fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Öfgasinni eða hugsjónamaður? Hver er Tommy Robinson?

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 28. febrúar 2018 10:13

Tommy Robinson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tommy Robinson

Ágúst Borgþór Sverrisson skrifar:

Töluverðar umræður hafa spunnist hér á landi um breska aðgerðasinnann Tommy Robinson eftir að
hann upplýsti á Twitter-síðu sinni að honum hefði verið boðið á viðburð á Íslandi næsta sumar. Í
undirbúningi er að bjóða Robinson að halda fyrirlestur hér á landi í maímánuði en ekkert er fastsett í
þeim efnum enn. Tommy Robinson skilgreinir sjálfan sig sem and-íslamskan aðgerðasinna og fyrir þau
störf sín hefur hann annars vegar fengið allt frá harðri gagnrýni upp í morðhótanir og líkamsárásir og
hins vegar miklar vinsældir. Robinson starfar einnig að líknarmálum, til dæmis fjársöfnunum fyrir
langveik börn, en sum líknarfélög hafa séð sér hag í að nýta sér hið stóra net fylgismanna sem hann
hefur yfir að ráða. Slíkar ákvarðanir hafa hins vegar líka vakið mikla gagnrýni vegna umdeildra
pólitískra skoðana mannsins.

 

Tommy Robinson heitir réttu nafni Steven Yaxley Lennon en dulnefnið Tommy Robinson hefur hann
frá frægri fótboltalbullu, stuðningsmanni knattspyrnuliðsins Luton Town. Tommy er fæddur og
uppalinn í Luton, býr enn í borginni og pólitísk lífsýn hans og barátta hans markast af mannlífinu þar.
Tommy er fæddur árið 1982 og er því ungur maður en hefur verið í sviðsljósinu vegna umdeildrar
baráttu sinnar gegn Íslam síðan árið 2009. Það ár stofnaði Tommy ásamt frænda sínum Kevin Caroll
hreyfinguna The English Defense League, EDL, sem stóð fyrir reglulegum mótmælagöngum gegn
íslamskri öfgahyggju, í Luton og víðar.

Göngurnar voru fjölmennar en hreyfingin varð þegar í upphafi illa þokkuð og var sökuð um rasisma.
Tommy Robinson hefur ávallt haldið því fram að málflutningur EDL hafi beinst gegn íslamskri
öfgahyggju en ekki múslimum í heild. Fundist hafa bútar úr ræðum hans sem gætu vakið upp grun um
almenna múslímaandúð en gegnumsneytt hefur málflutningur Robinson verið á þessum nótum.
Á hinn bóginn var misjafn sauður í mislitu fé EDL og margir höguðu sér illa í göngunum, voru drukknir
og hrópuðu andstyggileg slagorð til höfuðs múslímum. Róstur og ryskingar voru algengar í göngunum
en EDL-félagar voru ekki einu sökudólgarnir þar því hópar öfgamúslima og vinstri sinnaðir
aðgerðasinnar á borð við hin umdeildu samtök UAF (Unite Agains Fascism) efndu iðulega til
gagnmótmæla þegar göngur EDL fóru fram og mögnuðu upp átök.

Hvers vegna varð EDL til?
Í Luton er um þriðjungur íbúanna múslímar, þar af mjög margir frá Pakistan, og það eru 26 moskur í
borginni, en íbúatalan er um 217.000, eða sambærileg við höfuðborgarsvæðið á Íslandi.
Luton hefur því miður verið heimkynni frægra hryðjuverkamanna og haturspredikara. Einn af þeim
síðarnefndu, Anjem Choudary, var haustið 2016 dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að hvetja
menn til að ganga í hryðjuverkasamtökin ISIS, en Anjem Choudary er einn af þeim öfgamönnum sem
Tommy Robinson hefur beint spjótum sínum að í sinni baráttu. Meðal frægra hryðjuverkamanna frá
Luton er Taimour Abdulwahab al-Abdaly sem sprengdi sig í loft upp í Stokkhólmi árið 2010 og
fjórmenningar sem gerðu nokkrar árásir á neðanlestarkerfi í London þann 7. júlí árið 2005. Nokkrir af
þeim hryðjuverkamönnum sem frömdu mannskæðar árásir á óbreytta borgara í London á síðasta ári
eru einnig frá Luton. Þá hafa margir íslamskir innflytjendur í Luton hafa gengið til liðs við
hryðjuverkahreyfinguna ISIS.

