fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025

Hin heilaga forhúð

Umskurður hefur verið stundaður í fjölda menningarsamfélaga í þúsundi ára. Nú ræða íslenskir þingmenn um hvort banna skuli aðgerðina

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 24. febrúar 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðasta mánuði settu átta íslenskir þingmenn fram frumvarp um bann við umskurði drengja að viðurlögðu allt að sex ára fangelsi. Röksemdirnar sem eru settar fram fyrir banninu snúast um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga yfir eigin líkama en einnig hefur verið gripið til læknis- og sálfræðilegra raka.

Frumvarpið hefur vakið mikla athygli víða um heim og hafa trúarleiðtogar allra þriggja trúarbragðanna sem tengja sig við Abraham – kristni, íslam og gyðingdóms – gagnrýnt frumvarpið. Þeir og aðrir gagnrýnendur hafa sett fram fjölmenningarleg rök með áherslu á trúfrelsi og segja bannið útilokandi, enda myndi það í raun gera trúarbrögð þeirra sem hefðina stunda ólögleg.

Í ljósi umræðunnar skoðar DV sögu og menningu umskurðar drengja.

Hreinlæti verður að hefð

Umskurður drengja er sú aðgerð þegar forhúðin, skinnið sem er aðeins of stórt fyrir getnaðarliminn linan, er skorið af. Elstu þekktu heimildirnar um umskurð eru meðal faraóa Egyptalands. Þetta er hægt að greina á múmíum sem hafa varðveist sem og í veggmyndum frá rúmlega þriðja árþúsundi fyrir Krist. Þar má sjá myndir af umskornum karlmönnum og umskurðaraðgerðum.

Það er þó mögulegt að umskurður drengja og karlmanna eigi sér mun eldri sögu, en slíkar aðgerðir tíðkuðust (og gera jafnvel enn) í mörgum ólíkum menningarsamfélögum víða um heim áður en þau komust í kynni við vestræna menningu, ættbálkasamfélögum frumbyggja í Ameríku, Afríku og Eyjaálfu. Ástæðurnar fyrir aðgerðinni eru fjölmargar og mismunandi, þær eru hluti af manndómsvígslu, eru eins konar fórnarathafnir, sönnun á karlmennsku, eiga ýmist að minnka eða auka ánægju við kynferðisathafnir, eða stuðla að heilbrigði.

Sú kenning hefur oft verið sett fram að grunnástæðan fyrir því að hefðin hafi þróast sé auðveldari þrifnaður og þar með minni hætta á ýmsum sjúkdómum, sérstaklega í heimshlutum þar sem reglulegur þvottur getur verið erfiður, til að mynda þar sem eru heitar eyðimerkur.

Líkamlegur sáttmáli við Guð

Það var líklega í Egyptalandi sem Gyðingar byrjuðu að umskera sveinbörn sín. Gyðingar líta á umskurð sem líkamlegt og varanlegt tákn um samning Drottins og mannkynsins, og er sagt frá í fyrstu Mósebók Gamla testamentsins, 17. kafla: „Þið skuluð umskera hold forhúðar ykkar. Það sé tákn sáttmálans milli mín og ykkar. Hvert átta daga sveinbarn skal umskera meðal ykkar, kynslóð eftir kynslóð. […] Óumskorinn karlmaður, sem hefur ekki látið umskerast á holdi forhúðar sinnar, hefur rofið sáttmála minn og skal upprættur verða úr þjóð sinni.“

Þó að ritningin sé skýr um að án umskurðar geti enginn talist vera Gyðingur eru engu að síður dæmi í sögu gyðingdóms um hópa eða einstaklinga sem á tilteknum tímabilum töldu sig ekki þurfa að framfylgja þessari hefð. Siðurinn hefur þó að mestu leyti haldist, og það er kannski ekki síst vegna annarra hliðaráhrifa hans. Umskurðurinn hefur meðal annars gegnt því hlutverki að sameina Gyðinga og aðgreina frá öðrum samfélögum á sýnilegan hátt, verið líkamlegt tákn um að þeir séu annars eðlis en aðrir menn – hin Guðs útvalda þjóð. Það er ekki síst sú sannfæring sem hefur gert þeim kleift að halda í einkenni sín og menningu í árhundruð án sameiginlegs heimalands.

