Tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant frá Vestmannaeyjum tilkynnti fyrr á þessu ári um útgáfu nýjustu plötu sinnar, „Across the Borders“ sem átti að koma út í dag, þann 9. Nóvember. Síðan þá hefur ýmislegt gerst og Júníus Meyvant hefur gert útgáfusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfan leggur mikla áherslu á.
Júníus Meyvant, sem er á mála hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Record Records, er mjög ánægður með þessa breytingu á Bandaríkjamarkaði þar sem hann telur sig hafa fundið gott heimili fyrir tónlistarsköpun sína. Record Records mun áfram sinna útgáfumálum Júníusar hér á Íslandi sem og allri Evrópu. Vegna samningsins við Glassnote var tekin sú erfiða ákvörðun að fresta útgáfu plötunnar til 25. janúar 2019.
Þrátt fyrir seinkunina fáum við að heyra nýtt lag í dag en Júníus sendi frá sér enn einn slagarann af væntanlegri plötu sinni í dag og er það lagið Let It Pass.
Júníus Meyvant kemur fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem fer fram í Reykjavík þessa dagana og frumflytur þar efni af nýju plötunni í Gamla Bíói á laugardagskvöld kl. 22.40.
Um Júníus Meyvant
Tónlistarmaðurinn og Vestmanneyingurinn Unnar Gísli Sigurmundsson hefur samið og gefið út tónlist sem Júníus Meyvant í allnokkur ár.
Unnar ólst upp á heimili á Heimaey þar sem trú og tónlist var í hávegum höfð og náttúran í eynni var leikvöllur hans á uppvaxtarárunum. Sem ungur drengur varði hann mestum tíma sínum í að gera kúnstir á hjólabretti og mála myndir til þess að fá sína útrás. Snemma varð ljóst að Unnar væri orkumikið barn og á köflum sérvitur og hafði mikla þörf til þess að tjá sig. Reglulega átti hann samtal við sjálfan sig um hvort hann ætti að beina orkunni í átt að tónlist en hvatvísi hans og frjáls hegðun olli því að honum var vísað úr tónlistarskóla. Á unglingsárum voru allir draumar hans um að verða tónlistarmaður víðs fjarri og orka hans fór í aðra hluti.
Um tvítugt byrjaði Unnar að glamra á útjaskaðan gítar sem hann fann á heimili foreldra sinna. Loksins fann hann sína réttu fjöl með gítarspilinu sem hjálpaði honum að róa ólguna innra með sér og smám saman jókst næmni hans fyrir lagasmíðum og fallegum laglínum. Sköpunarkrafturinn fór á flug og um árabil spilaði Unnar með hljómsveit sem fullnægði ekki þörfum hans og ákvað hann að gera sína eigin tónlist undir nafninu Júníus Meyvant.
Þjóðlagatónlist Júníusar Meyvant er hjartnæm, hlý og kunnuleg og er hinn óheflaði Unnar skammt undan. Hljóðheimur Júníusar er stór og samansettur af mjúkri rödd, lokkandi gítarspili, þéttum hrynjanda, lúðrablæstri, hljómborðum og mellotron. Þá Sam Cooke, Charles Bradley, The Rolling Stones og fleiri telur Unnar sem sína áhrifavalda sem nú hefur gefið út eina breiðskífu og eina þröngskífu.
Árið 2014 gaf Unnar út fyrstu smáskífu sína, Color Decay, hjá Record Records. Smáskífan hitti strax í mark á Íslandi og hlaut sömuleiðis lof hjá erlendum miðlum á borð við KEXP, NPR og Gaffa. Ári seinna hlaut Unnar íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu smáskífuna og nýliða ársins. Með góðan meðbyr í farteskinu fóru Júníus og meðspilarar hans í vel heppnaðar tónleikaferðir til Evrópu og Bandaríkjanna sem innihéldu tónleika á Hróaskeldu og Bumbershoot í Seattle.