Umkvörtunarefni EDL manna voru uppgangur öfgamanna í borginni, haturspredikarar í moskum,
meintar kynþáttaárásir íslamskra afbrotamanna á hvítt fólk, Indverja og gyðinga í borginni,
kerfisbundin kynferðisleg misnotkun gengja íslamskra karlmanna á unglingsstúlkum (grooming gangs)
og hatursáróður íslamskra öfgamanna á götum úti í Luton, til dæmis við heimkomuhátíð breskra
hermanna frá Afganistan, atvik sem varð endanlega til þess að EDL var stofnuð.
Hvað sem líður framgöngu EDL verður því ekki neitað að sum umkvörtunarefni Tommy og félaga
reyndust á rökum reist. Sumir öfgamannanna sem þeir þekktu til sitja núna í fangelsi eða hafa fallið
eftir hryðjuverk. Víðtæk kynferðisbrot íslamskra hópa karlmanna gegn kornungum stúlkum á Englandi
eru vel þekktar staðreyndir og hafa fjölmargir menn verið sakfelldir fyrir þessi brot á undanförnum
árum og misserum. Þess má geta að frænka Tommy Robinson er á meðal fórnarlamba hóps af þessu
tagi.

Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Douglas Murray (aðstoðarritstjóri Spectator) segir að EDL hafi verið
annars stigs vandamál, eða afleitt vandamál. Murray er hægri sinnaður efasemdamaður um
fjölmenningu og mjög gagnrýnin á Íslam, en þó virtur og hefur ekki fengið á sig rasistastimpil. Murray
segir að EDL hafi verið ógeðfelld hreyfing en tilurð hennar sé afleiðing vandamála sem breskir
stjórnmálamenn hafi ekki tekið á. Harkan sem beinst hafi gegn EDL af hálfu yfirvalda sé dæmigerð
fyrir þá tilhneigingu Englendinga að ráðast ekki að rótum vandans heldur að vandamálum sem séu
afleiðingar hans.

Afbrotaferill Tommy Robinson
Tommy Robinson hefur verið dæmdur fyrir ýmis afbrot og setið nokkrum sinnum í fangelsi. Hann
lenti undir smásjá lögregluyfirvalda í kjölfar stofnunar EDL en hreyfingin olli yfirvöldum miklum
áhyggjum. Var hann fundinn sekur um veðsvik og sat inni í nokkra mánuði fyrir það brot.
Tommy hefur einnig verið fundinn sekur um tvær líkamsárásir, aðra á óeinkennisklæddan
lögregluþjón og hina á nýnasista sem hann vildi reka úr EDL.
Tommy hefur oft haldið því fram að hafi í raun verið pólitískur fangi og hafi verið beittur ofsóknum af
hálfu lögreglu þar sem koma átti honum úr umferð. Fyrir utan dómana hefur hann fengið
smávægilegar ákærur sem hefur verið vísað frá dómi og um tíma virðist áhugi lögreglu á honum hafa
verið smásmugulegur. Hann hefur aldrei verið ákærður eða sakfelldur fyrir kynþáttaníð eða
hatursáróður þó að ummæli hans og framganga í þá átt hafi oft verið harðlega gagnrýnd.

Tommy hættir í EDL – hvað tók við?
Árið 2013 sagði Tommy sig úr The English Defense League og vakti sú ákvörðun mikla athygli. Ýmsar
skýringar voru gefnar á henni en þær helstu voru af hálfu Tommy að hann gæti ekki lengur haldið
raunverulegum öfgamönnum utan hreyfingarinnar og hann kærði sig ekki lengur um að vera andlit
hreyfingarinnar á meðan ýmsir aðilar innan hennar sýndu af sér háttsemi sem væri andstæð
viðhorfum hans. Enn fremur sagði Tommy að hann teldi ekki að götumótmæli væri lengur heppileg
leið til að knýja fram umbætur varðandi íslamska öfgahyggju á Bretlandi.