Blaðamaður DV ræddi við Gunnlaug A. Jónsson, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, sem segir það til marks um mikilvægi athafnarinnar í trú Gyðinga að hana má jafnvel framkvæma á hvíldardaginn og helgasta degi í gyðinglegri trú Yom Kippur: „þessi athöfn er algjört grundvallaratriði í gyðingdómi.“

Sáttmáli við Guð

Úr 1. Mósebók 17. kafla

Og Guð sagði við Abraham: „Þú skalt halda sáttmála minn, þú og niðjar þínir eftir þig, kynslóð eftir kynslóð. Þessi er sáttmálinn milli mín og ykkar og niðja þinna eftir þig, sem þið skuluð halda: Allt karlkyn meðal ykkar skal umskera. Þið skuluð umskera hold forhúðar ykkar. Það sé tákn sáttmálans milli mín og ykkar. Hvert átta daga sveinbarn skal umskera meðal ykkar, kynslóð eftir kynslóð, þau sem heima eru fædd og líka hin sem keypt eru af útlendingi sem eigi er af þínum ættlegg. Þau skal umskera, bæði þau sem heima eru fædd og þau sem keypt hafa verið. Sáttmáli minn á holdi ykkar skal vera eilífur sáttmáli. Óumskorinn karlmaður, sem hefur ekki látið umskerast á holdi forhúðar sinnar, hefur rofið sáttmála minn og skal upprættur verða úr þjóð sinni.

Umskurður og nafnaveisla

Samningurinn við Guð undirritaður í Brit milah
Ein allra mikilvægasta trúarathöfn Gyðinga

Ein allra mikilvægasta trúarathöfn Gyðinga

Umskurðarathöfnin sem kölluð er „Brit milah“ á hebresku er ein mikilvægasta athöfnin í trúarlífi Gyðinga. Eins og í hinni kristnu skírn er nafngjöf hluti af athöfninni sem á hins vegar að fara fram átta dögum eftir fæðingu sveinbarns ef þess er kostur – ef heilsa barnsins leyfir ekki skal fresta athöfninni þar til átta dögum eftir að barnið er orðið hraust.

Athöfnin er ýmist framkvæmd á heimilum fólks, í samkunduhúsum Gyðinga, eða á sjúkrahúsum. Ef hún fer fram á sjúkrahúsi er það hjúkrunarfræðingur sem framkvæmir sjálfan umskurðinn en annars er það sérstakur umskurðarmeistari, kallaður „mohel“, sem hefur fengið bæði trúarlega menntun og leiðsögn í síkum skurðaðgerðum.

Hefðirnar eru ólíkar í mismunandi samfélögum Gyðinga og má til dæmis nefna að hjá ákveðnum hópum bókstafstrúaðra Gyðinga er hefð fyrir því að mohel stöðvi blæðinguna með því að sjúga sárið, en þetta er þó mjög óalgengt í dag.

Það er mikilvægt að þegar athöfnin fer fram sé tómur stóll sem er ætlaður spámanninum Elíasi, en hann er verndari slíkra aðgerðra samkvæmt gyðingdómi.

Kristnir hætta að umskera

Gunnlaugur segir siðurinn hafi hins vegar verið umdeildur strax í frumkristni og fljótt horfið. „Það kemur fram í Nýja testamentinu að Jóhannes skírari, Jesús frá Nasaret og Páll postuli hafi allir verið umskornir. En Páll, sem segja má að hafi verið höfuðguðfræðingur frumkristninnar gerði upp við umskurnina eins og svo margt annað í gyðingdómi. Hann sagði umskurn engu skipta heldur væri aðalatriðið í samfélaginu við Jesú Krist „trú sem verkar í kærleika.“ Þannig að umskurn varð strax í upphafi kristninnar útlæg gerð á þeim vettvangi þó að tekist væri á um hana í upphafi.“

Umskurður drengja hefur hins vegar haldist sem hluti af trúarsiðum nokkurra kristinna hópa svo sem Kopta í Egyptalandi og eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni. Þá spunnust á miðöldum upp ýmsar sögur um hina afskornu forhúð Jesú Krists og kváðust þónokkrar kirkjur í Evrópu hafa forhúðina í fórum sínum og átti hún að vera uppspretta mikilla kraftaverka. Umskurður Krists hefur þá verið viðfangsefni fjölmargra málverka, ekki síst á endurreisnartímanum.

Umskurður var strax frá upphafi hluti af íslam eftir að hún þróaðist út frá kristni. Aðgerðin ku hafa verið framkvæmd af hirðingjum á Arabíuskaganum löngu áður að Múhameð breiddi kenningar sínar um svæðið – og rímar það við kenningar um gagnsemi umskurðar fyrir hreinlæti á heitum eyðimerkursvæðum.

Blaðamaður DV ræddi við Kristján Þór Sigurðsson, doktorsnema í mannfræði, sem nú rannsakar samfélag múslima í Íslandi. Hann segir að ólíkt því sem Gyðingar álíta sé umskurðurinn ekki algjört skilyrði fyrir því að teljast múslimi: „Það er ekki eining um þetta meðal múslímskra fræðimanna en strangt til tekið er umskurn drengja ekki trúarleg skylda hjá múslimum, það er til dæmis ekkert um þessa aðgerð í Kóraninum,“ segir Kristján Þór. „Umskurn drengja er þó algeng meðal múslima, en þó frekar sem menningarleg hefð, og fyrst og fremst sem staðfesting á því að þeir tilheyri ákveðnu samfélagi.“

Drengir úr hópi frumbyggja í Arnhem Land í Ástralíu undirbúa sig undir manndómsvígslu þar sem umskurður fer fram.
Í fullorðinna manna tölu Drengir úr hópi frumbyggja í Arnhem Land í Ástralíu undirbúa sig undir manndómsvígslu þar sem umskurður fer fram.

Mynd: This content is subject to copyright.

Spornað gegn sjálfsfróun

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2007 segir að um þriðjungur karlmanna í heiminum sé umskorinn. Umskurðurinn er þó ekki næstum því alltaf framkvæmdur vegna trúarsetninga. Á 18. og 19. öld fóru læknar í Bretlandi og síðar Bandaríkjunum að mæla með umskurði af heilsufarslegum ástæðum. Kristnir menn höfðu lengið talið sjálfsfróun syndsamlega og með upplýsingunni fóru læknar að færa vísindaleg rök fyrir því að sjálfsfróun hefði slæmar heilsufarslegar afleiðingar, gæti ekki bara leitt til geðkvilla heldur ýmissa annarra sjúkdóma. Umskurður átti að koma í veg fyrir slíka hegðun, en einnig stuðla að hreinlæti og minnka hættuna á ýmsum kynsjúkdómum og jafnvel krabbameini.

Á fyrri hluta 20. aldarinnar var umskurður orðinn algengur víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem nánast allir drengir voru umskornir um miðja öldina, en einnig löndum eins og Suður-Kóreu og Filippseyjum. Þó að umskurður hafi verið á undanhaldi undanfarna áratugi er enn í dag meira en helmingur bandarískra drengja umskorinn – eða um 55 prósent samkvæmt tölum frá aldamótum. Foreldrar láta þá oftar en ekki framkvæma aðgerðina til að koma í veg fyrir að drengurinn upplifi sig óvenjulegan.

Læknar ennþá ósammála

Umræðan

Umræðan

Silja Dögg Gunanrsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins:„Þetta er ofbeldi gegn börnum, þau fara í sjokk börnin, þau gráta og mér finnst þetta bara ekki boðlegt.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands:„Hættan sem blasir við [… er að gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir.“

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.„Óneitanlega hljótum við að velta fyrir okkur hvort þetta sé hluti af trúfrelsi. Hvort það að breyta líkama barnanna þinna geti fallið fallið undir trúarskoðun eða trúfrelsi.“

Melchior-bræðurnir, leiðtogar gyðinga á Norðurlöndum:„Umskurn er ekki bönnuð í neinu landi í heiminum í dag. Þetta setur hættulegt fordæmi sem gæti haft áhrif á önnur lönd.“

Yfir 400 íslenskir læknar í sameiginlegri yfirlýsingu:„Við teljum að án [læknisfræðilegra ábendinga fyrir honum] gangi umskurður á ungbörnum gegn Genfaryfirlýsingu lækna og samræmist því síður grundvallarviðmiðum Helsinki-yfirlýsingar lækna um réttinn til sjálfsákvörðunar og upplýsts samþykkis.“

Mansoor Ahmad Malik, ímam Múslimafélags Íslands:„Þetta getur leitt til þess að fólk framkvæmi slíkar aðgerðir sjálft í óviðeigandi umhverfi, hugsanlega til skaða fyrir barnið.“

Enn í dag deila læknar um hvort umskurður drengja hafi jákvæðar heilsufarslegar afleiðingar sem réttlæti aðgerðina.
Stuðningsmenn segja umskurð vera óverulega aðgerð sem auðveldi hreinlæti, geri smit kynsjúkdóma (og til að mynda HIV) erfiðara og minnki líkur á ýmsum öðrum kvillum.

