Í hádeginu í dag flytja Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Mesti óvinur mannkyns, hórsótt eða eyðni? Orðræður um HIV á Íslandi“. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fimmta erindi þessa haustmisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.
HIV-veirusýking er einn skæðasti sjúkdómsfaraldur síðari tíma. Lokastig hennar, sem almennt gengur nú undir nafninu alnæmi, gerði fyrst vart við sig í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum og var þá talið áður óþekkt tegund sjálfsofnæmis. Á skömmum tíma breiddist þessi óþekkta ógn út og á árunum 1981-1982, þegar HIV-veiran var fyrst kynnt formlega til sögunnar, var hún þegar orðin að heimsfaraldri. Í fyrstu virtist sjúkdómurinn helst herja á homma og aðra jaðarhópa og því var ímynd hans í blöðum og almennri umræðu sniðin eftir fordómafullum erkitýpum. Slíkt ýtti undir jaðarsetningu og fordóma gagnvart þeim hópum sem urðu hvað verst úti. Á Íslandi fór sjúkdómurinn að gera vart við sig nokkrum árum seinna.
Í fyrirlestrinum verða ólíkar orðræður um HIV og alnæmi á Íslandi greindar. Skoðað verður meðal annars hvernig orðræða um kynvillu eða samkynhneigð sem smitandi, erlenda úrkynjun birtist í umræðum um sjúkdóminn, hvernig félagasamtök á borð við Samtökin ´78 brugðust við slíkri umræðu og hvernig hún mótaði baráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks fyrir lagalegu og félagslegu jafnrétti.
Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og leggur nú lokahönd á doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum um hinsegin kynverund í skáldverkum eftir Elías Mar. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í kvenna- og kynjasögu frá Háskólanum í Vínarborg 2016. Saman ritstýrðu þær ásamt Írisi Ellenberger ritrýnda greinasafninu Svo veist þú að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Nýjasta verkefni þeirra þriggja er heimildasöfnunarverkefnið Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960 sem styrkt er af Jafnréttissjóði.