Það er nauðsynlegt að eiga nokkrar uppskriftir á lager sem maður er ánægður með og slá alltaf í gegn. Hér er uppskrift sem á svo sannarlega heima í uppskriftabunkanum, en þessi eplakaka klikkar aldrei og er einstaklega bragðgóð.
Hráefni:
4 epli, kjarninn úr og skorin í sneiðar (ekki taka hýðið af)
1 tsk. kanill
safi úr ½ sítrónu
2 msk. vatn
¼ bolli + 2 msk. sykur
¾ bolli hveiti
¼ bolli púðursykur
½ tsk. salt
115 g smjör, kalt, skorið í teninga
1 bolli haframjöl
vanilluís til að bera fram með
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C og smyrjið stórt eldfast mót. Blandið eplum saman við 2 matskeiðar af sykri, sítrónusafa, vatn og kanil. Í annarri skál blandið þið saman hveiti, púðursykri, restinni af sykrinum og salti. Notið síðan hendurnar til að vinna smjörið saman við hveitiblönduna þar til hún minnir á mulning. Bætið haframjölinu saman við. Raðið eplunum í eldfasta mótið og dreifið haframjölsblöndunni yfir. Bakið í um 45 mínútur, eða þar til toppurinn er farinn að taka góðan lit. Kælið í 10 mínútur og berið fram með vanilluís.