Tommy gekk til liðs við samtökin The Quillian Foundation í kjölfarið en þar ráða húsum hófsamir
múslímar sem berjast gegn öfgahyggju. Stofnandi samtakanna er hinn virti Maajid Nawas, fyrrverandi
öfgamaður sem undanfarin ár hefur barist af kappi gegn öfgatrú meðal múslíma og talað fyrir
aðlögun þeirra að vestrænum gildum. Samstarfið gekk vel í fyrstu en þó skildu leiðir nokkrum
misserum síðar. Tommy Robinson hefur haldið því fram að Quillian Foundation tali tveimur tungum,
innan samtakanna sé álitið að ástandið hvað varðar öfgahyggju meðal múslíma á Bretlandi sé miklu
alvarlega en samtökin viðurkenna út á við. Nokkurn skugga bar á samstarf Tommy við samtökin er
upplýst var að hann hafði fengið greiddar nokkuð háar fjárhæðir fyrir að ganga til liðs við þau. Átti
þessi hugarfarsbreyting fyrrverandi leiðtoga EDL að verða rós í hnappgat QF og efla orðspor
samtakanna.

Nokkru eftir þetta stofnaði Tommy Robinson Englandsdeild þýsku baráttusamtakanna PEGIDA sem
eru mjög andsnúin innflytjendum og Íslam. Samtökin hafa aldrei náð flugi á Englandi.
Undanfarin ár misseri hefur Tommy starfað sem blaðamaður fyrir kanadíska fjölmiðlafyrirtækið Rebel
Media. Hann er enginn hefðbundinn fjölmiðlamaður, þetta er áróðursefni sem hann flytur á
myndböndum sem birtast nær daglega á netinu. En margt af þessu efni er engu að síður athyglisvert.
Hefur Tommy meðal annars birt viðtöl við fólk sem orðið hefur fyrir hatursglæpum af hálfu öfgafullra
múslíma, fangað mannréttindabrot þess eðlis að fólki er sagt upp störfum fyrir stuðning við málstað
hans eða skoðanasystkina, og skrásett sín eigin samskipti við íslamista, lögreglu og fleiri aðila.
Tommy Robinson hefur nú nýlega látið af störfum hjá Rebel Media og vinnur sjálfstætt við efnisöflun
og myndbandagerð. Hann hefur afar aggressífan og lifandi framgangsstíl við efnisöflun sína og hikar
ekki við að vaða með myndatökuliði inn á vinnustaði fólks sem gagnrýnir hann í fjölmiðlum og krefjast
rökstuðnings fyrir skrifum eða ummælum þess um hann. Hann tekur yfirleitt upp öll samskipti sín við
fjölmiðla og hvers konar valdastofnanir og birtir á Youtube.

Er Tommy Robinson öfgamaður? – Hvar liggja öfgarnar?
Allt sem í þessari samantekt stendur er byggt á heimildum sem auðfundnar eru á netinu. Þar má
nefna blogg, fréttir og viðtöl úr netmiðlum en fyrst og fremst myndbönd sem hlaðið hefur verið niður
á Youtube. Framan af ferli Tommy ber mest á útvarps- og sjónvarpsviðtölum, bæði í þekktum
hefðbundnum fjölmiðlum á borð við BBC, þar sem hann er oft spurður mjög gagnrýninna spurninga,
og í alls konar jaðarmiðlum sem eru hliðhollir honum. Á síðustu árum má hins vegar finna gífurlegt
magn af myndböndum sem Tommy hefur unnið sjálfur, eigin ræður, viðtöl og skrásetning á ýmsum
uppákomum. Allt þetta efni er misjafnlega trúverðugt eins og gengur en í heildina má finna
allheildstæða mynd af ferli Tommy frá 2009 fram til dagsins í dag.
Ljóst er að Tommy Robinson er afar umdeildur en í heildina hefur orðspor hans vaxið frá
upphafsárum EDL er hann var almennt fordæmdur. Ennþá verður hann fyrir aðkasti á almannafæri
fyrir skoðanir sínar og fundum og kynningum sem hann efnir til er stundum aflýst vegna mótmæla
vinstri sinnaðra hópa sem setja þrýsting á gestgjafana. En hann á sér líka gífurlega marga fylgismenn
og vinsældir hans aukast stöðugt.

Flestir sem til þekkja viðurkenna að Tommy er stundum fordæmdur vegna skoðana sem eru ranglega
eignaðar honum. Fyrir það fyrsta hefur hann engin tengsl við nýnasisma og ekkert sem hann hefur
nokkurn tíma sagt er hægt að tengja við nasískar stefnur, yfirburði kynstofna eða neitt slíkt. Hefur
hann þó verið kallaður nýnasisti og EDL hafa oft verið kölluð nýnasistasamtök án nokkurs vitræns
rökstuðnings.

Á hinn bóginn er það rétt að Tommy Robinson hefur hvað eftir annað fordæmt trúarbrögðin Íslam í
heild og kallað þau fasíska hugmyndafræði. Segir hann að múslímar sem fremja hryðjuverk eða
misnota unglingsstúlkur finni réttlætingu fyrir slíku í trúarritum múslíma. Hann segir að meirihluti
múslíma séu friðsamt fólk sem aðlagist samfélaginu en það sé vegna þess að þeir séu í raun trúlausir.
Þessa gallhörðu afstöðu til heilla trúarbragða flokka sumir undir öfga og jafnvel rasisma. Þá hefur
Tommy viðrað hugmyndir um að stöðva beri byggingu nýrra moska á Bretlandi og láta þær moskur
sem eru starfandi lúta opinberu eftirliti. Ennfremur vill hann takmarka fjölda innflytjenda frá
íslömskum löndum. Þar með er hann í hópi þeirra sem vilja mismuna fólki á grundvelli trúar. Þessi
skoðun er þó orðin svo algeng að hún er engan veginn úti á jaðrinum lengur en brýtur í bága við
almennar hugmyndir um jafnrétti.

Tommy Robinson er sannfærður um að útbreiðsla íslamskrar öfgahyggju innan Vestur-Evrópu sé
sívaxandi vandi sem sé að verða óstöðvandi. Hægri öfgahyggju eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg og
borgarastríð sé óhjákvæmilegt fyrr eða síðar. Erfitt er að sjá hvað greiningatól eða forsendur hann
hefur til að kveða upp slíka dóma. Sá grunur vaknar að hann sjái allan heiminn í ljósi reynslu sinnar af
fjölmenningu í fæðingarborg hans, Luton. Bitastæðastur er Tommy Robinson þegar hann lýsir
kynnum sínum af múslímum í Luton og misheppnaðri fjölmenningu borgarinnar. Þetta er rakið
skilmerkilega í löngum fyrirlestri sem hann hélt hjá The Oxford Union árið 2015 og spurningatíma
með námsmönnum sem fylgdi í fjölfar fyrirlestrarins. Myndskeið með öllu þessu efni eru
auðfinnanleg á Youtube

Þar leitast Tommy meðal annars við að réttlæta tilurð EDL sem neyðaúrræðis fólks í verkamannastétt sem var
undirokað af íslamskri öfgahyggju án þess að geta komið umkvörtunum sínum og hugarangri nokkurs
staðar á framfæri. Fyrirlesturinn er mjög yfirgripsmikill og hefur meðal annars að geyma viðtöl
Tommys við fólk sem orðið hefur fyrir ofsóknum af hálfu íslamskra öfgamanna í borginni.
Fyrirlesturinn varð mjög til að efla orðspor Tommy Robinson á Englandi og varpar nýrri sýn á
innflytjendavandamál á Englandi og rætur hreyfinga sem eru andsnúnar Íslam.

 

Ágúst Borgþór Sverrisson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka