fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Úrslit bandarísku þingkosninganna gera Trump erfitt fyrir

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 10. nóvember 2018 09:30

Nancy Pelosi er þyrnir í augum margra hægrimanna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstaða þingkosninganna í Bandaríkjunum á þriðjudaginn kom almennt ekki á óvart. Demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeild þingsins en kosið var um öll 435 sætin í deildinni. Repúblikanar héldu meirihluta sínum í öldungadeildinni og því verður ástandið þar óbreytt hvað varðar samskipti þings og forseta. En það að demókratar séu nú komnir í meirihluta í fulltrúadeildinni breytir ýmsu fyrir Donald Trump forseta og möguleikar hans á að koma stefnumálum sínum áfram verða minni. Ýmsir stjórnmálaskýrendur telja að niðurstaðan sé ávísun á kyrrstöðu og skítkast manna á milli næstu tvö árin eða þar til kosið verður um nýjan forseta, nýja fulltrúadeild og þriðjung öldungadeildarþingsæta eftir tvö ár.

Fram að þessu hefur Trump getað reitt sig á meirihluta repúblikana í báðum deildum þingsins til að koma stefnumálum sínum í gegn. En nú er staðan gjörbreytt og getur haft í för með sér að lagafrumvörp komist ekki í gegnum þingið. Ferlið er þannig að lagafrumvörp þarf að samþykkja í báðum deildum þingsins og síðan þurfa þau að fara til undirritunar hjá forsetanum. Samkomulag demókrata og repúblikana er ekki gott og engin teikn eru á lofti um að það fari batnandi. Því má telja nokkuð víst að þar muni stálin stinn áfram takast á. Þannig mun þingið í raun vera lamað og fá eða engin lagafrumvörp munu hljóta afgreiðslu nema auðvitað kraftaverkið gerist og flokkarnir fari að starfa saman. Trump mun því þurfa að beita forsetatilskipunum í miklum mæli og komast að því hversu langt hann getur gengið í einstökum málum án þess að njóta aðstoðar þingsins við það.

Sama staða var uppi á teningnum þegar Barack Obama tók við forsetaembætti. Þá ákváðu repúblikanar á þingi að hindra allt sem frá honum kom til að lama hann sem forseta. Obama nýtti því forsetatilskipanir í miklum mæli.

 

Donald Trump
Sagði úrslitin stórkostlegan árangur en þau voru í raun mikill skellur.

Nýr aðalóvinur Trump

Niðurstaða kosninganna þýðir að Trump hefur eignast nýjan aðalóvin, það eru demókratarnir í fulltrúadeildinni. Hann mun væntanlega beina spjótum sínum að þeim í hvert sinn sem eitthvað mistekst hjá honum næstu tvö árin.

Þegar nýtt þing tekur til starfa eftir tvo mánuði breytist margt í bandarískum stjórnmálum. Fulltrúadeildin sem hefur undanfarið samþykkt herta innflytjendalöggjöf, ógilt Obamacare og skorið grimmt niður í félagslegum útgjöldum mun nú væntanlega breyta um stefnu undir stjórn demókrata. Fyrsta mál á dagskrá að sögn Nancy Pelosi, sem verður væntanlega leiðtogi demókrata í deildinni, er að samþykkja frumvörp um siðferði innan stjórnkerfisins og endurbætur á kosningakerfinu. Þessi frumvörp munu síðan væntanlega daga uppi í öldungadeildinni en demókratar munu með vinnu sinni ætla að sýna kjósendum hvað þeir muni gera ef þeir ná meirihluta í báðum deildum eftir tvö ár og jafnvel forsetaembættinu.

Trump getur aðeins vonast til að koma frumvörpum í gegnum þingið með því að starfa þvert á flokkslínur. Það gæti reynst honum erfitt enda eyddi hann síðustu mánuðum í að ráðast harkalega á demókrata á kosningafundum víða um Bandaríkin og var orðfærið ekki alltaf fagurt. Það hlýtur einnig að valda honum áhyggjum að demókratar geta nú hert enn frekar þær rannsóknir sem eru í gangi á meintum tengslum forsetaframboðs Trump við Rússa. Einnig kann að vera stutt í að skattaskýrslur Trump verði birtar opinberlega en hann hefur ekki viljað opinbera þær.

