furðulegri spurningu í gær

Sjáðu viðbrögð stjörnunnar við furðulegri spurningu í gær
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Dagur Ingi Hammer skrifaði undir í Breiðholti

Dagur Ingi Hammer skrifaði undir í Breiðholti
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice