Flateyjargátan er ný, íslensk spennuþáttarröð í fjórum hlutum sem frumsýnd verður á RÚV sunnudaginn 18. nóvember.
Árið 1971 snýr Jóhanna aftur til Íslands, eftir 10 ára dvöl í París, til að jarða föður sinn sem helgað hafði líf sitt rannsóknum á hinni óleystu Flateyjargátu. Gátan er rituð í Flateyjarbók og í 600 ár hefur engum tekist að leysa hana. Með Jóhönnu í för er níu ára sonur hennar, Snorri. Jóhanna flækist í morðrannsókn á sama tíma og hún reynir að leysa Flateyjargátuna. Hún neyðist til þess að horfast í augu við drauga fortíðar sem elta hana uppi.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Lára Jóhanna Jónsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Hilmir Jensson, Søren Malling, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Sigurður Sigurjónsson.
Leikstjóri er Björn B. Björnsson, höfundur handrits er Margrét Örnólfsdóttir en þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu Viktors Arnar Ingólfssonar.
Flateyjargátan er framleidd af Reykjavik Films og Sagafilm í samstarfi við RÚV og verður sýnd á öllum norrænu almannaþjónustumiðlunum og SKY Vision sér um dreifingu utan Norðurlanda.