Ein af bestu jólasmákökunum að okkar mati eru mömmukökur. Hér er uppskrift frá móður minni sem klikkar aldrei. Þessar eiga eftir að hverfa eins og dögg fyrir sólu!
Hráefni – Kökur:
4 bollar hveiti
150 g smjör
150 g sykur
1 bolli síróp
2 tsk. engifer
1 tsk. matarsódi
1 egg
Aðferð:
Hitið smjör, sykur og síróp saman í potti yfir meðalháum hita þar til allt er bráðið og búið að blandast saman. Hér þarf ekki að hræra mikið í blöndunni. Kælið. Hrærið egg saman við smjörblönduna og síðan restina af hráefnunum. Hnoðið deigið vel saman og kælið það í ísskáp yfir nótt en það sleppur að kæla það í 3 klukkutíma. Hitið ofninn í 200°C og setjið bökunarpappír á ofnplötur. Fletjið deigið út en mér finnst kökurnar betri ef þær eru í þynnra lagi. Skerið út form eða með glasi og bakið þar til kökurnar hafa brúnast, 7-9 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kremið er sett á.
Hráefni – Krem:
100 g mjúkt smjör
250 g flórsykur
2 tsk. vanilludropar
7-8 msk. mjólk
Aðferð:
Hrærið smjör og flórsykur vel saman. Bætið vanilludropum og mjólk saman þar til kremið er orðið hæfilega þykkt. Smyrjið þessu á helminginn af kökunum og notið hinn helminginn til að loka þeim þannig að úr verði eins konar samloka.