Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, tekur undir þá skoðun að meðvirkni í íslenskri pólitík sé meira vandamál heldur en mistökin. Vísar hann til þar til orða Vilhjálms Árnasonar, prófessors í siðfræði, í Silfrinu á sunnudag.
Styrmir segir:
„Meðvirknin lýsir sér í því að flokksmenn þegja um mistök flokksfélaga sinna eða gagnrýna skoðanir forystumanna ekki, þótt þeir séu þeim ósammála, vegna þess að það mælist illa fyrir innan flokka og er talið koma andstæðingum til góða.
Þetta er ekki nýtt vandamál í stjórnmálum hér heldur eldgamaltog helgast að sumu leyti af fámenni og návígi.
Þessi meðvirkni var mjög áberandi fyrir hrun og hægt er að færa rök fyrir því að þá hafi þjóðin öll verið meðvirk með útrásarvíkingum að einhverju leyti.
Það væri gagnlegt að taka þessa meðvirkni í pólitíkinni til umræðu og gera tilraun til þess að draga úr henni með opnum umræðum um þá djúpstæðu meinsemd, sem hún er.“
Þetta er áhugaverður punktur hjá Vilhjálmi og Styrmi og væntanlega einhverjir sem leita dæma í stjórnmálasögu þjóðarinnar um slíka meðvirkni eftir lesturinn og leita í þau hneykslismál sem upp hafa komið á liðnum árum, þar sem vafasamar gjörðir samflokksmanna eru varðar út í eitt, í stað þess að stíga fram samkvæmt samvisku sinni og fordæma verknaðinn, ummælin eða vinnubrögðin. Mistök stjórnmálamanna eigi ekki endilega að þýða pólitísk endalok viðkomandi, alltént ekki ef þeir viðurkenna mistökin sjálfir.
Kolbrún Baldursdóttir,sérfræðingur í klínískri sálfræði, bloggaði um meðvirkni í stjórnmálum árið 2016. Talar hún um feluleik sem eitt aðalsmerki meðvirkni, þar sem hinn meðvirki tapi gjarnan dómgreind sinni með afneitun og bælingu, til dæmis til að réttlæta gjörðir samflokksmanns:
Meðvirkni í stjórnmálum
Þegar talað er um meðvirkni í pólitík snýst hún oft um tryggð við samflokksmenn og stefnu. Djúpstæð tryggðartilfinning getur náð slíkum tökum á einstaklingi að hann er tilbúinn að ganga fram fyrir skjöldu og verja jafnvel vafasama hegðun samflokksmanns síns.
Feluleikur er eitt aðalsmerki meðvirkni. Reynt er að fela hinn raunverulega vanda eða í það minnsta alvarleika hans. Hugurinn fer á fullt að finna viðeigandi túlkun á „vandanum“ og þeim raunveruleika sem umlykur hann. Reynt er að finna mildari vinkla og stundum er gripið til hreinnar afneitunar og bælingar með tilheyrandi réttlætingum. Allt skal gert til að halda ímyndinni jákvæðri út á við.
Í þessu ástandi tapar hinn meðvirki oft dómgreind sinni og hreinlega dettur úr tengslum við sitt innra sjálf. Hann byrjar að hagræða hlutum, jafnvel ljúga að sjálfum sér án þess að gera sér grein fyrir því.
Stundum er eins og einhvers konar sjálfvirkni taki við og hugur viðkomanda og tilfinningar læsast inn í boxi sem er allt að því brynvarið gegn rökum og jafnvel staðreyndum. Ekkert nær í gegn. Þess vegna er oft talað um meðvirkni sem sjúkdóm. Ástandið getur orðið geigvænlegt og fólk sem reynir að ná til hins meðvirka horfir á fjarrænt augnaráðið og hlustar á óminn af síendurteknum frösum sem verður eins og biluð grammófónplata. Hinn meðvirki hefur stimplað inn í huga sinn ákveðna útskýringu eða réttlætingu sem hann endurtekur í sífellu í þeirri von um að stimpla hana inn í huga annarra. Því oftar sem hann endurtekur sig því sannfærðari verður hann um að þetta sé sannleikurinn og að þeir sem halda einhverju öðru fram skorti skilning eða séu bara vitlausir, jafnvel vondir?
Hvað viðheldur meðvirkni?
Það getur verið flókið samspil ólíkra þátta sem orsakar og viðheldur meðvirknihugsun og hegðun. Ástæður og orsakir liggja m.a. í persónuleika-uppeldis- og aðstæðubundnum þáttum. Þegar horft er orsakir meðvirkni í stjórnmálum er auk skuldbindingar um tryggð einnig að spila inn í tilfinningar eins og samviskusemi, trúin að vera ómissandi og að sjálfsögðu væntumþykja og kannski einnig meðaumkun með þeim sem meðvirknin snýst um.
Meðvirkir einstaklingar kjósa oft, vegna eigin óöryggis, að vera frekar „fylgjendur“ fremur en frumkvöðlar. Þeir sem hafa, af óttablandinni virðingu fylgt liði að baki t.d. „einræðisherrum“ af einhverri sort eru oft mjög meðvirkir með leiðtoga sínum. Þeir standa jafnvel með honum út yfir gröf og dauða og gildir þá einu þótt sá hinn sami hafi gerst sekur um siðferðisbrot eða glæp.
Meðvirkniástand felur einnig í sér vissa eigingirni. Hinn meðvirki óttast um eigin hag spili hann ekki með. Hann óttast að vera „hent út“ og utan hópsins muni hann e.t.v. ekki spjara sig nógu vel? Hann veltir fyrir sér eigin stöðu fari hann gegn hópmenningunni s.s. orðspori, hlutverkamissi, fjárhagslegri og félagslegri afkomu sinni og öryggi. Oft skortir einfaldlega kjark og áræðni til að mótmæla ríkjandi skoðun hópsins. Sá sem finnur að hann er hvorki sammála né sáttur og ákveður að fylgja eigin sannfæringu í aðstæðum sem þessum þarf að hafa stórt bein í nefinu og breitt bak. Hann þarf að vera tilbúinn að taka afleiðingunum kjósi hann að mótmæla og finnast að eigin samviska sé meira virði en þær. Stundum gerist það að samviskan sem kraumar undir niðri tekur völdin og brýtur sér leið gegnum meðvirknimúrinn. Varnirnar bresta þá stundum eins og spilaborg og manneskjunni finnst hún verða að bakka út ef sjálfsvirðingin á ekki að hljóta skaða af.