Aðrir telja slíka kosti óverulega miðað við aðgerðina sjálfa sem þeir segja mjög sársaukafulla fyrir nýfæddan dreng og bjóði smithættu heim, sérstaklega þegar aðgerðin er framkvæmd í heimahúsi. Það að auki geti aðgerðin leitt til ýmissa óþæginda síðar á lífsleiðinni, enda gegni forhúðin því hlutverki að vernda kóng limsins og þar séu taugaendar sem hafi áhrif á næmi kynfærisins.

Það sem skiptir þó kannski hvað mestu í máli þeirra sem eru andsnúnir umskurðinum eru siðferðilegu rökin, það sem þeir álíta vera brot á sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga yfir eigin líkama – en í dag er það í huga margra algild mannréttindi. Þar sem ekki er um að ræða nauðsynlega – og jafnvel þvert á móti óæskilega – aðgerð er það álitið brot á réttindum barnsins að framkvæma hana án upplýsts samþykkis. Á þessum forsendum hafa umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvatt til þess að aðgerðin sé bönnuð.

Á móti hefur svo verið að bent að slíkar ákvarðanir séu teknar nær daglega fyrir börn án þess að þau séu spurð álits, háls- og nefkirtlar barna séu fjarlægðir og þau bólusett – allt í þeim tilgangi að tryggja heilsu og velferð barnanna.

Mannréttindi eða fjölmenning

Umskurður er einhver elsta og algengasta skurðaðgerð sem framkvæmd er í heiminum í dag. Vegna sögulegra ástæðna og lítilla samfélaga múslima og Gyðinga í landinu er Ísland líklega eitt af þeim löndum þar sem umskurður er hvað sjaldnast framkvæmdur. Engu að síður gæti það orðið fyrsta landið til að banna slíkar aðgerðir með frumvarpinu sem lagt hefur verið fram á Alþingi – en samkvæmt því verða viðurlög við því allt að sex ára fangelsi.

Frumvarpið hefur vakið upp sterk viðbrögð bæði heima og erlendis, þar sem læknar, barnaverndaryfirvöld, trúarleiðtogar og fjölmargir aðrir hafa tjáð skoðanir sínar. Rökin með frumvarpinu eru eins og áður segir bæði heilsufarsleg, varða barnavernd og sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga yfir eigin líkama.

Gagnrýnendur hafa líka gripið til læknisfræðilegra raka, en meginrökin eru þó oftar að lögin brjóti gegn réttindum tiltekinna trúarhópa til að iðka trú sína og hefðir. Þeir segja að lögin muni fyrst og fremst bitna á minnihlutahópum í íslensku samfélagi, hóparnir muni upplifa sig óvelkomna og jafnvel útlæga úr íslensku samfélagi – lagafrumvarpið sé því fordómafullt og útilokandi.

Þessi deila er á margan kennslubókardæmi um þau menningarátök sem eiga sér æ oftar stað í vestrænu fjölmenningarsamfélagi nútímans, milli gilda hinnar ráðandi vestrænu menningarheildar annars vegar og annarra smærri menningarhópa hins vegar. Áhersla á það sem frá miðri 20. öld hafa verið skilgreind sem algild mannréttindi hvers einstaklings stangast í mörgum tilfellum á við fornar hefðir annarra hópa og menningarsamfélaga.

Þarna virðist hnífurinn standa í kúnni. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt munu lögin standa vörð um rétt einstaklings til sjálfsákvörðunar yfir eigin líkama en það verður hins vegar á kostnað minnihlutahópa, trúar þeirra, hefða og samsömunar með íslensku samfélagi. Í viðleitni sinni til að vernda öll börn fyrir ónauðsynlegum líkamlegum sársauka útilokar velferðarríkið heila menningarhópa frá þátttöku í samfélaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Efling klagar Subway og Hard Rock: Alþjóðlegir risar látnir vita af meintum réttindabrotum

Efling klagar Subway og Hard Rock: Alþjóðlegir risar látnir vita af meintum réttindabrotum
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport