En getur hugsast að upphaf sjálfstæðisbaráttunnar hafi ekki verið runnið undan rifjum Íslendinga? Getur hugsast að upphafið megi rekja til krafna frá Dönum? Ekki er víst að öllum hugnist þessi söguskýring en nýlega skrifaði Søren Mentz, doktor í sagnfræði og forstjóri Museum Amager, grein um þetta sem var birt í Amtsavisen.
„Augnaráðið flöktir aðeins þegar talið berst að þessu máli. Var Ísland ekki eitt sinn hluti af Danmörku? Jú, það er alveg rétt en margir hafa gleymt því. Bæði á Íslandi og í Danmörku. Það er því við hæfi að segja frá því af hverju Íslendingar fagna 100 ára fullveldisafmæli á þessu ári.“
Svona hefst grein Mentz sem fer síðan aftur í tímann og rekur atburðarásina sem að hans mati leiddi til þess að Íslendingar fóru að berjast fyrir sjálfstæði.
„Danski ævintýramaðurinn Jørgen Jürgensen (Jörundur hundadagakonungur, innsk. blm.) kveikti neista byltingarinnar á Íslandi í júní 1809. Með stuðningi frá breskum verslunarleiðangri handtók hann danska stiftsamtmanninn og lýsti Íslands sjálfstætt frá Danmörku,“ segir Mentz og bætir við að stjórn Jörundar hafi ekki verið langlíf því í ágúst hafi breskt herskip birst í Reykjavík. Skipstjóri þess varð mjög hissa á að breskir kaupmenn hefðu hefðu tekið þátt í uppreisn. Stiftsamtmaðurinn var settur í embætti á nýjan leik og Jörundur var fluttur til Lundúna og settur í fangelsi.
„Íslendingar fylgdust rólegir með þessum atburðum. Þeir höfðu ekki áhuga á hverjum þeir tilheyrðu. Fjarri Kaupmannahöfn höfðu þeir alltaf séð um sig sjálfir,“ segir Mentz og heldur áfram:
„Í ár fagna Íslendingar 100 ára fullveldi. Í raun var sjálfstæðið frá Danmörku mjög langt ferli þar sem reynt var að halda í einhvers konar form ríkjasambands. Krafan um meira íslenskt fullveldi kom nefnilega ekki frá Íslandi í upphafi. Fall einveldisins 1848 hafði í för með sér mörg ófyrirséð vandamál, áttu Grundloven (stjórnarskrá Danmerkur, innsk. blm.) einnig að gilda fyrir Ísland og áttu Danir þá að stjórna Íslandi? Það taldi stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson ekki. Hann færði rök fyrir að Ísland hefði verið frjálst sambandsríki undir norsku krúnunni með sjálfstæða stjórn. Hann sagði að eina stöðulagatenging Danmerkur og Íslands væri persónulegt samband við konunginn sem þjóðhöfðinga tveggja fullvalda og sjálfstæðra ríkja. Þungvægasta röksemd þessa íslenska þjóðernissinna var að Ísland og Danmörk væru tvö gjörólík samfélög með tvo ólík tungumál og tvær ólíkar þjóðir. Það sama hafði verið sagt um hertogadæmin í Slésvík og ef ekki var hægt að sameina dönsku og þýsku í eitt þjóðríki þá var ekki heldur hægt að búa til ríki Dana og Íslendinga.“
Síðan víkur Mentz að viðbrögðum danskra stjórnvalda.
„Þetta vildi danska ríkisstjórnin ekki samþykkja. Stríðin í Slésvík stálu allri athyglinni á þessum tíma svo það var ekki fyrr en 1871 sem danskir stjórnmálamenn samþykktu lög um „Stjórnarskrárlega stöðu Íslands í konungsríkinu“. Samkvæmt þeim var Ísland óaðskiljanlegur hluti af danska ríkinu. Þrátt fyrir að stjórnarskráin veitti Alþingi takmarkað löggjafarvald átti að taka mikilvægar ákvarðanir í Kaupmannahöfn. Íslendingar samþykktu stjórnarskrána án mikillar hrifningar en margir Íslendingar voru mjög konungshollir.“
Mentz segir að 1918 hafi danska ríkisstjórnin á nýjan leik samið um samband Íslands og Danmerkur. Danskir stjórnmálamenn hafi of lengi látið undir höfuð leggjast að hlusta á gagnrýni Íslendinga og heimastjórnarlögin 1904 hafi ekki dugað til að koma á ró. Í stuttu máli sagt hafi Íslendingar ekki viljað vera óaðskiljanlegur hluti af Danmörku. Danska ríkisstjórnin og Alþingi náðu samningi um nýtt ríkjasamband, sem var samþykkt í báðum löndum. Í því var kveðið á um að Ísland væri fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku og var Kristján X „nýr“ konungur Íslands.
„Að þetta tókst 1918 á rætur að rekja til annarra mála. Mála sem höfðu mikið tilfinningalegt gildi fyrir Danmörku. Lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og ósigur Þýskalands gaf Dönum tækifæri á að fá Suður-Jótland aftur ef íbúar Norður-Slésvíkur vildu það. Ef fólkið í Norður-Þýskalandi gat greitt atkvæði um hvaða þjóð það vildi tilheyra var erfitt að hafna kröfu Íslendinga um fullveldi, sérstaklega þegar stríðið hafði sýnt fram á að þeir gátu stýrt eigin landi. Þetta virtist vera meðvituð ákvörðun Zahles forsætisráðherra. Hann lýsti því einnig yfir að það gæti aldrei þjónað hagsmunum lítillar þjóðar að kúga þjóð sem væri enn minni. Danmörk gat sameinast Suður-Jótlandi og þannig var hægt að loka sárinu sem varð til í ósigrinum 1864 (þegar Danir töpuðu Suður-Jótlandi í stríði við Þjóðverja, innsk. blm.). Verðmiðinn var stofnun ríkjasambands tveggja sjálfstæðra þjóða með einn konung.“