Í dag kl. 17 opnar sýningin Greetings from Turku í Grafíksalnum, sýningarsal félagsins Íslensk Grafík í Hafnarhúsinu. Sýningin er samvinnuverkefni Turku Printmakers Association og félagsins Íslensk Grafík. Sumarið 2019 munu fulltrúar ÍG heimsækja Turku og halda sína sýningu í Gallerí Joella í Turku, Finnlandi.
Félag Turku Printmakers í Finlandi samanstendur af myndlistamönnum sem vinna myndlist sína með fjölbreyttum tæknilegum aðferðum grafíklistarinnar. Félagið var upphaflega stofnað árið 1933 til að koma grafíklistinni og listamönnum á framfæri bæði í Finnlandi og erlendis. Félagið hefur starfað sleitulaust frá fyrsta degi.
Fjölmargar sýningar félagsmanna hafa verið haldnar vítt og breitt um Finnland og vakið mikla athygli almennings á grafíklistinni. Fulltrúar Turku hafa einnig sýnt verk sín á sýningum erlendis, þær fyrstu voru haldnar í Moskvu og Ríga árið 1934. Undanfarin ár hafa Turku Printmakers heimsótt norræna kollega sína og grafíkfélög og með yfir 90 félagsmönnum hefur félagið sett merk sitt á síbreytilegt landslag samtímalistarflóru Finnlands.
Greetings from Turku er samsýning 11 grafíklistamanna sem vinna í mismunandi stíl og tækni í prentlistinni.
Listamennirnir eru: Marja Aapala, Jemena Höijer, Katri Ikävalko, Juha Joro, Petra Kallio, Heli Kurunsaari, Lotta Leka, Marita Mikkonen, Hanna Tammi, Tiina Vainio, Hanna Varis
Sýningin stendur yfir frá 10. – 25.nóvember. Opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 14 – 17.
Sýningin er styrkt af: Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar, Íslensk-Finnska menningarsjóðnum, Norræna Menningarsjóðnum, & Arts Promotion Centre Finland.