Trump er að vanda óútreiknanlegur og eftir að úrslit kosninganna lágu ljós fyrir fagnaði hann þeim og sagði þau „stórkostlegan árangur“. Þetta sagði hann þrátt fyrir að repúblikanar hefðu misst völdin í fulltrúadeildinni. Hugsanlega hefur hann þarna átt við það ljós í myrkrinu fyrir repúblikana að þeim tókst að halda meirihluta í öldungadeildinni. Það hefði verið gríðarlegt áfall fyrir Trump ef demókratar hefðu náð meirihluta í öldungadeildinni. Þá hefðu verið auknar líkur á að þeir hefðu hafið ferli til að reyna að koma honum frá völdum með því að höfða mál á hendur honum fyrir þinginu.

En það er kannski ekki alslæmt fyrir Trump að demókratar verða nú í meirihluta í fulltrúadeildinni. Nú getur hann kennt þeim um ef efnahagslífið þróast til hins verra og nú hefur hann fullkomna afsökun fyrir að geta ekki komið neinu í verk næstu tvö árin. Þessu getur hann hamrað á fyrir næstu kosningar og bent á að þessu þurfi að breyta og þannig reynt að fá kjósendur til liðs við repúblikana. Hann er sem sagt kominn með nýjan og augljósan óvin sem er á allt annarri línu en hann sjálfur.

Þrátt fyrir tapið geta repúblikanar glaðst yfir árangri einstakra frambjóðenda. Ted Cruz stóðst atlögu Beto O’Rourke, helstu vonarstjörnu demókrata, í Texas. Aðrir frambjóðendur sem náðu góðum árangri voru meðal annars í Flórída, Indiana, Norður-Dakóta og Missouri. Demókratar geta glaðst yfir góðum sigrum í Flórída, Virginíu, Pennsylvaniu og Minnesota en þessir sigrar ættu að blása þeim bjartsýni í brjóst fyrir kosningarnar eftir tvö ár.

Tímamót hjá konum og minnihlutahópum

Þau tímamót urðu í kosningunum að þessu sinni að metfjöldi kvenna var kjörinn til setu í fulltrúadeildinni en þær verða um 100 en voru 84 á kjörtímabilinu sem er að ljúka og  22 konur voru kjörnar til setu í öldungadeildinni.

Einnig fengu margir frambjóðendur, úr röðum minnihlutahópa, góða kosningu. Þar má nefna að tvær konur af ættum frumbyggja voru kjörnar á þing og tvær islamskar konur náðu kjöri og eru fyrstu islömsku konurnar sem eru kjörnar á þing. Í Colorado var Jared Polis kjörinn ríkisstjóri og er hann fyrsti samkynhneigði ríkisstjórinn, að minnsta kosti sá fyrsti sem fer ekki leynt með kynhneigð sína. Í Arizona og Tennessee voru konur kosnar til setu í öldungadeildinni en það er í fyrsta sinn sem það gerist í þessum ríkjum.

Í New York var Alexandria Ocasio-Cortex kjörin á þing fyrir demókrata en hún er aðeins 29 ára og yngsta konan í sögunni til að taka sæti í fulltrúadeildinni. Hún þykir vera langt til vinstri í flokknum og hefur vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu í kosningabaráttunni og vann glæsilegan sigur í kjördæmi sínu þar sem hún fékk 78 prósent greiddra atkvæða. Fyrir aðeins ári vann hún á bar til að framfleyta fjölskyldu sinni.

Árangur kvenna er sérstaklega glæsilegur og margir fagna honum og telja að nú verði ákveðin tímamót í bandarískum stjórnmálum þar sem konur láti meira til sín taka. Tími hvítra karla, í aðalhlutverkum á þingi, sé að líða undir lok.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Í gær

Banaslys er maður féll í Tungufljót

Banaslys er maður féll í Tungufljót